Fan Houtens kókó (1981-83)

Fan Houtens kókó

Hljómsveitin Fan Houtens kókó vakti nokkra ahygli á sínum tíma (snemma á níunda áratugnum) fyrir það sem skilgreint var sem elektrónísk nýbylgjutónlist en sveitin var nokkuð á skjön við pönksveitirnar og hefðbundnari nýbylgjusveitir sem þá voru mest áberandi í reykvísku tónlistarlífi. Fan Houtens kókó átti þó klárlega heima í hópi þeirra og reyndar var hún ein þeirra sveita sem síðar mynduðu Kukl og Sykurmolanna, komu að stofnun Smekkleysu og fleiri stórviðburðum í íslenskri tónlist.

Fan Houtens kókó var stofnuð innan Medúsu-hópsins sem varð til í nýstofnuðum Fjölbrautaskólanum í Breiðholti og kom fyrst fram opinberlega í skólanum í febrúar 1981. Meðlimir sveitarinnar, þeir Einar Arnaldur Melax hljómborðsleikari, Matthías Sigurður Magnússon hljómborðsleikari, Ólafur J. Engilbertsson bassaleikari og Þór Eldon gítarleikari, munu hafa stofnað sveitina til að skreyta frumsamin ljóð sín með tónlist. Allir sungu þeir en Matthías var aðalsöngvari Fan Houtens kókó.

Sveitin varð strax mjög virk og varð hluti af pönksenunni sem fyrr segir þótt hún hafi ekki endilega verið það tónlistarlega séð, þeir félagar komu fram í Kópavogsbíói, Félagsstofnun stúdenda og víðar, og oft ásamt Þeysurum um sumarið, m.a. á tónleikunum Annað hljóð í strokkinn. Þá sendu þeir um vorið frá sér kassettuna Musique elementaire undir merkjum Isidor greifa (Medúsu) í hundrað og fimmtíu eintökum þar sem nostrað var við hvert eintak þannig að ekkert þeirra var eins. Á milli laga röbbuðu meðlimir sveitarinnar við hlustendurna og reyndar var sveitin þekkt fyrir uppákomur á tónleikum.

Um haustið 1981 fór Ólafur bassaleikari í nám til Spánar og því mun sveitin hafa lagst í dvala um sinn, að minnsta kosti finnast ekki neinar heimildir um að hún hafi starfað um veturinn. Þó segir sagan að þeir félagar hafi auglýst eftir bassaleikara sem yrði að heita Anna, í kjölfarið kom svo Anna María Ingadóttir eitthvað fram með sveitinni sem og Hilmar Örn Hilmarsson á trommur og þau komu við sögu á annarri kassettu sem kom út síðla árs og bar titilinn Það brakar í herra K. Sú kassetta inniheldur því efni sem bæði Ólafur og Anna koma við sögu. Nokkuð veglegt textablað hafði fylgt fyrri kassettunni og einnig voru einhverjir textar ritaðir með síðari útgáfunni, þá hafði Medúsa jafnframt einnig gefið út eins konar textarit með sveitinni í febrúar 1981.

Fan Houtens kókó

Fan Houtens kókó birtist aftur sumarið 1982 og starfaði fram á haust skipuð stofnmeðlimunum en einnig kom Hilmar Örn lítillega fram með þeim opinberlega sem trommuleikari, ennfremur var skáldið Sjón (Sigurjón Birgir Sigurðsson) viðloðandi sveitina enda meðlimur Medúsa-hópsins og kom hann fram með sveitinni í einhver skipti, einnig ásamt Þór Eldon sem dúettinn Ónýta bókasafnið. Í ágúst hitaði sveitin í tvígang upp fyrir breska dúóið Eyeless in Gaza sem kom hingað til tónleikahalds, og reyndust það síðustu tónleikar sveitarinnar.

Ólafur fór aftur út til náms um haustið 1982 og því lá Fan Houtens kókó niðri um veturinn. Þeir félagar birtust aftur sumarið 1983 en aðeins í skamman tíma því fljótlega hætti sveitin þar sem Einar Melax gekk til liðs við hljómsveit sem síðar hlaut nafnið Kukl, sú sveit hlaut öllu meiri athygli en Fan Houtens kókó og því lognaðist sveitin út af. Þegar Sykurmolarnir / Sugarcubes urðu til upp úr leifum Kuklsins var Þór Eldon einnig í þeirri sveit.

Þótt Fan Houtens kókó væri hætt störfum voru meðlimir hennar áfram virkir í nýbylgjusenunni og komu að stofnun fjölda hljómsveita, útgáfufyrirtækisins Smekkleysu og þannig mætti áfram telja. Og sögu sveitarinnar var í raun ekki alveg lokið þótt hún væri hætt störfum, árið 1984 komu út þrjú lög með sveitinni á safnsnældunni Rúllustiganum, þremur árum síðar kom út önnur kassetta á vegum Grammsins (o.fl.) undir nafninu New Icelandic music en lítið fór fyrir þeirri útgáfu og líklega var henni aðeins dreift erlendis, Fan Houtens kókó átti eitt lag á þeirri snældu. Til stóð haustið 1988 að Smekkleysa gæfi út eins konar safnplötu með sveitinni en af þeim áformum varð aldrei og í kjölfarið gleymdist Fan Houtens kókó fólki um árabil.

Það var svo vorið 2014 að fréttir bárust af því að plata með sveitinni væri að koma út á vegum Smekkleysu, hún bar titilinn Gott bít og var eins konar safnplata með efni af kassettunum tveimur, safnkassettunni Rúllustiganum og áður óútgefnu efni, allt lifandi upptökur ýmist frá tónleikum eða úr æfingahúsnæðinu.

Fan Houtens kókó kom svo saman aftur vorið 2016 en kom að líkindum ekki fram opinberlega, sömu meðlimir og áður skipuðu sveitina og áður, Þór, Einar, Matthías og Ólafur en Hilmar Örn var einnig með þeim félögum og nú sem hljómborðsleikari. Um svipað leyti komu út eldri lög með sveitinni á safnkassettunum [Hrátt] Pönksafn og [Soðið] Pönksafn, sem gefnar voru út af Erðanúmúsik-útgáfunni. Árið 2019 var svo Musique elementaire endurútgefin á vínylplötuformi í takmörkuðu upplagi (fjörutíu eintökum) þar sem nostrað var við hvert eintak en umslag plötunnar var handgert.

Efni á plötum