Marteinn H. Friðriksson (1939-2010)

Marteinn á Vestmannaeyja-árum sínum

Marteinn Hunger Friðriksson skipar stóran sess í íslensku tónlistarlífi og kom að mörgum hliðum þess, fyrst í Vestmannaeyjum og síðan í Reykjavík. Hans er fyrst og fremst minnst sem stjórnanda Dómkórsins og organista Dómkirkjunnar en hann stýrði fleiri kórum og hljómsveitum einnig, kenndi við Tónlistarskólann í Reykjavík um árabil, lék á tónleikum, hélt utan um tónlistarviðburði, útsetti og samdi tónlist, og smitaði alls staðar út frá sér með áhuga og jákvæðni.

Marteinn (Fritz Martin Hunger) fæddist í bænum Meißen í Þýskalandi árið 1939, sem er ein útborga Dresden en svæðið varð síðar hluti Austur-Þýskalands. Hann var ekki af tónlistarfólki kominn en var þó í barnakór og naut tilsagnar í orgelleik sem barn, hans ferill hófst með því að organisti í kirkju hans forfallaðist og var hann fenginn til að leysa af fyrirvaralaust en hann var þá innan við fermingu. Í kjölfarið fékk hann organistaverkefni hér og þar við sveitakirkjur í nágrenninu.

Marteinn fór til Dresden og lauk þar svokölluðu B-prófi í tónlist og síðan í tónlistarháskólann í Leipzig þar sem hann tók burtfararpróf vorið 1964 í kirkjutónlist, tónsmíðum og hljómsveitastjórnun. Á þessum tíma vantaði organista og stjórnanda fyrir kór Landakirkju í Vestmannaeyjum og hafði Páll Ísólfsson milligöngu um það (ásamt fleirum) að leita til Austur-Þýskalands eftir hæfum manni, sem gæti þá einnig rifið upp tónlistarkennslu í Eyjum. Þannig kom Marteinn til starfa á Íslandi haustið 1964 og var hann þá í fyrstu ráðinn til tveggja ára, hann var þá einungis tuttugu og fimm ára gamall.

Starf Marteins varð margþætt í Vestmannaeyjum enda var talað síðar um að hann hefði átt stóran þátt í að stórefla tónlistarlífið þar. Tónlistarskóli hafði starfað þar í um áratug með hléum en frá og með tíð Marteins hefur sú starfsemi verið samfleytt, hann tók við skólanum og varð skólastjóri hans auk þess að kenna og jafnframt tók hann við starfi organista við Landakirkju jafnframt því að stjórna kirkjukórnum. Líklega mun hann einnig hafa komið að söngkennslu í barnaskólanum en um tíma starfrækti hann barnakór í Vestmannaeyjum. Þá tók hann við Samkór Vestmannaeyja sem þá hafði starfað í um ár og um tíma stýrði hann einnig Karlakór Vestmannaeyja.

Marteinn H. Friðriksson 1976

Á Eyjaárum sínum starfaði Marteinn náið með Oddgeiri Kristjánssyni sem stjórnaði Lúðrasveit Vestmannaeyja og þegar sá síðarnefndi lést árið 1966, tók Marteinn við stjórn lúðrasveitarinnar. Þess má geta að Oddgeir var tengdafaðir Marteins um þetta leyti en Marteinn var tvíkvæntur.

Starf Marteins í Vestmannaeyjum sneri ekki einungis að því að kenna og stjórna, hann efldi þar líka lifandi flutning tónlistar, hélt tónleika og fékk þekkt tónlistarfólk til Eyja til tónleikahalds, t.d. lék Sinfóníuhljómsveit Íslands í nokkur skipti í Eyjum undir stjórn Marteins. Sjálfur fór hann upp á land og hélt orgeltónleika, sumarið 1967 fór hann t.a.m. í tónleikaferð víðs vegar um landið þar sem hann lék í flestum landsfjórðungum.

Sem fyrr segir hafði Marteinn gert samning um tveggja ára starfstíma í Vestmannaeyjum en sá tími varð sem kunnugt er miklu lengri. Árið 1970 sótti hann um stöðu organista við Háteigskirkju sem hafði verið vígð nokkrum árum fyrr og hlaut hann stöðuna, þar með var Eyjaárunum lokið en Reykvíkingar og aðrir landsmenn fengu að njóta krafta hans. Um svipað leyti fékk hann íslenskan ríkisborgararétt og tók sér nafnið Marteinn H. Friðriksson, H-ið stóð fyrir Hunger en Friðriks-nafnið kom frá föður hans (Alfred Fritz Hunger) sem hann bar reyndar einnig sjálfur.

Á sama tíma hóf hann að kenna við Tónlistarskólann í Reykjavík þar sem hann átti eftir að starfa í tæplega fjörutíu ár eða til andláts. Kennsla hans sneri þar einkum að orgel- og píanókennslu auk kórstjórnunar, og þar átti hann eftir að verða lærifaðir ýmissa þekktra organista og tónlistarmanna s.s. Harðar Áskelssonar, Steingríms Þórhallssonar, Glúms Gylfasonar og Egils Ólafssonar svo nokkur dæmi séu nefnd. Meðal nemenda hans var einnig Þórunn Björnsdóttir sem varð síðari eiginkona hans en hún átti eftir að verða stjórnandi skólakóra Kársnesskóla í Kópavogi, þar sem Marteinn kom einnig að starfinu á álagstímum m.a. sem undirleikari. Í Tónlistarskólanum í Reykjavík stjórnaði hann til langs tíma bæði hljómsveit og kór skólans, sem héldu víða tónleika á þessum árum.

