Garðar Cortes (1940-2023)

Garðar Cortes

Óhætt er að segja að óperusöngvarinn Garðar Cortes hafi verið í fremstu röð tónlistarfólks á Íslandi á tuttugustu öldinni en hann kom að íslensku tónlistarlífi frá mörgum hliðum sem kórstjórnandi, óperusöngvari, hljómsveitastjóri, óperustjóri, söngskólastjóri og jafnframt stofnandi hljómsveita, kóra, tónlistarskóla og óperu. Hann fórnaði frama í alþjóðlegum heimi óperunnar til að sinna hugsjónastarfi sínu hér á landi í söng- og óperumálum, fingraför Garðars er að finna víða í íslensku tónlistarlífi og tenórsöng hans má heyra á fjölda platna.

Garðar Emanúel Axelsson Cortes fæddist í Reykjavík árið 1940 og framan af var fátt sem benti til að hann yrði tónlistarmaður, hann lærði reyndar á píanó sem barn og var í skólakór Hlíðardalsskóla í Ölfusi þar sem hann var tvo vetur við nám. Hann var af listrænu fólki kominn og margt tónlistarfólk tengt honum, sem dæmi um það má nefna Óskar Cortes fiðluleikara föðurbróður hans og Jón Kristin Cortes kórstjórnanda og bassaleikara sem er bróðir Garðars, þrjú börn Garðars af fjórum hafa jafnframt meira og minna helgað sig söng.

Upphaflega stóð til hjá Garðari að verða guðfræðingur og var hann við nám í Bretlandi í tvo vetur í guðfræði, einnig var hann með hugmyndir um að verða flugumferðarstjóri en það var svo haustið 1963 sem hann flutti til London og hóf þá söngnám, þar nam hann auk söngs hljómsveitarstjórnun og kórstjórnun og lauk jafnframt kennaraprófi frá Royal Academy of Music og Trinity College of Music. Með námi sínu ytra vann hann ýmis störf og m.a. fékkst hann við söng á krám þar sem hann söng t.a.m. Bítlalög. Síðar átti hann eftir að mennta sig frekar í sönglistinni, í Austurríki og á Ítalíu en það voru mestmegnis styttri námskeið.

Eftir að Garðar lauk námi í London 1969 bauðst honum að starfa áfram í Bretlandi, hann starfaði um skamman tíma við kennslu, kór- og hljómsveitarstjórnun, hafnaði síðan starfi hjá BBC og kom heim til Íslands og gerðist tónlistarkennari og skólastjóri við tónlistarskólann á Seyðisfirði þar sem hann var einn vetur og stjórnaði þar einnig kórum sem hann kom á fót. Þann vetur starfaði hann reyndar einnig við Þjóðleikhúsið þar sem hann söng og lék hlutverk í Pilti og stúlku, og ljóst þótti að hans starfsvettvangur væri miklu fremur á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni.

Garðar í óperuhlutverki

Þegar Garðar var alkominn til Reykjavíkur 1970 hófst hann strax handa við að efla tónlistarlífið í borginni með sínum hætti, hann hóf að stjórna karlakórnum Fóstbræðrum sem hann starfaði með þrjú næstu árin en einnig tók hann til við að vinna við tónlist við Þjóðleikhúsið s.s. sem söngvari og hljómsveitarstjóri í leikritum og söngleikjum eins og Ég vil, ég vil, Zorba, Oklahoma, Kabarett og við barnaóperuna Nóaflóðið svo dæmi séu tekin. Þá stjórnaði hann jafnframt Þjóðleikhúskórnum um tíma sem og Samkór Kópavogs, og þá söng hann margoft einsöng á tónleikum, í útvarpi og sjónvarpi. Einnig söng hann um tíma í Einsöngvarakórnum og stjórnaði þeim kór einnig, aukinheldur sem hann leysti af í Einsöngvarakvartettnum, söng með Ljóðakórnum o.fl. svo verkefnin voru ærin. Fyrstu árin kenndi hann jafnframt tónlist og ensku við Réttarholtsskóla.

