MAO (1986-88)

MAO

Ballhljómsveitin MAO (Meðal annarra orða) var starfrækt á höfuðborgarsvæðinu á síðari hluta níunda áratugarins og lék einkum á skemmtistöðum í Reykjavík, Evrópu og Broadway en einnig á skólaböllum og almennum dansleikjum.

MAO var stofnuð í byrjun árs 1986, tilurð sveitarinnar var með nokkuð sérstökum hætti en þeir Sigurður Hrafn Guðmundsson gítarleikari og Olaf Forberg söngvari og gítarleikari ásamt nokkrum fleirum höfðu boðið sjálfum sér í partí um miðja nótt til Hauk Vagnssonar trommuleikara sem þá var reyndar nýkominn heim sjálfur frá giggi, en hann þekkti tvímenningana hins vegar ekki neitt. Þegar hann varð þess áskynja hversu góðir tónlistarmenn þeir voru hætti hann við að reka fólkið út en stofnaði í kjölfarið hljómsveitina með þeim, og fengu þeir til liðs við sig þá Magnús Á. Sigurðsson bassaleikara og Ástvald Traustason hljómborðsleikara.

Þannig skipuð fluttu þeir MAO-liðar um vorið til Bolungarvíkur heimabæjar Hauks og gerðu sveitina út þaðan um sumarið en komu suður til Reykjavíkur aftur um haustið og starfaði hún sem hálfgert húsband á skemmtistaðnum Evrópu við Borgartún um veturinn 1986-87.

Þær breytingar urðu á sveitinni að Magnús bassaleikari hætti í sveitinni og tók Friðrik Sturluson við hlutverki hans en hann er frændi Ástvalds hljómborðsleikara. Einnig lék Hilmar Sverrisson um tíma með sveitinni. Árið 1987 lék MAO víða um land á dansleikjum við miklar vinsældir en veturinn eftir (1987-88) var sveitin ráðin til að leika á dansleikjum eftir tónlistarsýningunni Allt vitlaust, á Broadway en sveitin lék jafnframt undir borðum, fjölbreytileiki hennar fólst m.a. í því að hún gat leikið bæði djass- og dinnertónlist jafnt á við danstónlist.

Árið 1988 hætti Haukur trymbill sveitarinnar og tók Magnús Stefánsson (Egó o.fl.) við sæti hans, þannig skipuð starfaði MAO í nokkra mánuði en lagði svo upp laupana haustið 1998. Tveir meðlimir sveitarinnar (Magnús og Friðrik) áttu síðar eftir að starfa með Sálinni hans Jóns míns, og Ástvaldur kom reyndar einnig lítillega við sögu þeirrar sveitar.