Gunnar Hrafnsson (1957-)

Gunnar Hrafnsson

Gunnar Hrafnsson hefur líklega leikið með fleiri hljómsveitum en flestir aðrir en hann er eftirsóttur bassaleikari og varla er djasstríó eða -kvartett sett saman án þess að kallað sé til hans, þá hefur hann leikið á fjölda platna af alls konar tagi. Hann hefur samhliða þessu verið öflugur í félags- og réttindamálum tónlistarmanna, m.a. í Félagi íslenskra hljómlistarmanna.

Gunnar Kvaran Hrafnsson (fæddur 1957) nam bassaleik hér heima og síðan við Berklee college of music í Boston í Bandaríkjunum en hann er auk þess viðskiptafræðingur að mennt.

Hljómsveitaferill Gunnars er langur, framan af spilaði hann mestmegnis með hljómsveitum sem þá léku á dansleikjum og gáfu jafnvel út plötur en síðar voru þetta mikið til djassveitir sem ýmist höfðu nöfn eða voru nafnlausar, tríó, kvartettar og stærri sveitir sem sumar hverjar léku aðeins í eitt eða örfá skipti eða sveitir sem störfuðu í kringum djasshátíðir og tengda atburði, og voru jafnvel ekki nema að litlu leyti skipaðar sömu meðlimum í hvert sinn er þær komu fram.

Fyrstu sveitirnir sem heimildir finnast um eru hljómsveitirnar Pnin og Evusynir sem starfræktar voru á menntaskólaárum Gunnars, með honum í síðarnefndu sveitinni var m.a. Stefán S. Stefánsson sem hann átti eftir að starfa margsinnis með í hljómsveitum s.s. Sextettnum sem var að Ljósunum í bænum og tengt þeirri sveit er einnig Tívolí og svo Mezzoforte sem Gunnar virðist hafa verið í á einhverjum tímapunkti. Á þessum árum lék Gunnar (og söng eitthvað lítillega) einnig með hljómsveitunum Melchior og Ljóðafélaginu en flestar ofangreindra sveita sendu frá sér vinsælar plötur, þannig kemur hann við sögu í þekktum lögum eins og Lagið um það sem er bannað, Fallinn, Diskó friskó og Alan. Sem dæmi um aðrar og minna þekktar sveitir Gunnars á þessum árum má nefna Járnsíðu og ASIU.

Gunnar með bassann

Djassinn tók nú smám saman yfirhöndina og Gunnar lék á ógrynni tónleika á vegum Jazzvakningar, Múlans og fleiri djasstengdra félagsskapa, Pnin hafði verð djasssveit og svo komu á næstu árum og áratugum sveitir eins og Jazzmenn, Tríó Guðmundar Ingólfssonar, Berklee-bræður, Djasskvartett Jónasar Þóris, Kvartett Kristjáns Magnússonar, Tríó Carls Möller, Duus-gengið, Djasskvartett Vesturbæjar, Útlendingaeftirlitið, Litla sveiflusveitin, Smurapar, Tríó Björns Thoroddsen, Fley tríó (Tríó Egils B. Hreinssonar, sem hann spilaði m.a. með um þriggja mánaða skeið á skemmtiferðaskipi), Djasssveit Reynis Sigurðssonar, Tríó Sigurðar Flosasonar, Jazzklass, Kvartett Stefáns S. Stefánssonar, Reykjavík swing syndicate, Tríó Guðlaugar Ólafsdóttur, Tríó Kjartans Valdemarssonar, Tríó Aðalheiðar Þorsteinsdóttur, Tríó Kristjönu Stefáns, Kvartett Ragnheiðar Gröndal, Djasstríó Hafnarfjarðar, The Tiny Thorvaldsen trio, Bandið, Kvartett Bödda Reynis, Tríó Sunnu Gunnlaugs, Tríó Andrésar Gunnlaugssonar, Tríó Ásgeirs Ásgeirssonar, Svartfugl, Kvartett Ólafs Jónssonar, Tríó Ólafs Gauks, Bréfsnjef-kvartettinn, Tríó Hauks Gröndal, Djasskvartett Árna Scheving og ótal aðrar sveitir, sem störfuðu í mislangan tíma, sumar í mörg ár (oft með hléum) en aðrar komu e.t.v. fram í eitt eða fáein skipti. Sumar þessara sveita hafa sent frá sér plötu eða fleiri, t.d. Tríó Björns Thoroddsen sem farið hefur víða um og leikið innan lands og utan, Tríó Egils B. Hreinssonar einnig og Jólakettir. Þá var hann í fyrstu útgáfu Léttsveitar Ríkisútvarpsins og hefur leikið með Stórsveit Reykjavíkur um árabil en sú sveit hefur leikið á nokkrum plötum. Þá hefur Gunnar leikið með fjölda erlendra djasstónlistarmanna sem hingað hafa komið og leikið á tónleikum, þeirra á meðal má nefna Ole Kock Hansen píanóleikara, Ettu Cameron söngkonu, Marilyn Mead flautuleikara, Margot Kiis söngkonu og Finn Ziegler djassfiðluleikara en hann hefur jafnframt leikið á plötum þeirra tveggja síðast töldu.

