Rask [2] (1993-94)

Rask

Rask

Hljómsveitin Rask vakti nokkra athygli um miðbik tíunda áratugarins fyrir vasklega framgöngu á böllum og lög sem komu út á safnplötum, sveitin boðaði breiðskífu sem aldrei kom þó út.

Rask var líklega stofnuð 1993 og skartaði söngkonunni Sigríði Guðnadóttur sem þá hafði nýlega vakið mikla athygli fyrir lagið Freedom sem hún flutti ásamt Jet Black Joe, aðrir meðlimir sveitarinnar voru Bergþór Morthens gítarleikari (GCD o.fl.), Björn Sigurðsson bassaleikari (Karma o.fl.), Pétur Örn Guðmundsson hljómborðsleikari (Buff o.fl.) og Bergsteinn Björgúlfsson trommuleikari (Jonee Jonee o.fl.). Reyndar gæti Birgir Baldursson einnig hafa verið trymbill sveitarinnar um tíma, skv. heimild.

Til að byrja með keyrði Rask á cover efni til að spila sig saman, eins og þau orðuðu það í blaðaviðtali, en síðan tóku þau til við að vinna frumsamið efni. Forsmekkinn af því mátti síðan heyra á safnplötunni Heyrðu 2 sem Skífan gaf út 1993. Í framhaldinu fór sveitin í hljóðver samhliða því að spila á skemmtistöðum borgarinnar, og tók upp efni sem átti að dekka heila plötu. Eitt þeirra laga birtist síðan á annarri safnplötu sumarið eftir (1994) sem hét Ýkt böst, lagið hét Þrá og voru gagnrýnendur sammála um að lagið og sveitin lofuðu virkilega góðu, og biðu spenntir eftir boðaðri plötur.

Aldrei kom þó platan út og svo virðist sem Rask hafi smám samana lognast útaf og dáið drottni sínum haustið 1994. Ekki er ólíklegt að endalok sveitarinnar tengist því að Pétur fékk hlutverk í söngleiknum Hárinu sem settur var á svið um þetta leyti. Alltént hefur ekki spurst til sveitarinnar síðan.