Grindverk (1997-99)

Grindverk

Hljómsveitin Grindverk var fremur skammlíft tríó sem starfaði rétt fyrir síðustu aldamót en meðlimir þess voru þeir Sigtryggur Baldursson, Einar Örn Benediktsson og Hilmar Örn Hilmarsson sem allir höfðu verið áberandi í kringum nýbylgju- og pönksenuna upp úr 1980, Sigtryggur og Hilmar Örn í Þey og Einar Örn í Purrki pillnikk og Sigtryggur og Einar Örn síðar í Sykurmolunum. Þetta var hins vegar í fyrsta skipti sem þeir þrír störfuðu saman.

Þeir félagar hittust í fyrsta skipti til að gera tónlist haustið 1997, þar unnu þeir lag sem kom út á erlendri safnplötu skömmu eftir það en um vorið 1998 hittust þeir aftur og tóku til við að vinna breiðskífu sem fékk titilinn t.h.e.r.a.p.i.s.t.s. en um svipað leyti gerði sveitin plötusamning við breska útgáfufyrirtækið Fat cat records. Tónlistin var illskilgreinanleg en helst var að menn gátu komið sér saman um að um tilraunakennda danstónlist væri að ræða.

Grindverk kom fram í fyrsta og líklega eina skiptið þegar sveitin ásamt Sigur Rós hitaði upp fyrir Gus Gus á tónleikum í flugskýli á Reykjavíkurflugvelli vorið 1999, og um það leyti kom smáskífan Gesundheit Von K út en hún var fjögurra laga. Af einhverjum ástæðum kom breiðskífan aldrei út á vegum Fat cat records en hún var síðar aðgengileg á Soundcloud. Einhverjar endurhljóðblandanir af efninu hafa komið út á safnplötum.

Efni á plötum