Fyrsta stóra verkefnið sem Garðar tók sér fyrir hendur ef svo má að orði komast var stofnun söngskóla en þá höfðu íslenskir söngvarar fram að því þurft að sækja menntun sína út fyrir landsteinana. Hugmynd hans, Söngskólinn í Reykjavík varð síðan að veruleika sumarið 1973 og varð Garðar skólastjóri skólans frá upphafi og sinnti því hlutverki lengst af, í raun var skólinn upphaflega í eigu hans en var rekinn með styrk frá ríki og borg. Fimm árum síðar varð skólinn að sjálfseignarstofnun þegar félag var stofnað undir hann og hann er enn starfandi í dag og hafa þúsundir söngnema farið þar í gegn. Strax fyrsta haustið bárust um hundrað umsóknir sem sýnir að þörfin fyrir Söngskólann í Reykjavík var mikil. Sjálfur kenndi Garðar við skólann og meðal þekktra óperusöngvara sem hefur notið kennslu hans má nefna Viðar Gunnarsson, Kolbein Ketilsson, Jóhann Friðgeir Valdimarsson og Bjarna Thor Kristinsson að ógleymdum syni Garðars, nafna hans Garðar Thor Cortes.

Garðar söng fjölmörg óperuhlutverk á þessum árum, bæði á tónleikum með stórum hljómsveitum og kórum og í óperu- og óperettuuppfærslum í Þjóðleikhúsinu, þarna má nefna sönghlutverk í Leðurblökunni, Carmen, Aidu, Silkitrommunni, Carmina Burana og Helenu fögru og tengist næsta stóra verkefni hans óperunum því hann hafði frumkvæði að stofnun Íslensku óperunnar sem hann kom á fót með hjálp árið 1978 (stofnuð formlega 1980) og þar átti hann einnig eftir að gegna lykilhlutverki sem óperustjóri um árabil eða til 1999. Íslenska óperan starfaði undir hans stjórn við erfiðan rekstrargrundvöll lengi vel en á einhvern ótrúlegan hátt náði hann að reka óperuna með sóma og fjölmargar óperur voru settar á svið undir hans stjórn, oft einnig sem hljómsveitarstjóri.

Garðar á yngri árum

Fleiri stórvirki biðu Garðars, árið 1975 hafði hann stofnað kór við Söngskólann í Reykjavík sem hlaut nafnið Kór Söngskólans en hann var skipaður söngnemendum við skólann og varð því fljótt öflugur undir stjórn Garðars. Kórinn fékkst við fjölda stærri verkefna, söng t.a.m. með stórum hljómsveitum á tónleikum og þegar Íslenska óperan var sett á laggirnar rann hann saman við og varð að Kór Íslensku óperunnar. Fjölmargar plötur hafa komið út þar sem kórinn syngur undir stjórn Garðars en hann varð síðar sjálfstæður kór og fékk þá nafnið Óperukórinn í Reykjavík.

Garðar stjórnaði fleiri kórum, á áttunda áratugnum stjórnaði hann Söngsveitinni Fílharmóníu um eins árs skeið árið 1970 og svo aftur 1973-75, á níunda áratugnum stjórnaði hann um tíma Íslenska kammerkórnum og söng einsöng með þeim kór á tónleikum, og á nýrri öld stjórnaði hann Hljómkórnum, Karlakór Kópavogs og svokölluðum Þjóðarkór. Og Garðar kom að fleiri ámóta verkefnum, hann stofnaði og stjórnaði áhugamanna sinfóníuhljómsveit sem gekk undir nafninu Sinfóníuhljómsveit Reykjavíkur og starfaði um nokkurra ára skeið á áttunda áratugnum. Hann fékkst ennfremur við að stjórna hljómsveitum á stærri tónleikum s.s. Sinfóníuhljómsveit Íslands, og fékk fjölbreytileg verkefni við kórstjórnun á kóramótum hér á landi sem erlendis í gegnum tíðina. Þess má geta að Garðar samdi tónlist sjálfur, líklega mestmegnis sönglög sem hafa verið flutt opinberlega en ekki liggja fyrir upplýsingar um hvort einhver þeirra hafi komið út á plötum.

