Oddgeir Kristjánsson (1911-66)

Oddgeir Kristjánsson

Fá nöfn eru jafn samofin þjóðhátíðarmenningu Vestmanneyinga og nafn Oddgeirs Kristjánssonar en hann er löngu orðinn þekktur sem eins konar tákn fyrir Eyjalögin enda samdi hann mörg af þeim þekktustu og nægir þar að nefna lög eins og ég Ég veit þú kemur, Gamla gatan, Blítt og létt og Bjarta vonir vakna svo aðeins fáein séu hér nefnd. Hlutverk Oddgeirs í Eyjum var þó mun margþættara og segja má að hann hafi ásamt örfáum öðrum borið uppi tónlistarlífið á staðnum sem tónlistarkennari, lúðrasveitastjóri, kórstjóri, tónskáld og frumkvöðull (stofnaði Lúðrasveit Vestmannaeyjar og fleiri lúðrasveitir og kóra) meðan hann lifði en hann féll frá aðeins fimmtíu og fjögurra ára gamall. Vestmannaeyingar og aðrir hafa vegna þess reist þessum burðarstólpa vestmannaeysks tónlistarlífs veglega minnisvarða með því að halda tónlist hans á lofti með reglulegri útgáfu, tónleikahaldi og minningarsjóði svo eitthvað sé nefnt.

Oddgeir Kristjánsson fæddist í Vestmannaeyjum og bjó þar nánast alla tíð en var þó ættaður úr Fljótshlíðinni í báðar ættir. Hann kom úr risastórum systkinahópi en alls voru systkinin sextán talsins, tíu þeirra komust á fullorðins ár. Það er því eðlilegt að oft hafi verið hart í ári hjá fjölskyldunni og því litlir sem engir möguleikar til menntunar.

Oddgeir hneigðist snemma til tónlistargyðjunnar og var kominn í Lúðrasveit Vestmannaeyja um þrettán ára aldur þar sem hann lék fyrst á tenór horn og síðar trompet en nokkrar lúðrasveitir höfðu þá verið starfandi í Eyjunum frá því að slík sveit var upphaflega stofnuð 1904, þessi sveit sem var sú þriðja í röðinni átti eftir að lognast útaf (1930) eins og hinar. Oddgeir naut þar handleiðslu stjórnandans Hallgríms Þorsteinssonar, hann lærði einnig á fiðlu hjá Þórarni Guðmundssyni veturinn 1932-33 í Reykjavík og svo í stríðslok nam hann tónfræði hjá Róbert A. Ottóssyni, einnig í Reykjavík. Þar fyrir utan hafði Oddgeir á unglingsárunum kennt sjálfur sér á gítar sem varð aðalhljóðfæri hans en hann lék einnig á harmonikku, píanó og fleiri hljóðfæri.

Oddgeir hafði við fermingu farið út á vinnumarkaðinn, reyndar hóf hann nám í prentiðn en ekki er að finna neinar heimildir um að hann hafi lokið því námi. Hann starfaði aldrei við prentiðnina en vann verslunarstörf allt til ársins 1940 þegar hann tók við stöðu framkvæmdastjóra Bifreiðastöðvar Vestmannaeyja sem hann sinnti til ársins 1954 en þá hóf hann að kenna við barnaskólann í Vestmannaeyjum þar sem hann kenndi til æviloka. Við skólann kenndi hann söng og tónmennt en stofnaði einnig lúðrasveitir bæði innan barna- og unglingadeildar, sem hann stjórnaði. Þá stjórnaði hann jafnframt barnakórum innan skólans en hann hafði kennt við tónlistarskólann í Eyjum frá 1948, reyndar hafði hann þá einnig stjórnað karlakór í Eyjum og sinnt einkakennslu í tónlist um langt skeið. Fyrsti fiðlunemandi Oddgeirs var enginn annar en Ási í Bæ og meðal annarra þekktra nemenda hans má nefna Rúnar Georgsson saxófónleikara, Jónas Þór Dagbjartsson trompet- og fiðluleikara og tvíburabræðurna Gísla og Arnþór Helgasyni. Meðal annarra starfa Oddgeirs má nefna að hann var um tíma umboðsmaður trygginga í Eyjum og Þjóðviljans en hann var virkur í sósíalistafélagi Vestmannaeyinga og sat um skeið í bæjarstjórn í nafni þess, hann var einnig í ritnefnd Eyjablaðsins sem var einmitt gefið út af sósíalistafélaginu. Hann var aukinheldur virkur í hvers kyns félagsstarfi, var m.a. í forsvari fyrir hina svokölluðu Kakóhreyfingu sem var eins konar útivistarklúbbur í Eyjum og var einn af stofnendum Tónlistarfélags Vestmannaeyja. Þá var Oddgeir mikill áhugamaður um garðrækt og ljósmyndun og sinnti báðum þeim áhugamálum af dug.

