Garðar Olgeirsson (1944-)

Garðar Olgeirsson

Garðar Olgeirsson er harmonikkuáhugamönnum vel kunnur en hann hefur verið í fremstu röð nikkuspilara hérlendis um árabil og sent frá sér nokkrar plötur.

Garðar Olgeirsson fæddist 1944 og hefur mest alla tíða búið á æskuheimili sínu að Hellisholtum í Hrunamannahreppi. Hann hóf snemma að þreifa fyrir sér með harmonikkuleik, eignaðist sína fyrstu nikku tíu ára gamall og spilaði í nokkur ár eftir eyranu áður en hann fór í nám á heimaslóðum, lærði á klarinettu við Tónlistarskóla Árnessýslu en síðar á harmonikku hjá Karli Jónatanssyni.

Garðar fór til Reykjavíkur og starfaði þar með hljómsveitum sem sérhæfðu sig í gömlu dönsunum, Hljómsveit Óskars Cortes og Hljómsveit Ágústs Guðmundssonar voru meðal þeirra sveita en þegar faðir hans veiktist fór Garðar aftur austur í Hrunamannahrepp og tók síðan við búi föður síns á Hellisholtum. Síðan þá hefur hann mestmegnis leikið einn, mest á heimaslóðum en einnig með félagsskap harmonikkuleikara þegar slík félög fóru að spretta upp víðs vegar um land, þannig hefur hann t.d. margoft komið fram á Hátíð harmonikunnar og fleiri ámóta samkomum. Hann hefur einnig leikið við annars konar tækifæri s.s. með Leikfélagi Biskupstungna á sýningum félagsins á söngleiknum Síldin kemur, síldin fer. Garðar hefur jafnframt samhliða bústörfum kennt á harmonikku og hugsanlega einnig klarinettu í tónlistarskóla héraðsins.

Heimildir segja að harmonikkuleik Garðars sé fyrst að heyra á tveggja laga plötu með Harmonikkukvintett Karls Jónatanssonar árið 1954 en það stenst illa þar sem Garðar var þá einungis tíu ára gamall. Hann lék þó án nokkurs vafa á plötu Kvintetts Karls Jónatanssonar sem kom úr 1968 (endurútgefin 1976) og á annarri plötu með Guðjóni Matthíassyni og félögum (1969).

Garðar Olgeirsson

Árið 1971 kom út sex laga plata með Garðari og Guðjóni en hún bar titilinn Guðjón Matthíasson og Garðar Olgeirsson leika gömlu dansana, á þeirri plötu samdi Garðar eitt laganna. Fimm árum síðar (1976) sendi Garðar frá sér stóra harmonikkuplötu í félagi við Jóhann Jósefsson og Bjarka Árnason, hún hét Harmonikan hljómar og var gefin út af Akkord, útgáfufyrirtæki Karls Jónatanssonar. Á þessum árum var Garðar orðinn landskunnur harmonikkuleikari, hann var töluvert mikið spilaður í útvarpi en þess ber auðvitað að geta að aðeins var þá ein útvarpsstöð starfandi.

1978 urðu merk tímamót í íslenskri útgáfusögu en þá kom út fyrsta sólóbreiðskífa harmonikkuleikara hér á landi, það var plata Garðars og fékk hún titilinn Meira fjör, eftir upphafslaginu. Það voru SG-hljómplötur sem gáfu plötuna (og kassettuna) út en Garðar samdi eitt laganna sem alls voru tólf talsins. Þremur árum síðar kom út önnur plata með Garðari, hún hét Glatt á hjalla og var gefin út af Stuðlatónum, báðar þessar plötur tók hann upp á segulbandstæki (sem hann hafði keypt frá Danmörku) heima hjá sér, og var gítar- og bassaleik síðar bætt ofan á harmonikkuleikinn í hljóðveri. Tónlistin á þessum tveimur plötum var að mestu skandinavísk.

1984 var Garðar meðal flytjenda á safnplötunni Meira fjör með Félagi harmonikuunnenda en að öðru leyti fór lítið fyrir honum á útgáfusviðinu næstu árin, hann kom einnig við sögu á safnplötunni Harmonikutónar en það var svo árið 1996 sem ný plata kom út með Garðari. Hún kom út á vegum Almennu umboðsskrifstofunnar og hét Gömlu dansarnir og sérdansarnir líka. Ári síðar (1997) lék hann ásamt fleirum á plötu Karls Jónatanssonar, Lillý, og árin 2000 og 2003 var hann meðal flytjenda á plötunum Harmoníkuhátíð í Reykjavík: The International Reykjavik Accordion Festival 2000 og 2003.

2013 kom út platan Garðar Olgeirsson á fullri ferð og var hún að mestu byggð á skandinavískum harmonikkulögum en einnig var þar að finna frumsamið efni.

Garðar Olgeirsson er enn að spila þegar þetta er ritað þótt hann sé kominn vel yfir sjötugt.

Efni á plötum