Ornamental (1986-89)

Ornamental var hálfgildings fjölþjóðlegt verkefni sem hafði alla burði til að ná alþjóðlegum vinsældum en sveitin lognaðist útaf áður en hún fór almennilega af stað.

Ornamental byrjaði sem samstarf þeirra Hilmars Arnar Hilmarssonar og Einar Arnar Benediktssonar sem vorið 1986 datt í hug að búa til eins konar diskóskotna tónlist án þess þó að vera einhverjir sérstakir aðdáendur diskótónlistar. Þeir fengu Dave Ball (úr Soft cell) og skosku söngkonuna Rose McDowell (úr Strawberry switchblae) með sér í verkefnið en hún hafði einmitt um það leyti sungið á plötu Megasar, Höfuðlausn, sem Hilmar Örn vann við.

Það fyrsta sem heyrðist frá sveitinni var smáskífa af laginu No pain sem Grammið gaf út sumarið 1986. Lagið fékk nokkra útvarpsspilun og var síðan einnig á fjögurra laga plötu (Skytturnar: Kyrrlátt kvöldstund á Hótel Hjartabroti) sem hafði að geyma tónlist Hilmars Arnar úr kvikmyndinni Skytturnar, í leikstjórn Friðriks Þórs Friðrikssonar. Þá þegar var sveitin þegar farin að huga að útgáfu breiðskífu.

Ornamental gerði plötusamning við bresku útgáfuna One little indian og sendi næst frá sér smáskífuna Crystal night sem var eins konar jólalag og kom út síðla árs 1988. Smáskífan fékk ágætar viðtökur bresku músíkpressunnar og því virtist framtíðin nokkuð björt, á plötunni komu nokkrir gestir við sögu s.s. Jakob Frímann Magnússon og Sigtryggur Baldursson og þarna var líklega Mel Jefferson genginn til liðs við sveitina.

Útgáfa breiðskífunnar lét hins vegar standa á sér þótt hún væri líklega að miklu leyti tilbúin, þá hafði Hilmar Örn fengið hinn sænska Christian Falk (úr Imperiet) með sér í samstarfið en hann hafði þá verið að vinna með Bubba Morthens, ekki liggur fyrir hversu langt sú vinna var komin eða hvort hann hafi tekið þátt í henni. Alltént koma breiðskífan aldrei út og það mun hafa verið vegna þess að Hilmari Erni fannst plötuútgáfan vilja binda hendur sínar fullmikið og hann hefði ekki það frjálsræði sem hann þyrfti. Því fór sem fór og Ornamental lognaðist útaf þrátt fyrir tvö lög sem lofuðu góðu.

Þeir Hilmar Örn og Einar Örn áttu síðar eftir að starfa saman m.a. í hljómsveitinni Frostbite.

Efni á plötum