The Grinders (1987-90 / 2005)

The Grinders

Blússveitin The Grinders var íslensk/bandarísk sveit sem starfaði í Svíþjóð um skeið um lok níunda áratugarins en meðlimir sveitarinnar voru þeir Kristján Kristjánsson (KK) gítarleikari og söngvari, Þorleifur Guðjónsson bassaleikari, John Scott Alexander (Professor Washboard) ásláttarleikari og Derrick „Big“ Walker munnhörpu- og saxófónleikari.

Þeir félagar busk-uðu um Svíþjóð að minnsta kosti og líklega víðar um Norðurlöndin frá árinu 1987, og komu hingað til lands 1989. Hér héldu þeir nokkra tónleika í Tunglinu og hljóðrituðu efni sem gefið var út á kassettu með titlinum Special guest pass, og síðar á geisladisk með KK undir titlinum Upphafið. Líklega höfðu þeir áður sent frá sér kassettur sem þeir seldu á þeim stöðum sem þeir léku tónlist sína en upplýsingar finnast ekki um þær útgáfur. Einnig er að finna lag með The Grinders á smáskífu sem fylgdi bók Einars Kárasonar um KK (Þangað sem vindurinn blæs) sem kom út árið 2002.

The Grinders lagði upp laupana árið 1990 þegar KK flutti heim til Íslands, en sveitin kom saman á Blúshátíð í Reykjavík vorið 2005 og svo aftur síðar, sama ár.

Efni á plötum