Cabaret (1975-76)

Cabaret

Cabaret (Kabarett) var með allra efnilegustu hljómsveitum í kringum miðjan áttunda áratuginn en sveitin þótti vera nokkuð sér á báti með léttdjassaða sálartónlist með rokkívafi eins og þeir skilgreindu tónlistina sjálfir.

Sveitin var stofnuð síðla sumars 1975 og voru meðlimir hennar Sveinn Magnússon bassaleikari og Ingólfur Sigurðsson trommuleikari sem höfðu verið saman í Örnum, Tryggvi J. Hübner gítarleikari, Magnús Finnur Jóhannsson söngvari og Valgeir Skagfjörð hljómborðsleikari. Þeir félagar vöktu strax athygli fyrir tónlist sína og voru kjörnir efnilegasta sveit ársins af einu dagblaðanna í upphafi nýs árs, 1976. Þá um áramótin gekk Jón Ólafsson bassaleikari úr Pelican til liðs við sveitina en Sveinn hætti, og þannig skipuð starfaði hún um tíma, lék á skemmtistöðum borgarinnar, á sveitaböllum og þó nokkuð á Vellinum hjá bandaríska hernum.

Cabaret komst nokkuð í fréttirnar framan af ári þegar klifað var á því að sveitin væri að fara í hljóðver til að taka upp plötu sem kæmi út hjá útgáfufyrirtækinu Demanti en þeir félagar áttu þá heilmikið af frumsömdu efni eftir Valgeir. Nokkuð dróst þó að efnið yrði tekið upp, sveitin fór t.d. til Spánar og lék þar á vegum ferðaskrifstofunnar Sunnu fyrir skemmtanaglaða Íslendinga, og því var upptökum stöðugt skotið á frest. Um sumarið lék sveitin á nokkrum sveitaböllum með Olgu Guðrúnu Árnadóttur meðferðis en hún hafði þá nýlega sent frá sér plötuna Eniga meniga og söng hún lög af þeirri plötu við undirleik Cabaret.

Síðsumars 1976 lenti Ingólfur trommuleikari í alvarlegu umferðarslysi þegar ekið var á hann utan við heimili sitt, og leysti Ari Jónsson hann þá af á stórtónleikunum Rock‘n roll festival ´76 í Laugardalshöll en eftir það fór sveitin í nokkurra vikna pásu. Cabaret fékk nýjan trommara, Jónas Björnsson til liðs við sig en sá starfaði ekki lengi með sveitinni því Jón Ólafsson bassaleikari hætti þá í henni til að leika með endurreistri Pelican og í kjölfarið hætti Cabaret störfum. Talað var um að sveitin hefði þá þegar tekið upp efni á litla plötu sem væri farið í framleiðslu en sú plata kom þó aldrei út hvers svo sem ástæðan var.