Afmælisbörn 3. desember 2019

Birkir Freyr Matthíasson

Afmælisbörn dagsins eru þrjú á þessum degi:

Pétur Östlund trommuleikari er sjötíu og sex ára gamall í dag, hann lék með mörgum af þekktustu sveitum bítlatímabilsins og eru Hljómar og Óðmenn þeirra þekktastar en einnig með sveitum eins og Hljómsveit Finns Eydal, Hljómsveit Gunnars Ormslev, Musica prima og Útlendingahersveitinni. Hann var síðar kunnari fyrir djasstrommuleik og er mjög virtur sem slíkur. Pétur á að baki eina sólóplötu.

Birkir Freyr Matthíasson trompetleikari er fjörutíu og fimm ára  gamall á þessum dagi. Birkir Freyr hefur starfað með hljómsveitum s.s. Jagúar, Sunnan sex, Bréfsnjef kvartettnum, Stórsveit Reykjavíkur og Samspili Óla Jóns en hefur fyrst og fremst verið session maður og leikið þ.a.l. inn á fjölda platna annarra listamanna, hann hefur jafnframt starfað töluvert í leikhúsinu.

Dóra Sigurðsson söngkona hefði einnig átt afmæli þennan dag. Dóra fæddist 1892 í Þýskalandi og kynntist Haraldi Sigurðssyni píanóleikara þar en þau giftust síðar. Hún starfaði lengst af í Danmörku en kom reglulega hingað til lands ásamt eiginmanni sínum til tónleikahalds og varð fyrsta konan til að syngja inn á plötu hérlendis. Dóra lést 1985.