Inri (1989-98)

inri

Inri

Margt er á huldu varðandi spuna- og gjörningasveitina Inri (I.N.R.I.) en sveitin starfaði í um áratug seint á síðustu öld.

Inri, sem eins og flestir átta sig á er skírskotun í áletrun á kross Krists, mun hafa verið stofnuð 1989 og í upphafi voru tveir meðlimir sem skipuðu sveitina, það voru þeir Þórhallur Guðmundsson gítarleikari og Magnús A.G. Jensson bassaleikari en þeir kölluðu sig Tordenskjold áður en þeir tóku upp nafnið Inri.

Þeir félagar fengu síðan til liðs við sig nokkra tónlistarmenn svo úr varð hópur sem flutti spuna- og tilraunatónlist á tónleikum og öðrum listatengdum uppákomum. Sigurbjörn Ingvarsson gítarleikari, Sigurður Ingi Jensson söngvari, Guðlaugur Kristinn Óttarsson gítarleikari, Gunnar Guðmundsson trommuleikari, Hilmar Páll Grétarsson trommuleikari og Birgir Baldursson trommuleikari voru meðal meðlima og sjálfsagt enn fleiri en eitthvað var misjafnt hversu margir skipuðu hana og einnig hverjir skipuðu hana í hvert skipti. Á tímabili mun Inri hafa innihaldið tvo trommuleikara samtímis.

Árið 1990 átti Inri þrjú lög á safnsnældunni Strump en tveimur árum síðar kom út níu laga snælda með sveitinni undir titlinum Viðnámshvörf, þá var þetta orðið einsmannssveit Magnúsar og lagði hann til allt efni á hana og gaf út sjálfur í hundrað eintökum. Viðnámshvörf fékk fremur slaka dóma í Pressunni en fleiri dómar birtust ekki um snælduna enda tónlistin og útgáfan á jaðri þess sem almennt tónlistaráhugafólk lætur um eyru sér fara.

Inri starfaði áfram eftir útgáfu Viðnámshvarfa en ekki liggur fyrir hvort Magnús var enn einn á ferð eða hvort hann hafði sér til fulltingis aðra tónlistarmenn á tónleikum sem voru þó stórum stopulli en áður.

Inri virðist hafa dáið drottni sínu árið 1998.

Efni á plötum