Rask [1] (1990-91)

engin mynd tiltækÍ raun mætti segja að hljómsveitin Rask væru tvær hljómsveitir Bubba Morthens, sem störfuðu með u.þ.b. árs millibili.

Bubbi hafði unnið að og gefið út sólóplötuna Sögur af landi árið 1990, og þegar að því kom að kynna plötuna fór hann af stað með hljómsveit sem hann kallaði Rask, en það hafði verið eins konar vinnuheiti plötunnar. Sveitin lék þá á útgáfutónleikunum og einhverjum uppákomum í kjölfarið, á tónleikum sveitarinnar á Púlsinum í nóvember 1990 voru upptökugræjur á staðnum og voru þeir teknir upp og gefnir síðar út ári síðar undir titlinum Ég er.

Reynir Jónasson harmonikkuleikari var reyndar sá eini Rask-liða sem leikið hafði með Bubba á plötunni Sögur af landi en aðrir meðlimir þessarar sveitar voru Kristján Kristjánsson (KK) gítarleikari, Þorleifur Guðjónsson bassaleikari og Gunnlaugur Briem trommuleikari. Gunnlaugur kom reyndar ekki til sögunnar fyrr en eftir tónleikana sem teknir voru upp á Púlsinum.

Þegar kynningarátaki tengt plötunni lauk var hlutverki Rasks lokið en ári síðar (haustið 1991) lék ný sveit Bubba undir þessu sama nafni og var þá skipuð þeim Bubba, Reyni og Gunnlaugi eins og áður, en í stað Þorleifs og KK voru nú komnir Pálmi Gunnarsson bassaleikari og Tryggvi Hübner gítarleikari. Ekki varð framhald á þeirri útgáfu sveitarinnar.