Guðrún Ágústsdóttir (1897-1983)

Guðrún Ágústsdóttir

Guðrún Ágústsdóttir var ein fyrsta söngkonan hérlendis en hún var jafnframt framarlega í því félagsstarfi sem fólst í sönglífinu í borginni á fyrstu áratugum síðustu aldar.

Guðrún fæddist árið 1897 á Ísafirði en fluttist með móður sinni og systkinum til Reykjavíkur árið 1911 þegar hún var um fermingaraldur. Hún naut ekki mikillar tilsagnar í söngnum en þótti hafa fallega sópranrödd og varð prýðilegur píanóleikari, og þegar spænska veikin herjaði á Reykvíkinga haustið 1918 söng hún við ógrynni jarðarfara en þá má segja að hafi verið jarðað frá morgni til kvölds alla dag, sú lífsreynsla hafði alla tíð síðan áhrif á hana.

Guðrún varð fyrst íslenskra einsöngvara til að syngja í útvarpi á Íslandi en það var í útsendingu h.f. Útvarps árið 1925, nokkru áður en Ríkisútvarpið tók til starfa. Þegar það kom svo til sögunnar átti hún eftir að syngja margoft í útvarpinu og varðveitt er upptaka frá árinu 1930 þar sem hún syngur Ave María (úr Dansinum í Hruna) ásamt útvarpskórnum og hljómsveit útvarpsins. Sú upptaka kom síðan út á safnplötunni Síðasta lag fyrir fréttir (1993). Árið 1933 kom út þriggja laga plata á vegum Fálkans þar sem þær Dóra Sigurðsson syngja en þar syngur Guðrún lögin Sofðu unga ástin mín og Miranda, engar upplýsingar er að finna um undirleikara þeirra á plötunni.

Guðrún var vinsæll einsöngvari og söng á fjölda tónleika allt frá árinu 1917, og svo í Ríkisútvarpinu þegar það kom til sögunnar sem fyrr segir. Hún var einnig áberandi í uppfærslum á stórum kórverkum og þegar fyrsta óratorían hérlendis (Árstíðirnar eftir Haydn) var flutt af stórum kór og hljómsveit undir stjórn Páls Ísólfssonar árið 1939 var Guðrún meðal einsöngvara, þeir tónleikar voru svo stórir að leigja þurfti bifreiðaverkstæði Steindórs undir þá því ekkert tónleikahús var til staðar til að hýsa þá. Hún söng jafnframt í fleiri slíkum uppfærslum og þá söng hún einnig í Dómkórnum, Söngfélaginu Hörpunni og Söngfélaginu Heimi og tók því virkan þátt í sönglífi bæjarins um leið og hún var virk í félagslífi söngfólksins.

Eiginmaður Guðrúnar var Hallur Þorleifsson söngstjóri sem einnig var öflugur í sönglífinu og meðal barna þeirra má nefna söngvarana Kristin og Ásgeir Hallssyni sem báðir sungu inn á plötur en sá fyrrnefndi varð reyndar mun þekktari söngvari.

Guðrún Ágústsdóttir lést árið 1983.

Efni á plötum