Gargið (2000-03)

Gargið

Hljómsveitin Gargið (Garg) var síðasta hljómsveitin sem Pétur W. Kristjánsson starfaði með en hún starfaði um þriggja ára skeið eftir aldamótin.

Gargið, sem oftar en ekki var auglýst undir nafninu Pétur Kristjánsson & Gargið var stofnuð vorið 2000 og fór á fullt um sumarið, auk Péturs voru í sveitinni Jón Ólafsson bassleikari, Tryggvi J. Hübner gítarleikari og Björgvin Ploder trommuleikari, allir munu þeir hafa sungið. Ásgeir Óskarsson og Ragnar Sigurjónsson leystu Björgvin stundum af þegar Björgvin átti ekki heimangengt og einnig mun Friðþjófur Sigurðsson bassaleikari hafa leikið lítillega með Garginu.

Sveitin hafði yfirið nóg að gera, fór m.a. til Færeyja til að spila, en hún starfaði nokkuð sleitulaust fram á 2002. Eftir það fór minna fyrir henni og sumarið 2003 lék hún í síðasta sinn og hafði þá ekki komið fram í nokkurn tíma.

Gargið mun hafa tekið upp að minnsta kosti þrjú lög sem komu út á safnplötum, m.a. á plötunni Algjör sjúkheit sem kom út að Pétri látnum.

Gargið kom aftur saman á minningartónleikum um Pétur snemma árs 2005.