Oddgeir með gítarinn

Vera Oddgeirs í Lúðrasveit Vestmannaeyja á unglingsárunum var aðeins upphafið á tónlistarferli hans og fyrir tvítugt var hann kominn í danshljómsveit sem gekk undir nafninu Jassinn / Jazzinn, í þeirri sveit mun hann hafa leikið á gítar og fiðlu. Síðar kom Oddgeir stundum fram ásamt Haraldi Guðmundssyni (oft kenndan við HG sextettinn) þar sem þeir spiluðu saman á gítar og mandólín.

Það var í kringum 1930 sem Oddgeir fór að semja lög en hann var þá rétt tæplega tvítugur orðinn, hann mun í fyrstu hafa samið á gítar en síðan tók píanóið við. Meðal fyrstu laga hans var eitt sem kallaðist Innocent og var sungið gjarnan í góðra vina hópi, það hlaut síðar nafnið Ship-o-hoj er Loftur Guðmundsson hafði ort við það texta, einnig má nefna lagið Rauðir hundar við texta eftir Árna úr Eyjum (Árna Guðmundsson) en Oddgeir átti mikið samstarf við þá tvo auk Ása í Bæ (Ástgeir Ólafsson) þegar kom að ljóða- og textagerð við lög hans.

Þjóðhátíð hafði verið haldin í Vestmannaeyjum allt frá árinu 1874 en þá höfðu Eyjamenn ekki komist upp á meginlandið vegna veðurs til að taka þátt í hátíðarhöldum í tilefni af þúsund ára afmælis Íslandsbyggðar, þá varð úr að þeir héldu sína eigin þjóðhátíð sem enn er haldin í dag um verslunamannahelgina eins og flestum er væntanlega ljóst. Á þessum samkomum var mikið sungið og árið 1933 samdi Oddgeir lag í tilefni af hátíðinni, og hlaut það lag nafnið Setið að sumbli. Þremur árum síðar (1936) gerði hann slíkt hið sama og varð það að árlegri hefð um nokkurra ára skeið eða til ársins 1942, þá varð þriggja ára hlé á þjóðhátíðarlögum hans en frá 1945 til 1965 samdi hann þrettán lög til viðbótar sérstaklega fyrir þjóðhátíð. Eftir andlát hans (í febrúar 1966) voru lög eftir hann gerð að þjóðhátíðarlögum næstu þrjú árin en alls liggja eftir hann tuttugu og fjögur slík lög, ellefu laganna voru við ljóð Ása í Bæ en tíu við ljóð Árna úr Eyjum. Mörg þessara laga hafa lifað góðu lífi og hafa orðið sígild með tíð og tíma, þekktast þeirra er væntanlega Ég veit þú kemur (1962) í flutningi Ellyjar Vilhjálms en ótal aðrar útgáfur eru til af því lagi, lausleg athugun bendir til þess að minnsta kosti um þrjátíu mismunandi útgáfur af laginu hafi komið út á plötum. Ágústnótt (Undurfagra ævintýr), Heima, Gamla gatan, Sæsavalsinn, Vorvísa (hét áður Hve dátt er hér í Dalnum), Síldarvísa (Síldarstúlkurnar), Fyrir austan mána og Sólbrúnir vangar eru einnig dæmi um þjóðhátíðarlög eftir Oddgeir sem flestir þekkja. Lögskráðar tónsmíðar Oddgeirs munu vera um fimmtíu talsins en talið er að þær séu mun fleiri enda hirti hann sjálfur ekki um að varðveita öll sín lög með því að skrá þær á nótur.

