MAO (1986-88)

MAO

Ballhljómsveitin MAO (Meðal annarra orða) var starfrækt á höfuðborgarsvæðinu á síðari hluta níunda áratugarins og lék einkum á skemmtistöðum í Reykjavík, Evrópu og Broadway en einnig á skólaböllum og almennum dansleikjum.

MAO var að öllum líkindum stofnuð haustið 1986, ekki liggur fyrir hverjir skipuðu sveitina í upphafi en framan af ári 1987 voru þeir Sigurður Hrafn Guðmundsson gítarleikari, Haukur Vagnsson trommuleikari, Magnús Á. Sigurðsson bassaleikari, Ástvaldur Traustason hljómborðsleikari og Olaf Forberg söngvari og gítarleikari. Einnig er trommuleikari að nafni Haukur Hauksson nefndur í heimildum en allar líkur eru á að það sé nafnaruglingur. Síðar gengu þeir Friðrik Sturluson bassaleikari og Magnús Stefánsson trommuleikari til liðs við MAO en sveitin auglýsti í byrjun árs 1988 einnig eftir hljómborðsleikara. Engar frekari upplýsingar finnast hins vegar um það.

Sveitin starfaði fram á haust 1988 en þá gengu þeir Friðrik bassaleikari og Magnús trommuleikari til liðs við Sálina hans Jóns míns sem þá var verið að endurmanna eftir fyrstu plötu þeirrar sveitar.