Afmælisbörn 7. janúar 2015

Pétur Kristjánsson

Pétur Kristjánsson

Enn og aftur er dagurinn fullur af tónlistartengdum afmælisbörnum:

Kristján Hreinsson tónlistarmaður og ljóð/textaskáld með meiru er 58 ára. Fyrir utan að hafa samið mörg hundruð texta sem komið hafa út á plötum hefur Kristján gefið út fjölmargar plötur undir eigin nafni frá 1990.

Stefán (Guðmundur) Óskarsson trúbador frá Raufarhöfn er 52 ára. Hann hefur skemmt á árshátíðum og skemmtunum um land allt um árabil og gaf árið 2000 út plötuna Rokk og rómantík.

Anna Mjöll Ólafsdóttir söngkona er 45 ára, hún á ekki langt að sækja tónlistargáfurnar því hún er dóttir Svanhildar Jakobsdóttur og Ólafs Gauks Þórhallssonar. Anna Mjöll hefur sungið í Landslagskeppninni, Látúnsbarkakeppninni og Eurovision en hún flutti framlag Íslendinga, Sjúbídú, árið 1996. Hún hefur bæði gefið út sólóplötur og í samstarfi við móður sína. Anna Mjöll hefur búið í Bandaríkjunum um árabil.

Njáll Þórðarson hljómborðsleikari er 41 árs en hann hefur leikið með þekktum hljómsveitum eins og Vinum vors og blóma, Landi og sonum og Sælgætisgerðinni, og öðrum minna þekktum eins og Forte og Busunum.

Pétur (Wigelund) Kristjánsson var einnig fæddur á þessum degi en hann lést langt um aldur fram árið 2004. Pétur sem var fæddur 1952 var söngvari og bassaleikari fjölda hljómsveita á sjöunda, áttunda og níunda áratugnum og var ein af skærustu poppstjörnum íslenskrar tónlistarsögu. Meðal sveita sem Pétur starfaði með voru Póker, Pops, Pelican, Start, Dúndrið, Paradís, Náttúra og Gargið svo einungis fáeinar séu nefndar. Auk þess gaf Pétur út plötur undir eigin nafni og starfaði með mörgum öðrum tónlistarmönnum.