Árni úr Eyjum og Oddgeir

Þeir Oddgeir, Ási í Bæ og Árni úr Eyjum voru allt í öllu á þjóðhátíðum Vestmanneyinga og reyndar einnig í skemmtifélagi sem gekk undir nafninu Akoges og sömdu þremenningarnir mikið af efni sem flutt var á skemmtunum þeim er haldnar voru þar. Þá frumflutti Oddgeir lög sín oftsinnis á þjóðhátíðunum og í margs konar útgáfum og útsetningum, dæmi eru um að lögin væru flutt af danshljómsveitum, með einsöng undir kvartettundirleik, af sönghópum og kórum eða jafnvel Lúðrasveit Vestmannaeyja sem flutti jafnan lög Oddgeirs við hin og þessi tækifæri. Oddgeir var einmitt fremstur í flokki við að endurreisa lúðrasveitina haustið 1938 ásamt Hreggviði Jónssyni, hún hafði þá ekki verið starfandi síðan 1932 en fór svo á fullt skrið 1939 undir stjórn Oddgeirs og varð hún fljótlega ein af öflugustu lúðrasveitum landsins en hann útsetti jafnframt fyrir hana, sveitin varð ómissandi hluti af skemmtanalífinu í Eyjum þar sem hún hélt reglulega tónleika, kom einnig við sögu á þjóðhátíð og á sjómannadaginn og fór margsinnis upp á meginlandið til tónleikahalds, sveitin fór m.a.s. tvívegis erlendis í tónleikaferðalög en henni stjórnaði Oddgeir til dánardags. Þess má geta að hefð hefur verið fyrir því að Lúðrasveit Vestmannaeyja leiki lög Oddgeirs á þjóðhátíð ár hvert. Oddgeir var heiðraður tvívegis með eftirminnilegum hætti fyrir framlag sitt til lúðrasveitarstarfs sitt, annars vegar var hann gerður að heiðursfélaga í Lúðrasveit Reykjavíkur og hins vegar var hann sæmdur gullmerki Sambands íslenskra lúðrasveita.

Lengi vel voru lög Oddgeirs og þjóðhátíðarlögin hálfgert einkamál Vestmannaeyinga enda voru þau hvergi þekkt utan Eyja þar sem þau höfðu ekki komið út á plötum eða nótum, þannig var það í raun til ársins 1951 þegar þjóðhátíðarlagið Heima var gefið út á nótum en það var selt í bókabúðum og auðvitað á þjóðhátíð. Það var svo tveimur árum síðar (1953) sem Ágústnótt (þjóðhátíðarlag Oddgeirs frá 1937) kom út á tveggja laga plötu með söngvaranum Alfreð Clausen, eftir það gerðust hlutirnir hraðar og Oddgeir komst á tónlistarkortið – árið 1954 söng Alfreð lagið Sigling (Blítt og létt) á plötu en það var þó ekki þjóðhátíðarlag þótt margir standi í þeirri meiningu. Ekki frekar en Vor við sæinn (Bjartar vonir vakna) sem var gefið út 1954 og sungið af Öskubuskum við undirleik Tríós Jans Morávek. Það lag var reyndar orðið nokkuð þekkt þegar það kom út en það hafði verið frumflutt í útvarpi árið sem það var samið (1940), þá sungið af Láru Ingibjörgu Magnúsdóttur söngkonu, móður Ragnars Bjarnasonar en undirleikurinn var í höndum Hljómsveitar Bjarna Böðvarssonar, föður Ragnars. Koll af kolli komu lög Oddgeirs svo út, 1959 komu lögin Heim og Gamla gatan út á smáskífum með Hauki Morthes og Helenu Eyjólfsdóttur, og 1962 kom út slík plata með Ragnari Bjarnasyni sem hafði m.a. að geyma lagið Ship-o-hoj. Þess má einnig geta að árið 1955 kom út hefti sem bar heitið 5 dægurlög eftir Oddgeir Kristjánsson og var það selt í hljóðfæraverslunum og bókabúðum.

Oddgeir um fimmtugt

Þar með var Oddgeir orðinn meðal þekktustu lagahöfunda landsins og árið 1964 sendi Tage Ammendrup sem þá rak plötuútgáfuna Íslenzka tóna, frá sér plötuna Síldarstúlkurnar: Hljómsveit Svavars Gests, Anna, Berti og Elly syngja 4 ný lög eftir Oddgeir Kristjánsson, það var að öllum líkindum fyrsta platan hérlendis sem hafði að geyma mörg lög eftir einn og sama lagahöfundinn. Það sama ár söng kór utan Vestmannaeyja í fyrsta sinn lag eftir Oddgeir á tónleikum þegar karlakórinn Fóstbræður flutti lagið Sjómannasöngur, síðan þá hafa tugir kóra bæði karla, kvenna og blandaðra flutt lög hans á tónleikum og plötum einnig.

