Stórsveit Harmonikufélags Reykjavíkur (1990-2000)

Stórsveit Harmonikufélags Reykjavíkur

Innan Harmonikufélags Reykjavíkur starfaði um árabil hljómsveit harmonikkuleikara undir nafninu Stórsveit Harmonikufélags Reykjavíkur (stundum nefnd Stórhljómsveit Harmonikufélags Reykjavíkur). Það var Karl Jónatansson sem var heilinn á bak við þessa sveit en hann stjórnaði henni alla tíð, Karl var reyndar einn af frumkvöðlum og stofnendum Harmonikufélags Reykjavíkur haustið 1986 en heimildir finnast um sveitina frá árunum 1990 til 2000. Reyndar hafði Karl stjórnað einhvers konar stórsveit harmonikkuleikara á Hátíð harmonikunnar vorið 1986 og líklega stofnaði hann svo félagið í kjölfarið um haustið.

Stórsveit Harmonikufélags Reykjavíkur lék oftsinnis á ári á tónleikum, dansleikjum og öðrum uppákomum í harmonikusamfélaginu s.s. á fyrrnefndri Hátíð harmonikunnar, Degi harmonikunnar og víðar en sveitin fór að minnsta kosti einu sinni utan til spilamennsku – spilaði þá í Tívolíinu í Kaupmannahöfn 1996. Sveitin mun hafa verið nokkuð misjöfn að stærð og á síðari starfsárum hennar voru á bilinu fjörutíu og fimmtíu liðsmenn í henni, flestir harmonikuleikarar en einnig hrynsveit. Sveitin kom lítillega við sögu á sólóplötu Karls, Lillý sem út kom 1997