Guðmundur H. Norðdahl (1928-2018)

Guðmundur H. Norðdahl

Guðmundur H. Norðdahl getur varla talist með þekktustu tónlistarmönnum landsins en nafn hans er þó þekktara í sumum bæjarfélögum en öðrum, má reyndar segja að honum (ásamt Guðmundi Ingólfssyni) megi þakka að mestu því að gjarnan er talað um Keflavík sem bítlabæ því starf hans í bænum stuðlaði að þeim tónlistaráhuga í bland við nálægð erlendra menningarstrauma  sem síðan mótaði heila kynslóð tónlistarmanna sem margir hverjir urðu landsfrægir. Meðal þeirra má hér nefna Þóri Baldursson, Gunnar Þórðarson, Magnús Kjartansson, Magnús Þór Sigmundsson, Jóhann Helgason og fleiri.

Guðmundur Haraldsson Norðdahl var fæddur (1928) og uppalinn í Reykjavík, og sleit þar barnsskónum. Hann lærði eitthvað á píanó sem krakki en einnig á klarinettu (m.a. hjá Sveini Ólafssyni og Vilhjálmi Guðjónssyni) sem varð síðan hans aðalhljóðfæri, hljóm- og tónfræði kom síðar og lauk hann kennaraprófi og reyndar söngprófi síðar meir. Þess má geta að Jonni í Hamborg sem oft hefur verið nefndur fyrsti djasspíanisti Íslands (og hélt fyrstu djasstónleikana hérlendis) leigði í nokkra mánuði heima hjá Guðmundi og hafði mótandi áhrif á hann.

Guðmundur hóf ungur að leika með danshljómsveitum í Reykjavík, við stríðslok 1945 lék hann sautján ára gamall á saxófón og klarinettu með Borgarbandinu (Hljómsveit Þóris Jónssonar) á Hótel Borg, og síðar komu sveitir eins og Hljómsveit Baldurs Kristjánssonar, Hljómsveit Rúts Hannessonar, Þ.Ó. kvintettinn, Hljómsveit Henna Rasmus og Hljómsveit Svavars Gests en með síðast töldu sveitinni starfaði Guðmundur í nokkrar vikur í Vestmannaeyjum laust eftir 1950, þar starfrækti hann reyndar sjálfur eigin sveit um tíma. Um það leyti lék hann einnig í tríói norður á Siglufirði í miðju síldarævintýrinu. Þess má geta að Guðmundur starfrækti einnig hljómsveitir í eigin nafni á síðari hluta fimmta áratugarins á höfuðborgarsvæðinu en upptaka frá árinu 1947 með sveitinni hefur varðveist (með laginu Running wild) og kom út á plötu hljómsveitarinnar Músakk, Viltu með mér vaka, árið 2013 en sú plata er helguð Henna Rasmus sem var í Kvartett Guðmundar, sem lagið er skráð á.

