Spilverk þjóðanna (1974-79)

Spilverkið

Spilverk þjóðanna

Spilverk þjóðanna var stofnað 1974 af nokkrum nemendum í Menntaskólanum við Hamrahlíð sem þá var tiltölulega nýstofnaður, reyndar hafði sveitin verið til í einhverri mynd áður, nokkurn veginn sami mannskapur hafði spilað saman undir ýmsum nöfnum allt frá árinum 1970, s.s. Hassansmjör, Matta K, Hljómsveit Árna Vilhjálmssonar og að síðustu Egils áður en endanlegt nafn, Spilverk þjóðanna varð ofan á 1974.

Meðlimir sveitarinnar framan af voru þeir Sigurður Bjóla Garðarsson (Stuðmenn, Jolli & Kóla, PS & Bjóla o.fl.), Egill Ólafsson (Glampar, Scream, 3tol, Stuðmenn, Þursaflokkurinn o.fl.) og Valgeir Guðjónsson (Stuðmenn, Strax o.fl.), og er tæplega hægt að segja að hljóðfæraskipanin hafi verið niðurnegld því meðlimir skiptust á hljóðfærum eftir því sem hugurinn lá í það og það skiptið. Hljóðfæraleikurinn var þó framan af órafmagnaður, sjálfir skilgreindi sveitin tónlistina sem “handknúna kammermúsík með rokkívafi”, þar sem spilað var á kassagítara, kontrabassa og hvers kyns ásláttarhljóðfæri, lögin voru ennfremur sungin á ensku.

Spilverkið naut strax mikilla vinsælda innan veggja MH og fljótlega spurðist orðsporið út, tónleikar þeirra urðu vel sóttir og það kom að því að sveitin fór til London snemma árs 1975 og tók upp fjögur lög, þau lög fóru síðar á safnplötuna Hrif 2.

Um sumarið fóru meðlimir hins vegar í Hljóðrita í Hafnarfirði og tóku upp efni með Tony Cook, og um það leyti bættist Sigrún Hjálmtýsdóttir (Diddú) söngkona í hópinn, fyrsta plata sveitarinnar sem var samnefnd sveitinni (en er yfirleitt kölluð “brúna platan” vegna plötuumslagsins) kom út um haustið og sló strax í gegn, fékk mjög góða dóma gagnrýnenda fjölmiðla (og í Poppbókinni e. Jens Kr. Guðmundsson) og almennings, hún var gefin út af EGG-útgáfunni sem var í eigu Ámunda Ámundasonar en hann gaf einnig út Hrif 2. Lögin Lazy Daisy og Icelandic cowboy nutu hvað mestra vinsælda.

Spilverk þjóðanna

Spilverkið speglar sig

Fljótlega var ráðist í útgáfu næstu plötu en hún var tekin upp “læv” með áhorfendum en sveitin myndaði ætíð sérstakt samband við áhorfendur með galsafengnum kynningum og einlægni, platan hlaut heitið CD nærlífi og var gefin út í takmörkuðu upplagi. Hún fékk ekki eins góða dóma og fyrsta platan enda var hún unnin í töluverðum fljótheitum, þegar hér var komið sögu hafði hljómplötuútgáfan Steinar verið stofnuð og gaf hún út þessa og næstu plötur sveitarinnar.

Spilverkið hafði notið mikilla vinsælda hér heima en einnig höfðu erlendir útgefendur gefið sveitinni gaum og um tíma virtist sem af alþjóðlegri útgáfu yrði, ekki síst vegna þess hafði sveitin sungið á ensku til þessa. Þegar ljóst var að af því yrði ekki ákvað kvartettinn að syngja eftirleiðis allt sitt á íslensku, þannig kom næsta plata út en hún var tekin strax um haustið 1976 en um sumarið hafði reyndar kjarni sveitarinnar verið í London við gerð Stuðmannaplötunnar Tívolí.

Þegar hér var komið sögu hafði Spilverk þjóðanna tekið upp þrjár stórar plötur og eina litla á tæplega tveimur árum. Þessi þriðja plata hlaut nafnið Götuskór, kom út rétt fyrir jólin og sló strax í gegn, um var að ræða eins konar þemaplötu um dreng sem fylgt er í gegnum einn dag en plötuumslagið (skreytt af Þorbjörgu Höskuldsdóttur) innihélt hálfgerða myndasögu – þetta tvennt, þemaplata og myndasaga – minnti óneitanlega á Stuðmannaplöturnar Sumar á Sýrlandi og áðurnefnda Tívolí en menn voru einmitt um þetta leyti að átta sig á tengslunum milli sveitanna tveggja, Valgeir var einn hinna upprunalegu Stuðmanna og Egill og Sigurður höfðu báðir komið mikið við sögu þeirra.

Götuskór fengu mjög góða dóma í fjölmiðlum og sveitin naut áfram mikilla vinsælda (einkum lagið Styttur bæjarins), platan seldist þó ekki eins vel og vonast hafði verið til og skrifast það án efa á hversu seint platan kom út en það var í byrjun desember-mánaðar.

