Afmælisbörn 25. mars 2015

Garðar Olgeirsson1

Garðar Olgeirsson

Tvö afmælisbörn eru skráð í dag:

Garðar Olgeirsson harmonikkuleikarinn kunni er 72 ára. Fjórar plötur hafa komið út með honum þar sem hann leikur listir sínar á nikkuna og er þekktast laga hans Meira fjör á samnefndri plötu frá 1978. Hann hefur einnig leikið á plötum í félagi við aðra harmonikkuleikara.

Akureyringurinn og prentarinn Finnur Eydal átti einnig afmæli á þessum degi en hann lést árið 1996. Finnur sem fæddist 1940 rak eigin hljómsveitir og var klarinettu- og saxófónleikur hans aukinheldur sterkt einkenni á hljómsveit bróður hans, Ingimars Eydal, þar sem hann lék í áraraðir. Hann lék einnig í hljómsveit Svavars Gests um tíma, auk Atlantic kvartettsins og lék á tugum hljómplatna. Finnur var giftur söngkonunni Helenu Eyjólfsdóttur en þau hjónin störfuðu iðulega saman í hljómsveitunum.