Afmælisbörn 6. janúar 2015

Kalli Bjarni

Kalli Bjarni

Fjölmörg afmælisbörn koma við sögu í dag, þau eru eftirfarandi:

Þórunni Lárusdóttur leik- og söngkonu skal fyrst nefna, hún er 42 ára gömul og hefur komið víða við í tónlistarlegum skilningi. Hún gaf t.a.m. út plötuna Álfar og tröll ásamt Friðrik Karlssyni 2006, jólaplötu með systrum sínum (Dísellu og Ingibjörgu) 2004 og hefur einnig sungið á fjöldann allan af plötum í tengslum við leiksýningar.

Karl Bjarni Guðmundsson (Kalli Bjarni) söngvari vann fyrstu Idol-keppnina sem haldin var hérlendis (2004), gaf út sólóplötu í kjölfarið en fylgdi frægðinni ekki eftir sem skyldi. Hann hafði einnig verið í nokkrum hljómsveitum áður s.s. Veridian green og The Bananas. Kalli Bjarni er 39 ára gamall í dag.

Ingibjörg (Kristín) Sigurðardóttir frá Bjálmholti (1909-98) átti einnig afmæli þennan dag. Hún samdi fjöldann allan af sönglögum og úrval þeirra kom út á 36 laga plötu, Heyrði ég í hamrinum, árið 1997. Þar sungu ýmsir listamenn úr Rangárþingi lög Ingibjargar, samhliða útgáfu plötunnar kom út nótnahefti með safni 90 laga Ingibjargar, eða Minnu eins og hún var kölluð.

Tómas Guðmundsson Reykjavíkurskáld var einnig fæddur á þessum degi en hann kom í heiminn 1901. Tómas þarf varla að kynna, allir þekkja ljóð hans sem ýmsir listamenn hafa samið lög við en hér má t.d. nefna Austurstræti, Dagný, Ég leitaði blárra blóma, Fyrir átta árum, Hótel Jörð, Játning og mörg fleiri. Lög við ljóð hans skipta sjálfsagt hundruðum á útgefnum plötum. Tómas lést 1983.