Afmælisbörn 14. apríl 2020

Pétur Sigurðsson tónskáld

Glatkistuafmælisbörnin eru þrjú talsins í dag:

Hvergerðingurinn og kennarinn Heimir Eyvindarson lagahöfundur og hljómborðsleikari hljómsveitarinnar Á móti sól er fimmtíu og tveggja ára gamall í dag. Hann hefur lengst af starfað með Á móti sól  sem hefur starfað á þriðja áratug en einnig má nefna sveitir eins og Dansband EB, Jónas, Ljósmund, Pass (frá Mars), Lótus og Nonna & mannana.

Einnig á gítarleikarinn Ásgeir (Jón) Ásgeirsson afmæli á þessum degi en hann er fjörutíu og átta ára gamall. Ásgeir byrjaði í poppinu og lék þá með sveitum eins og Sóldögg en síðan tók djassinn yfir og hann hóf að leika með hljómsveitum í þeim geiranum eins og B3, Burkina Faso, Huld, Los, Out of the loop, The Multiphones og JP3. Ásgeir hefur sent frá sér þrjár sólóplötur, þá síðustu árið 2017.

Pétur Sigurðsson tónskáld frá Sauðárkróki (1899-1931) átti líka afmæli á þessum degi. Skagfirðingar hafa haldið minningu hans á lofti með ýmsum hætti, Skagfirska söngsveitin hefur t.d. haft lög hans á efnisskrá sinni og einhver þeirra gefið út á plötum sem og karlakórinn Heimir, sem Pétur stjórnaði reyndar um tíma.