Special treatment (1983-86)

Special treatment1

Special treatment í Húsavíkurbíói

Hljómsveitin Special treatment (síðar Greifarnir) var stofnuð á Húsavík þótt hún hafi starfað mest alla tíð sunnanlands, hún var t.a.m. um tíma skólahljósveit Fjölbrautaskólans við Ármúla. Eitthvað er á reiki hvenær sveitin var nákvæmlega stofnuð, líklega var það fyrri hluta ársins 1983 en „endanleg“ mynd komst á hana sumarið 1984 þegar Gunnar Hrafn Gunnarsson trommuleikari (Lucifer) gekk til liðs við sveitina en þá voru aðrir meðlimir þeir Kristján Viðar Haraldsson hljómborðsleikari og söngvari, Sveinbjörn Grétarsson gítarleikari og söngvari og Jón Ingi Valdimarsson bassaleikari.

Sumarið 1984 keppti sveitin í hljómsveitakeppni á frægri útihátíð í Atlavík sem haldin var um verslunarmannahelgina en þar var Ringo Starr meðal gesta. Ekki komst sveitin í úrslit þar.

Næsta vor (1985) tók Special treatment síðan þátt í Músíktilraunum Tónabæjar, komst í úrslit og hafnaði í öðru sæti á eftir hljómsveitinni Gypsy.

Special treatment

Special treatment

Sama sumar keppti sveitin aftur í Atlavík og lenti þá í þriðja sæti keppninnar á eftir Skriðjöklum sem sigruðu og Sú Ellen sem varð í öðru sæti. Þá hafði sveitin sungið lög sín á ensku til þess tíma.

Vorið 1986 ákváðu meðlimir sveitarinnar að söðla um, hófu að syngja á íslensku, breyttu um leið um nafn og kölluðu sig nú Greifana, og fengu að auki til liðs við sig söngvarann Felix Bergsson.