Már Magnússon (1943-2018)

Már Magnússon

Óperusöngvarinn Már Magnússon starfaði lengst af við söngkennslu hér heima en hafði áður verið búsettur um árabil í Austurríki. Hann gaf út eina plötu með íslenskum sönglögum.

Már fæddist í Reykjavík 1943 og nam söng samhliða menntaskólanámi sínu, við Tónlistarskólann í Reykjavík, kennarar hans voru Sigurður Demetz, María Markan og Einar Kristjánsson. Hér heima var hann þegar farinn að vekja athygli fyrir söng sinn en hann tók m.a. þátt í uppfærslu á Amahl og nætugestunum.

Að loknu stúdentsprófi fór Már til Vínar í nám en þar lærði hann þjóðháttafræði auk söngs en hann var tenór. Að loknu söngnámi þar starfaði hann um tíma í Austurríki, söng sitt fyrsta óperuhlutverk þar árið 1976 en kom heim árið 1977 og starfaði hér á landi mestmegnis eftir það. Hann hóf að kenna við Tónlistarskólann í Reykjavík og var þar í um áratug áður en hann fór út á land til að kenna, hann var um tíma á Akureyri og þar tók hann upp plötu ásamt Gerrit Schuil píanóleikara á tónleikum í Listasafni Akureyrar og bar hún titilinn Bréf að norðan: Íslensk sönglög. Platan hlaut góða dóma í Morgunblaðinu en umslag hennar var að því leyti sérstætt að það var eins og umslag utan um sendibréf, líkt og titill plötunnar gefur til kynna.

Már kenndi um fjögurra ára skeið í Danmörku í kringum aldamótin en kom aftur heim árið 2002 og kenndi við Tónlistarskólann í Reykjavík til 2013. Hann sinnti öðrum störfum en söngkennslu, starfaði um tíma sem leiðsögumaður og lék m.a.s. í kvikmyndum, s.s. Opinberun Hannesar.

Már söng fjölmörgum sinnum á tónleikum hér heima, bæði í óperuuppfærslum, einsöngstónleikum og tónleikum með stærri hljómsveitum s.s. Sinfóníuhljómsveit Íslands. Hann var þó fyrst og fremst söngkennari.

Már bjó síðustu árin í Frankfurt í Þýskalandi þar sem hann lést eftir skammvinn veikindi árið 2018.

Efni á plötum