Afmælisbörn 3. september 2019

Jóhann Eymundsson

Afmælisbörnin í tónlistargeiranum eru þrjú talsins á þessu degi:

Bergur Thomas Anderson bassaleikari er þrjátíu og eins árs gamall í dag. Bergur Thomas birtist fyrst í Músíktilraunum um miðjan síðasta áratug með hljómsveitum eins og Mors og Sudden failure 3550 error error en fyrsta þekkta sveit hans var Big kahuna, í kjölfarið kom Sudden weather change en í dag leikur hann með Grísalappalísu og Oyama, sem báðar hafa verið áberandi í íslensku tónlistarlífi.

Úlfur (Þórarinsson) Eldjárn tónlistarmaður og tónskáld er fjörutíu og þriggja ára í dag. Hann hefur stundum gengið undir nafninu Úlfur skemmtari og vakti fyrst athygli í unglingahljómsveitinni Kósý en hefur síðar starfað með sveitum eins og Traktor sem síðar varð að Trabant, Kanada og Orgelkvartettnum Apparat. Úlfur hefur jafnframt samið tónlist fyrir leikhús, sjónvarp og kvikmyndir og eftir hann liggja nokkrar plötur.

Jóhann Eymundsson (fæddur 1927 á Patreksfirði) átti einnig afmæli þennan dag en Jóhann lék á harmonikku í Hljómatríóinu um sautján ára skeið á sínum tíma, tríóið lék m.a. undir hjá Alfreð Clausen á einni 78 snúninga plötu. Hann samdi einnig lög og tók þátt í sönglagakeppnum SKT. Jóhann lést 2007.