Gunnar hefur reyndar einnig leikið með annars konar sveitum en djasstengdum, þar má nefna sveitir eins og Bobby‘s blues band, Hljómsveit Gunnars Þórðarsonar (á Broadway), Léttir sprettir, Tregasveitin, Joe‘s band, Stórhljómsveit Hauks Morthens (í Ásbyrgi) og Tamlasveitin en sú síðast talda gaf út plötu. Hann hefur einnig nokkuð komið við sögu í leikhústónlist, komið að tónlistarflutningi og tónsmíðum í sýningum (og á plötum í einhverjum tilvikum) t.d. Landi míns föður, Þreki og tárum, Tvískinnungsóperunni og Svikumm, hann var jafnframt í hljómsveit sem lék í útvarpsþáttum leikhópsins Úllen dúllen doff og á plötu sem kom út með þeim. Hann kom einnig að verkefninu Tónlist fyrir alla þar sem grunnskólar landsins voru heimsóttir, m.a. með dagskrána Heimsreisa Höllu sem byggð var á þjóðlaginu Ljósið kemur, langt og mjótt en Gunnar var maðurinn á bak við það verkefni, sem fór reyndar til tuttugu landa sem framlag Reykjavíkur sem menningarborgar Evrópu.

Gunnar Hrafnsson

Gunnar hefur auðvitað leikið á mörgum tugum útgefinna platna, jafnvel hundruð platna. Hér fyrir neðan eru dæmi um nokkrar hljómsveitir, kóra og tónlistarfólk sem hann hefur spilað inn á plötur fyrir, eins og Geirmundur Valtýsson, Árnesingakórinn í Reykjavík, Ingvi Þór Kormáksson, Guðmundur Ingólfsson, Guðný Einarsdóttir og Elísabet Cortes, Fjörkálfar, Stefán S. Stefánsson, Þormar Ingimarsson, Heimir Sindrason, Ragnar Bjarnason, Sigurður Flosason, Kvennakór Reykjavíkur, Ólafur Haukur Símonarson, Anna Pálína Árnadóttir og Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson, Megas, Gospelsystur Reykjavíkur, Selma og Hansa, Eiríkur Rúnar Einarsson, Þórir Baldursson, Grétar Sigurbergsson, Gunnar Gunnarsson, Kristjana Skúladóttir, Ríkarður Örn Pálsson, Geir Ólafsson, Ólafur Már Svavarsson, Rúnar Þórison, Gradualekór Langholtskirkju, Níels Árni Lund, Jóhanna V. Þórhallsdóttir, Árni Heiðar Karlsson, Árni Ísleifs og Kristjana Stefánsdóttir og þannig mætti áfram telja. Gunnar hefur aukinheldur leikið á plötum eins og Leikskólalögin, plötum við ljóð Tómasar Guðmundssonar og Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi (Sundin blá, Fagra veröld, Aldarminning: Davíð Stefánsson frá Fagraskógi), plötum með þjóðlagatengdu efni s.s. Vikivaki, á jólaplötunni Jól alla daga og á plötunni Guðmundarvöku, sem gefin var út til minningar um Guðmund Ingólfsson.

Aðalstarf Gunnars í gegnum tíðina hefur verið tónlistarkennsla, mest við tónlistarskóla FÍH (Félags íslenskra hljómlistarmanna) og Nýja tónlistarskólann en einnig við Tónlistarskóla Garðabæjar, Listaháskólann og Menntaskólann í tónlist, svo dæmi séu tekin en hann hefur einnig ritað kennsluefni í tónlist og starfað sem prófdómari. Þá starfaði hann um tíma hjá útgáfufyrirtækinu Takti (og síðar Steinum) sem útgáfustjóri og fleira.

Gunnar hefur einnig verið ötull liðsmaður tónlistarmanna í baráttu- og réttindamálum því hann hefur starfað innan FÍH um árabil, verið í stjórn félagsins og gegnt stöðu framkvæmdastjóra og formennsku. Þá hefur hann gegnt ýmsum störfum innan geirans, verið í dómnefnd Eurovision, í stjórn ÚTÓN, verið framkvæmdastjóri tónlistardagsnefndar Tónlistarbandalags Íslands og starfað fyrir Bandalag íslenskra listamanna, auk annarra félagsstarfa.

Þess má geta að dóttir Gunnars, Ragnhildur hefur starfað við tónlist, hún er t.d. trompetleikari hljómsveitarinnar Of monsters and men og hefur starfað með fleiri þekktum sveitum. Þau feðginin hafa starfað saman í spunasveitinni Veröld fláa.