Stormurinn (1997-2006)

Stormurinn

Stormurinn var harmonikkuhljómsveit sem starfaði í um áratug og lék oftsinnis á harmonikkusamkomum, einkum á höfuðborgarsvæðinu.

Stormurinn var eins konar harmonikkuhljómsveit Harmonikufélags Reykjavíkur og var að öllum líkindum stofnuð haustið 1997, hún kom að minnsta kosti fyrst fram snemma árs 1998 – hugsanlega gekk hún fyrst um sinn undir nafninu Stormsveitin.

Á næstu árum lék sveitin víða á harmonikkudansleikjum og tengdum samkomum s.s. á Harmonikuhátíð Reykjavíkur, Degi harmonikunnar, Hátíð harmonikunnar og alþjóðlegu hátíðinni The International Reykjavík accordion festival en lag kom einmitt út með sveitinni á safnplötu sem gefin var út í tengslum við þá hátíð árið 2000.

Örn Falkner var lengst af stjórnandi sveitarinnar en Vadem Fedrow stjórnaði henni undir lokin, sveitin starfaði til ársins 2006 af því er virðist. Stormurinn var eitthvað misjafn að stærð, líklega frá átta og upp í fimmtán manna sveit – mestmegnis skipuð harmonikkuleikurum en einnig trommu- og bassaleikara. Ekki er að finna upplýsingar um nöfn meðlima sveitarinnar.