Oddgeir lést sem fyrr segir langt fyrir aldur fram í febrúar 1966 en hann varð þá bráðkvaddur í miðri kennslustund. Hann hafði þá samið tuttugu og eitt þjóðhátíðarlag og þrjú lög eldri lög úr fórum hans áttu eftir að bætast við þann lista til ársins 1968 þannig að alls urðu lögin tuttugu og fjögur. Eftir það sömdu ýmsir aðilar þjóðhátíðarlögin en þau náðu varla almennum vinsældum aftur fyrr en í lok níunda áratugarins, Eyjan mín bjarta eftir Gylfa Ægisson (frá árinu 1974) hlýtur þó að teljast undantekning frá því.

Oddgeirs var minnst með ýmsum hætti, Ási í Bæ orti til hans minningarljóð (Vinarkveðja) sem flutt var við jarðarför hans, og um sumarið (1966) voru haldnir minningartónleikar um hann í Vestmannaeyjum sem Martin Hunger (Marteinn H. Friðriksson) hafði veg og vanda af en hann hafði komið til Eyja sem organisti, kórstjórnandi og tónlistarkennari og starfað náið með Oddgeiri, og var reyndar þáverandi tengdasonur hans. Þegar tíu ár voru liðin frá andláti hans kom upp sú hugmynd að settur yrði upp minnisvarði um Oddgeir á Stakkagerðistúni en þar hafði hann oftsinnis stjórnað Lúðrasveit Vestmannaeyja, minnisvarðinn er í formi sviðs og hefur lag hörpuhljóðfæris en það var vígt á sjómannadaginn 1982, sviðið er notað á tyllidögum og við önnur hátíðleg tilefni. Þá má nefna að ótal tónleikar hafa verið haldnir til minningar um Oddgeir og tónlist hans í Vestmannaeyjum, á höfuðborgarsvæðinu og reyndar víða um land. Þegar Ása í Bæ hefur verið minnst með svipuðu tónleikahaldi er oft á tíðum stutt í Oddgeir enda var samstarf þeirra í tónlistinni bæði náið og gott. Þá hafa verið fluttir um Oddgeir bæði útvarps- og sjónvarpsþættir um ævi hans og störf. Oddgeir var kjörinn Eyjamaður aldarinnar í kosningu sem Eyjafréttir í Vestmannaeyjum stóðu fyrir um aldamótin síðustu, þar á bæ hefur Oddgeirsdagurinn verið haldinn hátíðlegur síðan 2012 en afmælisdagur hans, 16. nóvember varð fyrir valinu.

Minningarsjóður var stofnaður í nafni Oddgeirs árið 2011 í aldarminningu hans og um það leyti var sett á fót vefsíðan www.oddgeir.is sem hefur að geyma helstu upplýsingar um hann og tónlist hans. Áður höfðu verið stofnaðir minningarsjóðir, annars vegar um þremenningana Oddgeir, Ása í Bæ og Árna úr Eyjum (1990) og hins vegar um Oddgeir einan stuttu eftir andlát hans (1967).

Oddgeir Kristjánsson

Ákveðin tímamót höfðu orðið árið 1968 þegar Svavar Gests, sem þá rak SG-hljómplötur gaf út eins konar minningarplötu um Oddgeir, Fjórtán lög frá Þjóðhátíð Vestmannaeyja eftir Oddgeir Kristjánsson en þar voru lögin í flutningi Sextetts Ólaf Gauks og söngvaranna Svanhildar Jakobsdóttur og Rúnars Gunnarssonar. Platan fékk mjög góða dóma í Morgunblaðinu og Tímanum og vakti mikla almenna athygli og vinsældir á landsvísu en ekki voru þó allir Eyjamenn sáttir við útsetningar Ólafs Gauks á lögum Oddgeirs, hinu verður varla neitað að lögin nutu feikimikilla vinsælda og urðu til að festa tónskáldið í sessi sem eins af þeim fremstu í faginu, flestir munu því hafa orðið sáttari við plötuna eftir því sem á leið þegar þeir áttuðu sig á vægi hennar fyrir tónlist Oddgeirs. Platan hefur síðan verið endurútgefin í nokkuð skipti bæði á vínylplötu- og geisladiskaformi. Þetta sama ár (1968) hafði verið haldin sýning í Laugardalshöllinni sem bar heitið Íslendingar og hafið en hún var helguð Vestmannaeyingum, þar hafði sextett Ólafs einmitt flutt lög Oddgeirs.