Marteinn H. Friðriksson

Auk starfa hans við Tónlistarskólann í Reykjavík og Háteigskirkju stjórnaði Marteinn kór kirkjunnar og um tíma (1972) barnakór í Hlíðunum, ekki liggja fyrir upplýsingar um nafn hans. Smám saman skapaði hann sér æ stærra nafn, hann hélt orgeltónleika í Dómkirkjunni, fór um landsbyggðina með tónleikahaldi og fékk viðameiri verkefni sem hljómsveitar- og kórstjórnandi í ýmsum stærri verkum sem flutt voru á tónleikum s.s. með Sinfóníuhljómsveit Íslands og stærri kórum eins og Söngsveitinni Fílharmóníu sem hann tók reyndar við árið 1976 og stjórnaði til 1980.

Merk tímamót urðu í lífi Marteins og sögu Dómkirkjunnar 1. desember 1978 þegar hann tók við starfi organista við kirkjuna en deilur höfðu staðið milli sóknarnefndarinnar og fyrri organista vegna vals á sálmum við messugjörðir, hafði Dómkórinn staðið með organista sínum í þeim deilum og í kjölfarið var kórinn lagður niður og organistanum sagt upp. Í skugga þeirra deilna þurfti Marteinn því einnig að stofna nýjan Dómkór samhliða nýju starfi og gekk það hratt fyrir sig, nýr kór söng undir stjórn hans þegar kveikt var á Oslóartrénu við Austurvöll tveimur vikum síðar.

Starf Marteins sem organisti og kórstjórnandi við Dómkirkjuna er líklega það sem stendur upp úr á ferli hans en hann sinnti því starfi til dauðadags. Kórinn varð geysilega öflugur á tiltölulega skömmum tíma, stóð fyrir ótal sjálfstæðum tónleikum og uppákomum auk samstarfs við aðra kóra, kammer- og sinfóníuhljómsveitir innan lands og utan, auk þess að gefa út nokkrar plötur í stjórnartíð hans. Marteinn stofnaði einnig til Tónlistardaga Dómkirkjunnar haustið 1982 sem enn eru haldnir á haustdögum, þar sem kórinn hefur gegnt veigamiklu hlutverki en stofnað var til þeirra að hluta til til að gefa tónskáldum innlendum sem erlendum færi á að láta ljós sitt skína, mörg verkanna hafa verið samin sérstaklega fyrir Tónlistardagana og má segja að Marteinn hafi með þessu eflt og hvatt til tónsmíða einkum yngri tónskálda.

Við gamla orgelið í Dómkirkjunni

Auk annarra starfa Marteins í gegnum tíðina má nefna að hann lék á ótal orgeltónleikum og sem undirleikari, einnig við óteljandi jarðarfarir, brúðkaup og afmæli, hann stjórnaði um tíma Kór Menntaskólans í Reykjavík sem og Hljómeyki um skeið, og hann kenndi einnig síðustu árin orgelleik og kórstjórnun við Listaháskóla Íslands. Auk þess sendi hann frá sér eina plötu, Kvöldstund við orgelið en hún hafði að geyma orgelverk úr ýmsum áttum og ýmsum tímum, og kom út árið 1999, platan hlaut góðar viðtökur gagnrýnenda Morgunblaðsins og DV.

Marteinn stjórnaði kórum Dómkirkjunnar og Menntaskólans í Reykjavík á nokkrum plötum sem komu út en orgel- og píanóleik hans má einnig heyra á fjölmörgum plötum annarra listamanna, þeirra á meðal eru hér nefnd Skólakór Kársness, Kammersveit Reykjavíkur, Kór íslensku óperunnar, Vallagerðisbræður, Kristinn Sigmundsson, Kvennakór Reykjavíkur, Bergþór Pálsson og Skúli Halldórsson tónskáld. Þá má heyra hann leika á plötum sem hafa að geyma tónlist úr kvikmyndunum Karlakórinn Hekla og Tár úr steini.

Marteinn H. Friðriksson 2006

Marteinn kom að síðustu Tónlistardögum Dómkirkjunnar haustið 2008 þegar hann var kominn að sjötugu, við það tilefni var flutt verk eftir hann sjálfan en hann samdi nokkuð af tónlist sjálfur sem hlaut miklu minna vægi en ella þar sem hann var alltaf svo störfum hlaðinn. Hann var mun afkastameiri við útsetningar, einkum fyrir Dómkórinn og Skólakór Kársness en þess má geta að hann útsetti heilmikið af lögum Oddgeirs Kristjánssonar. Þess má einnig geta að Þóra Marteinsdóttir tónskáld er dóttir þeirra Þórunnar þannig að eplið hefur þar ekki fallið neitt sérlega langt frá eikinni.

Marteinn lést eftir skamma baráttu við krabbamein í upphafi árs 2010 en hann starfaði við tónlistina nánast fram til dauðadags, lék í síðasta sinn við messu á aðfangadagskvöld jóla 2009. Þar með var farinn vinsæll og farsæll kórstjórnandi og organisti sem minnst var með ýmsum hætti, minningartónleikar voru haldnir um hann eftir andlátið og einnig vorið 2019 í tilefni af því að þá hefði hann orðið áttræður.

Marteinn var heiðraður á ýmsan hátt fyrir ævistarfið, hann hlaut m.a. Liljuna, viðurkenningu kirkjulistafólks, og fálkaorðuna fyrir starf sitt í þágu íslenskrar kóratónlistar auk fjölda annarra viðurkenninga.

Efni á plötum