Tímamót urðu í lífi Guðmundar þegar hann réðist til starfa sem söngkennari við barnaskólann í Keflavík árið 1953 en hann hafði fyrr það sama ár verið einn þeirra sem kom að stofnun Lúðrasveitar verkalýðsins, engan átti þá eftir að óra fyrir þeim áhrifum sem hann átti eftir að hafa á tónlistarlífið í bænum, og reyndar Suðurnesjunum öllum, sem brautryðjandi og frumkvöðull í lista- og menningarlífinu. Hann starfaði áfram eitthvað í danshljómsveitum eftir að hann kom til Keflavíkur, lék með Danshljómsveit Keflavíkur (sem síðar varð dixielandshljómsveit), rak eigin sveit um tíma  sem spilaði heilmikið í Ungó í Keflavík og lék einnig með sveitum á svæðinu sem innihéldu bæði Íslendinga og Ameríkana en smám saman lauk þeim þætti í lífi hans og aðrir og veigameiri þættir tóku við. Guðmundur stofnaði ásamt Magnúsi Péturssyni Karlakór Keflavíkur sem varð menningarlífinu í bænum mikil lyftistöng, Guðmundur stjórnaði kórnum sjálfur (og útsetti einnig eitthvað fyrir hann) og annaðist Magnús undirleik í byrjun. Kórinn varð brátt afar öflugur og varð Guðmundi hvatning til frekari verka, hann hafði frumkvæði af því að stofna tónlistarfélag sem síðan varð upphafið að Tónlistarskólanum í Keflavík sem hann kom einnig að með miklum hætti. Hann varð framkvæmdastjóri tónlistarfélagsins og síðar starfaði hann einnig sem skólastjóri tónlistarskólans og við kennslu en undir hans stjórn kviknaði mikill almennur tónlistaráhugi meðal ungs fólks í Keflavík og einkum þegar hann hafði stofnað Lúðrasveit Keflavíkur sem hann stjórnaði sjálfur, margir ungir tónlistarmenn stigu þar sín fyrstu spor í tónlistinni. Hljómsveit Gagnfræðiskólans í Keflavík (Hljómsveit GK) varð til að mynda bein afleiðing af starfi Guðmundar en í þeirri sveit mátti m.a. finna Þóri Baldursson, Einar Júlíusson, Engilbert Jensen og Eggert Kristinsson. Fleiri hljómsveitir og afleggjarar spruttu upp af þessum rótum og ríflega áratug síðar voru margir þessara tónlistarmanna orðnir landsþekktir, Þorsteinn Eggertsson, Elly og Vilhjálmur Vilhjálms, Magnús og Finnbogi Kjartanssynir, Gunnar Þórðarson, María Baldursdóttir, Magnús og Jóhann, Valur Emilsson og fleiri voru meðal þeirra. Í kjölfarið spruttu upp fleiri tónlistarskólar á Suðurnesjunum og mun Guðmundur t.d. hafa stjórnað tónlistarskólanum í Sandgerði um tíma auk þess að stjórna lúðrasveit þar í bæ einnig sem og Karlakór Miðneshrepps (Miðneshreppur hlaut nafnið Sandgerðisbær árið 1990).

Guðmundur við kórstjórn

Guðmundur hafði verið að semja tónlist um tíma áður en hann fluttist suður með sjó, hann hafði t.d. eitthvað verið að senda inn lög í danslagakeppnir sem haldnar voru á höfuðborgarsvæðinu í kringum 1950, í Keflavík samdi hann einnig lög og flutti Karlakór Keflavíkur einhver þeirra á tónleikum, þá samdi hann einnig tónlist fyrir Leikfélag Keflavíkur. Síðar átti hann eftir að semja tónlist við leikrit sem sett voru á svið í Garðaskóla en þau lög komu út á plötu Skólakórs Garðabæjar 1978.

Guðmundur fluttist frá Keflavík í kringum 1963 og nær höfuðborgarsvæðinu en leið hans lá þá í Garðahrepp (sem nú heitir Garðabær) sem þá var varla nema tæplega þorp að stærð, hann sinnti þó eitthvað kennslu áfram í Keflavík samhliða nýju starfi og var reyndar um helgar að leika með hljómsveit í Góðtemplarahúsinu í Reyjkavík. Í Garðahreppi stofnaði Guðmundur tónlistarskóla sem í fyrstu var rekinn heima hjá honum en hlaut síðar varanlegt húsnæði, þar gerðist hann jafnframt skólastjóri ásamt því að kenna í Gagnfræðaskóla Garðahrepps (síðar Garðaskóla), stofnaði og stjórnaði barnakór og blandaðan kór sem hlaut nafnið Tónlistarfélagskórinn, og varð síðar að kirkjukórnum í bænum. Barnakórinn varð síðar formlega að Skólakór Garðabæjar og stjórnaði hann kórnum fyrsta árið undir því nafni, hann var því annar stjórnandi kórsins á ofangreindri plötu sem kórinn sendi frá sér árið 1978. Guðmundur hafði einnig stofnað og stjórnað Lúðrasveit Garðahrepps (Lúðrasveit Garðabæjar) og setti því svip sinn á tónlistarlífið í Garðabæ eins og hann hafði gert í Keflavík áratugina á undan, að auki má nefna að Guðmundur var um eins árs skeið einnig organisti við Garðakirkju og Kálfatjarnarkirkju.

