Græni bíllinn hans Garðars (1987-93 / 2001-)

Græni bíllinn hans Garðars

Hljómsveitin Græni bíllinn hans Garðars er líkast til þekktasta hljómsveit Bíldudals ásamt Facon en sveitin var öflug í ballspilamennsku á Vestfjörðum á árunum í kringum 1990.

Kjarna sveitarinnar skipuðu nokkrir félagar á Bíldudal sem höfðu spilað nokkuð saman, og sumarið 1987 var sett saman sveit til að spila á böllum. Þetta voru þeir Þórarinn Hannesson söngvari, Viðar Ástvaldsson hljómborðsleikari, Bjarni Þór Sigurðsson gítarleikari, Matthías Ágústsson bassaleikari og G. Hjalti Jónsson trommuleikari. Sveitin hét í fyrstu Harðlífi og lék undir því nafni á fyrsta dansleiknum en því var síðan snarlega breytt í Græni bíllinn hans Garðars, sá Garðar var félagi þeirra og er Sigþórsson. Sveitin lék á áramótadansleik á Bíldudal í fyrsta sinn undir nýja nafninu.

Næstu árin var Græni bíllinn hans Garðars mjög öflug í spilamennsku sinni á dansleikjum á Vestfjörðum en virðist lítið sem ekkert hafa spilað utan svæðisins, það var einkum á sumrin sem sveitin lét til sín taka enda voru meðlimir hennar dreifðir við nám og önnur störf yfir vetrartímann, sveitin hafði úr fjölbreyttu og stóru lagaprógrammi að velja og mun það hafa innihaldið hátt í tvö hundruð lög. Hjalti trommari hætti með sveitinni 1991 og tók Viðar hljómborðsleikari þá við trommuleiknum, og var sveitin þá kvartett eftir það.

Græni bíllinn hans Garðars starfaði til hausts 1993 en hætti þá eftir sex ára starfsemi enda voru meðlimir sveitarinnar dreifðir víða um lands. Sveitin var þó síður en svo endanlega hætt og árið 2001 kom hún saman í upprunalegri mynd á heimaslóðum á Bíldudal, þ.e. með Hjalta trommuleikara en þannig skipuð hafði hún þá ekki komið fram í áratug.

Græni bíllinn hans Garðars og græni bíllinn hans Garðars

Ári síðar birtist sveitin aftur og árið 2003 þegar Þórarinn samdi lag um heimaslóðirnar í tilefni af sumarhátíð á staðnum (Bíldudals grænar baunir), var ákveðið að ráðast í gerð sex laga plötu sem síðan kom út um haustið undir nafninu Endalaust. Á þeirri plötu voru tvö lög eftir Þórarin og önnur tvö eftir Viðar Örn en tvö síðustu voru „Bíldudals-lög“, þar af var annað þeirra Senjorinn sem Tríóið Aukaatriði hafði gefið út á plötu árið 1975. Samhliða útgáfu plötunnar kom saga Græna bílsins hans Garðars út í blaðaformi undir nafninu Saga gleðisveitar. Platan hafði ekki verið gefin út í stóru upplagi en seldist upp og síðan annað upplag einnig, hún fékk jafnframt þokkalega dóma í Morgunblaðinu.

Græni bíllinn hans Garðars er langt frá því að vera hætt störfum og síðustu árin hefur hún komið nokkuð reglulega fram á átthagaslóðum sínum þótt að minnsta kosti sumir meðlima sveitarinnar búi þar ekki lengur. Þess má geta að bæði Þórarinn Hannesson og Bjarni Þór Sigurðsson hafa sent frá sér sólóplötur og reyndar komið mjög víða við í íslensku tónlistarlífi.

Efni á plötum