Guðmundur Árnason (1953-)

Guðmundur Árnason

Guðmundur Árnason lét nokkuð til sín taka í íslensku tónlistarlífi á áttunda og níunda áratug síðustu aldar og sendi þá m.a. frá sér smáskífu og breiðskífu, hann hefur hins vegar lítið verið áberandi síðan í tónlistinni.

Guðmundur Árnason er fæddur 1953 í Reykjavík, hann hafði eitthvað verið viðloðandi tónlist á menntaskólaárum sínum og þegar hann fór til Brasilíu sem skiptinemi meðtók hann nýja strauma og þar samdi hann sitt fyrsta lag.

Í kjölfarið varð hann einn af þeim sem stóðu að stofnun félagsskaparins Vísnavina hér heima haustið 1976 og varð nokkuð virkur í því samfélagi, innan Vísnavina starfaði hann sem gítarleikari með hljómsveit sem bar heitið Musica nostra og fór víða um með tónlist sína, m.a. erlendis.

Haustið 1980 sendi Guðmundur frá sér tveggja laga plötu, Það vex eitt blóm fyrir vestan / Elsa sem vakti nokkra athygli á honum. Lögin tvö voru efti hann sjálfan en hann fékk Guðmund Benediktsson (Mánar o.fl.) til að syngja fyrrnefnda lagið (við texta Steins Steinarr) sem varð nokkuð vinsælt en hljómsveitin Kaktus sá um undirleikinn, hitt lagið var instrumental. Platan hlaut þokkalega dóma í Helgarpóstinum og Mánudagsblaðinu en mjög góða í Morgunblaðinu og Tímanum.

Það ætti því ekki að koma á óvart að Guðmundur sendi frá sér stóra plötu fyrir jólin 1981, hún var níu laga og bar titilinn Mannspil. Upptökur höfðu farið fram í Hljóðrita og Stemmu en Steinar gaf plötuna út, lögin voru öll eftir Guðmund sjálfan en textahöfundarnir komu úr ýmsum áttum. Einvala lið hljóðfæraleikara kom við sögu á plötunni og meðal annarra má þar nefna liðsmenn Þursaflokksins og félaga Guðmundar úr Vísnavinum. Platan fékk ágæta dóma í Morgunblaðinu, Mánudagsblaðinu og Helgarpóstinum og þokkalega í Þjóðviljanum.

Eftir útgáfu plötunnar fór minna fyrir Guðmundi í tónlistinni. Hann starfaði um tíma sem fararstjóri og menntaði sig síðar í hótelstjórnunarfræðum í Sviss, og starfaði eftir það í hótelbransanum. Hann hafði þó ekki sagt alveg skilið við tónlistina því  hann átti tvívegis lög í úrslitum undankeppni Eurovision hér heima, annars vegar 1988 með lagið Mánaskin (við texta Aðalsteins Ásbergs Sigurðssonar) og hins vegar 1991 með lagið Stefnumót (við texta Inga Gunnars Jóhannssonar). Þá átti hann lag á norðlensku safnplötunni Skref fyrir skref árið 2001 en Guðmundur bjó þá norðan heiða.

Efni á plötum