Á síðari hluta áttunda áratugarins lá leið Guðmundar norður yfir heiðar og bjó hann og starfaði í nokkur ár í Suður-Þingeyjarsýslu  (líklega 1977-84), fyrst við Stóru-Tjarnaskóla og síðan við Hafralækjarskóla. Á þessum árum kenndi hann einnig tónlist á Grenivík, Húsavík og Laugum og jafnvel víðar fyrir norðan.  Meðal annarra verka hans fyrir norðan má nefna kórstjórnun en hann stjórnaði karlakórnum Hreimi, sem m.a. sendi frá sér plötu árið 1982, á þeirri plötu samdi Guðmundur og útsetti tónlistina að einhverju leyti. Fyrir norðan stofnað hann ennfremur lúðrasveit við Hafralækjarskóla sem hann stjórnaði á meðan hann starfaði þar, þá er ógetið Stórhljómsveitar Harmonikufélags Þingeyinga sem hann stjórnaði einnig.

Guðmundur á áttunda áratugnum

Á árunum sínum fyrir norðan byrjaði Guðmundur að vinna og þróa kennsluefni í tónlist fyrir börn, bæði var þar um að ræða venjulegt námsefni á bókum en einnig er þar að finna kennsluefni á myndböndum undir titlinum Flautan og litirnir, sem margir þekkja en þetta efni hefur selst í þúsundatali. Um var að ræða stutta þætti fyrir börn sem m.a. voru sýndir í Ríkissjónvarpinu á sínum tíma og hafa í nokkur skipti verið endursýndir í sjónvarpinu. Guðmundur var allt til æviloka að þróa kennsluefni sitt, og reyndar fór hann víða erlendis, m.a. Austurríkis, Kanada, Englands og Ungverjalands, til að afla sér upplýsinga um nýjungar í kennsluaðferðum fyrir börn og um námsefni. Þá vann hann við að þróa hjálpartæki fyrir hljóðfæraleikara í samstarfi við son sinn undir nafninu G. Norðdahl ehf., s.s. til að koma í veg fyrir álagsmeiðsli og létta undir ungum hljóðfæraleikurum sem þurfa oft að valda hljóðfærum sem eru þyngri en þau ráða oft við.

Frá Hafralækjarskóla lá leið Guðmundar suður á nýjan leik en hann starfaði á Akranesi fram undir 1990, þar í bæ vann hann á svipaðan máta og hann hafði gert á hinum stöðunum, hann kenndi við tónlistarskólann á staðnum og reyndar einnig við grunnskólann, stjórnaði þar bæði kórum og lúðrasveitum, t.d. Lúðrasveit Akraness og kom aðeins að hljómsveitarstjórnun við leiksýningar á Skaganum.

Á tíunda áratugnum starfaði Guðmundur mestmegnis við tónlistarkennslu á höfuðborgarsvæðinu, m.a. við Hvassaleitisskóla og Fossvogsskóla á nýrri öld, og raunar var hann líklega að kenna fram undir áttrætt. Einnig stjórnaði hann Lúðrasveit Reykjavíkur um tíma um miðjan tíunda áratuginn en þar lék hann jafnframt á klarinettu eins og heilsan leyfði. Síðustu árin spilaði Guðmundur einnig með Dixielandhljómsveit Árna Ísleifssonar og reyndar einnig með Stórsveit Öðlinganna árið 2010 og 11 að minnsta kosti sem hann stjórnaði aukreitis en hann var þá kominn vel yfir áttrætt.

Guðmundur H. Norðdahl lést haustið 2018 en hann var þá orðinn níræður. Margir urðu þá til að minnast hans og starfa hans, einkum fyrir þau spor sem hann markaði á Suðurnesjunum með eflingu menningarlífsins þar með frumkvæði sínu og atorkusemi en einnig á öðrum stöðum sem hann starfaði um ævina.