Þrátt fyrir að Garðar starfaði að langmestu leyti hér á landi reyndi hann fyrir sér erlendis, þegar honum bauðst að stýra Óperunni í Gautaborg í Svíþjóð við upphaf tíunda áratugarins sló hann til og gerði samning til þriggja ára, hann gegndi því starfi í um ár en hætti þá eftir samstarfsörðugleika við undirmenn sína, hann starfaði við ráðgjöf innan óperunnar um tíma eftir það.

Nokkru fyrir Svíþjóðarævintýrið hafði Garðari einnig boðist að syngja við erlend óperuhús þegar kunnur umboðsmaður kom til Íslands og sá hann syngja við Íslensku óperuna, hann reyndi fyrir sér um tíma og söng til að mynda víða í óperum og á tónleikum um Norðurlöndin, Bretlandseyjar, Bandaríkin og Suður-Ameríku, um áratugar skeið frá 1986-96.

Garðar Cortes kom við sögu á mörgum útgefnum hljómplötum, ýmist sem einsöngvari eða kórstjórnandi. Fyrsta sólóplata hans leit dagsins ljós árið 1977 en á henni flutti hann ásamt eiginkonu sinni, Krystynu Cortes píanóleikara átján íslensk einsöngslög. Platan bar titilinn Íslenzk einsöngslög I og var gefin út af útgáfufyrirtækinu Trygg records en upptökur höfðu farið fram í Norwich í Englandi. Til stóð að þessi plata yrði endurútgefin í kringum aldamótin en engar upplýsingar þ.a.l. er að finna. Ári síðar (1978) kom út plata með þeim Garðari og Ólöfu Kolbrúnu Harðardóttur undir titlinum Á hátíðarstund: Ólöf Kolbrún Harðardóttir og Garðar Cortes syngja kirkjuleg verk, á plötunni sungu einnig Kór Söngskólans undir stjórn Garðars og Kór Langholtskirkju undir stjórn Jóns Stefánssonar en hún var gefin út og seld til styrktar húsakaupum Söngskólans í Reykjavík. Hljóðritun hafði farið fram í Hljóðrita í Hafnarfirði og Háteigskirkju haustið 1978.

Garðar Cortes

Mörg ár liðu uns næsta plata með Garðari leit dagsins ljós, það var árið 1999 en sú plata hafði reyndar verið hljóðrituð fimmtán árum áður, annars vegar á tónleikum og hins vegar í hljóðveri Ríkisútvarpsins með sama prógramminu sem samanstóð af ljóðatónlist úr ýmsum áttum. Platan var þess vegna tvöföld en hún bar titilinn Austurbæjarbíó 3. mars 1984 og vísar til stað- og dagsetningarinnar sem tónleikarnir fóru fram en útvarpsupptakan hafði verið gerð mánuði fyrr, það var Erik Werba sem lék undir á píanó á plötunni. Á tónleikahlið plötunnar vakti nokkra athygli truflun sem varð á tónleikunum en þá hafði hreyfihamlaður áhorfandi verið að koma sér fyrir með þeim afleiðingum að mikill hávaði hlaust af og mun það hafa tekið áhorfendur nokkurn tíma að jafna sig þótt listmennirnir sjálfir létu ekki trufla sig, platan fékk ágæta dóma í Morgunblaðinu. Upp frá því varð nokkuð styttra á milli platna Garðars og má því einkum þakka samstarfi hans við sænska píanóleikarann Robert Sund en fjórar plötur litu dagsins ljós með þeim félögum. Fyrsta skal telja plötuna Daydreams sem innihélt rómantísk dægurlög úr ýmsum áttum – á vegum Polarfonia Classics útgáfunni, litlar upplýsingar er að finna um þessa plötu en hún fékk mjög góða dóma í Morgunblaðinu. Næst var það Draumur um hvít jól / Dreaming of a white christmas sem einnig kom út árið 2000 og hafði að geyma sautján jólalög úr ýmsum áttum í flutningi þeirra. Þess má geta að upptökur fóru fram þjóðhátíðardaginn 17. júní en þann sama dag reið yfir mikill jarðskjálfti um sunnanvert landið (iðulega nefndur þjóðhátíðarskjálftinn) og mun það hafa truflað upptökurnar nokkuð. Næsta plata kom út 2008 og hét Uppáhalds negrasálmar Garðars & Róberts / Favourite negro spirituas of Gardar & Robert, litlar upplýsingar er að finna um þessa plötu. Fjórða og síðasta plata þeirra félaga kom út 2014 undir flytjendanöfnunum Garðar Cortes og Trio Con Fuse en Robert Sund var meðlimur þessa sænska tríós, platan hét As time goes by og fékk mjög góða dóma í Fréttablaðinu. Þrátt fyrir að Garðar væri á þessum tíma nánast hættur að syngja opinberlega á tónleikum héldu þeir Robert árlega tónleika um nokkurt skeið á þessum árum og fóru jafnvel út á land til tónleikahalds. Í millitíðinni, árið 2011 hafði komið út á vegum Frost music dúettaplata þar sem þeir feðgar, Garðar og sonur hans Garðar Thor sungu íslensk lög, sú plata hafði titilinn Cortes feðgar: Ísland og fékk hún fremur slaka dóma í Fréttablaðinu.

