Candyfloss (1990-98)

Candyfloss

Margt er óljóst varðandi hljómsveitina Candyfloss sem kom skyndilega fram á sjónarsviðið sumarið 1996, þá var sveitin sögð hafa verið starfandi í um sex ár með hléum en frekari heimildir finnast ekki um það.

Vorið 1996 fór Candyfloss í hljóðver og tók þá upp ellefu laga plötu sem kom út um sumarið en sveitin var sjálf útgefandi plötunnar. Meðlimir sveitarinnar samkvæmt upptalningu á plötuumslagi voru þeir Héðinn Björnsson gítarleikari, Egill Gomez hljómborðsleikari, Árni Þráinsson bassaleikari, Ingi Valur Grétarsson söngvari og Daníel Viðar Elíasson trommuleikari. Platan, sem bar nafn sveitarinnar fékk varla nema þokkalega dóma í Morgunblaðinu.

Sveitin lék á dansleikjum um sumarið og fram á haust en minna fór fyrir henni fram að áramótum, í upphafi nýs árs 1997 kynntu þeir félagar nýtt efni á tónleikum sem sagt var að myndi koma út um vorið á nýrri plötu en síðan heyrðist ekkert frá henni í heilt ár. Candyfloss birtist aftur í byrjun árs 1998 og voru meðlimir hennar þá Daníel, Egill og Héðinn sem fyrr en í stað hinna tveggja munu hafa verið komnir Freyr Bergsteinsson og Friðþjófur V. Grétarsson en ekki liggur fyrir hvaða stöðu þeir gegndu í sveitinni. Ekkert hefur síðan heyrst til hljómsveitarinnar Candyfloss síðan þá og er hér með óskað eftir frekari upplýsingum um þessa sveit.

Efni á plötum