Hið afleita þríhjól (1982-88)

Tilraunasveitin Hið afleita þríhjól var eins konar afsprengi eða framhald hljómsveitarinnar Fan Houtens Kókó sem starfað hafði þá innan Medúsu hópsins og kom upphaflega úr nýstofnuðum Fjölbrautaskólanum í Breiðholti.

Hið afleita þríhjól var stofnað haustið 1982 og kom þá fram opinberlega í fyrsta sinn, á tónleikum í Djúpinu. Ekki liggur fyrir hverjir skipuðu sveitina í það skipti en Þór Eldon gítarleikari og Jóhannes Óskarsson (ljóðskáldið Jóhamar) hljómborðsleikari og söngvari mynduðu kjarna hennar alla tíð síðan og fengu oftast til liðs við sig hina og þessa aðstoðarmenn eftir þörfum, meðal þeirra má nefna Sigtrygg Baldursson, Hilmar Örn Hilmarsson og Björk Guðmundsdóttur. Það var aðeins í upphafi sem Jóhamar lék á hljómborð á uppákomum sveitarinnar en annars var hlutverk hans í sveitinni að flytja lýðnum boðskapinn í formi ljóða.

Hið afleita þríhjól starfaði með hléum næstu árin og flutti sína framsæknu tilraunatónlist á stöðum eins og Nýlistasafninu, Norðurkjallara Menntaskólans við Hamrahlíð og víðar en einnig fór sveitin með Sykurmolunum sem upphitunaratriði fyrir tónleika þeirrar sveitar um Bretland.

Hið afleita þríhjól sendi frá sér eina afurð í formi fjórtán laga kassettu árið 1983 undir nafninu Hann snerti mig! og einnig voru uppi hugmyndir um plötuútgáfu árið 1988 en sú plata kom aldrei út af einhverjum ástæðum, lag sem bar heitið Ást, þú meinar andlega, mun hafa verið nokkuð eftirminnilegt á tónleikum sveitarinnar og átti að vera á þessari plötu en kom fyrir vikið aldrei út.

Sveitin mun hafa hætt störfum árið 1988 en kom þó fram á Smekkleysu uppákomu á Menningarnótt síðsumars 2003.

Efni á plötum