Fleiri plötur hafa komið út þar sem Garðar syngur þótt ekki séu þær í hans nafni, hann söng til að mynda á plötu Árna Johnsen (1975), á plötu með lögum eftir Þórarin Guðmundsson fiðluleikara (1978), söng og lék á plötunni Mjallhvít og dvergarnir sjö (1978), söng ásamt Sigríðu Ellu Magnúsdóttur og Kór Mýrarhúsaskóla á plötunni ABCD (1979) og sama ár á plötunni Í birkilaut sem hafði að geyma lög eftir Ísólf Pálsson. Þá söng Garðar á plötunni Ég leitaði blárra blóma með lögum eftir Gylfa Þ. Gíslason árið 1981 og einnig á tveimur öðrum plötum með tónlist Gylfa sem komu út 1988 og 2000, einnig er hér nefndur einsöngur Garðars með Kór Langholtskirkju á plötu kórsins (1992) og sama ár kom út plata með tónlistinni úr kvikmyndinni Karlakórnum Heklu en þar söng hann og lék eitt aðalhlutverka. Árið 1994 söng Garðar átta lög á safnplötunni Á Ljóðatónleikum Gerðubergs IV, 1998 söng hann á plötu Stuðmanna og Fóstbræðra (frá tónleikum í Háskólabíói) og 2006 söng hann á plötu Ómars Ragnarssonar, Ómar lands og þjóðar.

Kórar undir stjórn Garðars hafa jafnframt sent frá sér fjölda platna, þar má nefna karlakórinn Fóstbræður (1977), Kór Söngskólans (1977) en sá kór söng einnig á jólaplötu Brunaliðsins (1978), þá hefur Kór Íslensku óperunnar / Óperukórinn í Reykjavík sent frá sér plötur og sungið á plötum annarra undir stjórn Garðars. Einnig má nefna plötu með Kór Aðventkirkjunnar sem Garðar stjórnaði við upptökur en Krystyna eiginkona hans stjórnaði þeim kór annars.

Garðar gegndi ýmsum öðrum störfum innan tónlistargeirans, hann var t.d. kjörinn formaður Landssambands blandaðra kóra árið 1976 og gegndi því embætti um árabil, hann stóð einnig fyrir tónleikahaldi fyrir utan óperusýningar og kóratónleika, hann stóð t.d. fyrir tónleikum hins rússnesk-ættaða Þjóðverja Ivans Rebroff árið 1980, var framkvæmdastjóri Söngleika 78 sem voru 40 ára afmælistónleikar LBK, svo nokkur dæmi séu nefnd. Hann hlaut jafnframt margvíslegar viðurkenningar fyrir störf sín að tónlistarmálum, stærsta viðurkenningin er sjálfsagt fálkaorðan en einnig má nefna Bjartsýnisverðlauns Brösters, heiðursverðlaun Grímunnar og Menningarverðlaun VISA.

Efni á plötum