Mug (1990-2006)

Mug

Hljómsveitin Mug var eins konar leynihljómsveit, hún starfaði lengst af neðanjarðar og kom tvívegis að minnsta kosti upp á yfirborðið, annars vegar með tveggja laga spólurúllu og hins vegar fimmtán laga plötu.

Sveitin var stofnuð 1990 í Bústaðahverfinu og voru meðlimir hennar þeir Emil Örn Evertsson, Árni Þór Árnason og Guðni Rafn Gunnarsson nemendur í Menntaskólanum við Sund, engar upplýsingar er að finna um hverjir léku á hvaða hljóðfæri.

Lengi vel kölluðu þeir félagar sig Sisona og störfuðu þá einvörðungu í æfingahúsnæðinu og sömdu þar efni og tóku þar upp tilraunakennt rokk, ekki liggur fyrir hvenær þeir tóku upp Mug-nafnið en það gæti hafa verið 1993.

Það var svo að öllum líkindum árið 1995 sem Mug kom upp á yfirborðið með tveggja laga spólu, þ.e. um var að ræða teipið / bandið eitt og sér án spóluhylkisins. Kaupandinn þurfti því að koma spólunni sjálfur fyrir í kassettuhylkinu til að geta spilað hana, upplagið mun hafa verið rétt rúmlega tuttugu eintök.

Mug lagðist aftur í híði sitt í æfingahúsnæðinu og ekkert spurðist til sveitarinnar fyrr en árið 1999 að hún sendi frá sér fimmtán laga plötuna Polaroid period. Í blaðaviðtali sögðust þeir hafa látið prenta umslag plötunnar fyrst áður en hún var unnin til að ýta undir að þeir létu verða að útgáfunni, vegna þessa er lagalistinn á umslaginu aðeins fjórtán lög en fimmtán á plötunni sjálfri. Um það leyti sem platan kom út gekk trommuleikarinn Snorri Örn [?] til liðs við sveitina enda stóð þá jafnvel til að Mug færi að spila opinberlega, áður hafði Kristinn Gunnar Blöndal (KGB) trommað lítillega með þeim félögum.  Polaroid period fékk þokkalega dóma í Fókusi.

Sveitin starfaði líklega til ársins 2008 en hún hafði þá unnið að plötu í nokkurn tíma, sú plata hefur líklegast aldrei komið út.

Efni á plötum