Þegar Oddgeir lést hafði hann um tíma unnið að bók með nótum að lögum sínum, sú vinna var kláruð eftir andlátið og kom hún út um haustið 1966 undir titlinum Vor við sæinn og hafði að geyma tuttugu og sex lög eftir hann. Árið 1991 kom síðan út tvöföld plata, Undurfagra ævintýr sem hafði að geyma þessi tuttugu og sex lög í flutningi ýmissa landsþekktra listamanna, þeirra á meðal má nefna Diddú, Jóhann Sigurðarson, félaga úr Dómkórnum og karlakórnum Fóstbræðrum en útgáfan var að mestu í höndum Árna Johnsen. Í millitíðinni hafði komið út plata (árið 1985) þar sem ýmsir vestmannaeyskir tónlistarmenn fluttu Eyjalög en sú plata bar yfirskriftina Ég vildi geta sungið þér…: 10 Vestmannaeyjalög, bræðurnir Hermann Ingi og Helgi Hermannsson voru þar fremstir í flokki en öll lögin á plötunni utan tveggja voru eftir Oddgeir. Á nýrri öld hafa þrjár plötu komið út sem beinlínis eru helgaðar lagasmíðum Oddgeirs, fyrsta skal telja plötuna Hugsaðu um búskapinn, hættu að daðra… …hitt færðu ef til vill þá! með Tríó Blik sem var skipuð þeim Hönnu Dóru Sturludóttur söngkonu, Danielu Hlynková píanóleikara og Freyju Gunnlaugsdóttur klarinettuleikara, helmingur laganna er eftir Oddgeir. Næst var það plata Tríós Glóða en hún hét Bjartar vonir: Tríó Glóðir flytja lög eftir Oddgeir Kristjánsson, hún kom út árið 2012 og skartaði m.a. barnabarnabarni Oddgeirs, Hafsteini Þórólfssyni söngvara, þriðja platan sem hér er nefnd er tónleikaplata sem hljóðrituð var í Eldborgarsal Hörpu haustið 2011 en þeir tónleikar voru í tilefni af aldarafmælis Oddgeirs og báru yfirskriftina Óður til Oddgeirs, platan heitir Bjartar vonir vakna: 100 ára afmælistónleikar Oddgeirs Kristjánssonar 16. nóvember 2011 í Hörpu, og kom út á geisladisk og dvd-disk. Margir þjóðkunnir söngvarar og tónlistarmenn komu þar við sögu.

Þar fyrir utan hefur mikill fjöldi tónlistarmanna, hljómsveita, kóra o.fl. gefið út lög Oddgeir á plötum sínum og sungið þau á tónleikum, hér má nefna Samkór Vestmannaeyja, Skólakór Árbæjarskóla, Lúðrasveit verkalýðsins, Kór Átthagafélags Vestmannaeyinga í Reykjavík, Graham Smith, Gísli Helgason, Léttsveit Ríkirútvarpsins, Fóstbræður, 7und og Ása í Bæ svo aðeins fá dæmi séu tekin, þar fyrir utan skipta lög Oddgeirs hundruðum á ýmsum safnplötum í gegnum tíðina.

Menn hafa spurt sig hvað hefði gerst ef Oddgeir hefði notið almennrar klassískrar menntunar á tónlistarsviðinu, hvort hann hefði orðið enn stærra nafn og virtara í íslenskri tónlistarsögu – hvað sem því líður liggur fyrir að tónlist hans hefði aldrei orðið sú sama enda væri hún þá ekki sprottin upp úr þeim nákvæmlega sama jarðvegi sem þurfti til að gera hana eins og hún varð og er í dag, með hinni hrjúfu stemmingu og bakgrunni, hafinu o.s.frv.

Efni á plötum