Sveitin hafði þó aflað sér það mikillar virðingar að hún var fengin í samstarfsverkefni með Pétri Gunnarssyni og Þjóðleikhúsið til að vinna tónlist við söngleikinn Grænjaxla. Þegar þeirri vinnu var frestað um stund hófu meðlimir Spilverksins að vinna næstu plötu og luku þeim upptökum um vorið 1977.

Spilverk þjóðanna á þaki Laugardalshallarinnar

Spilverkið á þaki Laugardalshallarinnar, myndataka í tilefni útgáfu Sturlu

Um sumarið kom platan út, hún bar titilinn Sturla og var frábrugðin fyrri plötum að því leyti að sveitin notaði nú orðið rafmagnshljóðfæri í mun meiri mæli en áður. Lögin sem samin höfðu verið fyrir Grænjaxla voru flest notuð á Sturlu en þegar Þjóðleikhúsið hóf sýningar um haustið voru þau einnig notuð þar. Sturla fékk frábæra dóma og er að flestra mati besta plata Spilverksins.

Einnig vann sveitin að plötu með Magnúsi Þór Jónssyni (Megasi) og þegar hún kom út var komið út besta plata sem gefin hefur verið út á Íslandi, að mati margra. Hún hlaut nafnið Á bleikum náttkjólum og hún, ásamt Sturlu voru vinsælustu plötur ársins 1977. Á Stjörnumessu (sem var eins konar tónlistaruppgjör ársins á þessum tíma) hlaut Spilverk þjóðanna titilinn hljómsveit ársins, Diddú og Egill söngvarar ársins, Sturla plata ársins og Sirkus Geira Smart lag ársins. Lögin Nei sko og Skýin nutu þó einnig mikilla vinsælda.

Mikið álag hafði verið á hópnum í kjölfar vinsælda sveitarinnar og örra upptakna, aukinheldur voru meðlimir hennar fengnir í ýmis auka- og hliðarverkefni s.s. plötuna Hrekkjusvín þar sem þau komu meira og minna öll við sögu, það var því eðlilegt að þau væru farin að þreytast á samstarfinu og svo fór að Egill stofnaði Þursaflokkinn og hætti í Spilverkinu, Diddú fór í klassískt söngnám og Sigurður Bjóla sneri sér að upptökuvinnu.

Sveitin var þó ekki hætt störfum og hóf að vinna næstu plötu án Egils, Magnús Einarsson (Þokkabót / Dögg / Hljómsveit Magnúsar Einarsson og nágrennis / Sviðin jörð o.fl.) kom inn í stað Egils og þannig skipuð vann sveitin að fimmtu plötu sinni sem hefur oft verið kölluð “græna platan” en heitir reyndar Ísland, hún kom út haustið 1978.

Plötuumslagið vakti mikla athygli en á því voru útlínur Íslands skornar út í litla grasþökueyju á Tjörninni í miðbæ Reykjavíkur og meðlimum siglt þangað út í, eyjan var síðan mynduð úr lofti. Sagan segir að Jónatan Garðarsson hafi þarna verið nýr starfsmaður hljómplötuútgáfu Steina og fyrsta verk hans hafi verið að halda utan um þessa myndatöku, að myndatökunni lokinni var það síðan í hans verkahring að vaða út í Tjörnina og sækja “Ísland”.

Fyrsta upplag plötunnar sjálfrar var litað grænum lit en hún fékk, eins og flest annað sem sveitin sendi frá sér, frábæra dóma. Lögin Reykjavík og Græna byltingin urðu vinsælust laga á plötunni.

Íslandi var þó ekki fylgt eins vel eftir að ætla mætti því Valgeir var farinn út til Noregs í nám og Diddú til Englands í söngnám. Um sumarið (1978) höfðu þó Egill og Diddú sungið inn á plötuna Þegar mamma var ung, en Valgeir stýrði þar einmitt upptökum og Sigurður Bjóla var við upptökuborðið.

Næsta sumar (1979), þegar Valgeir og Diddú voru í sumarfríi heima á Íslandi, var platan Bráðabirgðabúgí tekin upp í Hljóðrita og gefin út af Hljómplötuútgáfunni Júdasi en Steinar vildi ekki gefa hana út þar sem ekki ætti að fylgja henni eftir, enda meðlimir sveitarinnar dreifðir um Evrópu. Eðlilega fékk þessi plata því ekki sömu athygli en lögin Landsíma-Lína og Ég býð þér upp í dans nutu mikilla vinsælda en í síðarnefnda laginu syngur Ragnar Bjarnason á móti Diddú. Þetta reyndist verða síðasta plata sveitarinnar en meðlimir sveitarinnar hafa unnið saman að fjölmörgum verkefnum síðan, svosem Valgeir og Sigurður Bjóla sem Jolli & Kóla og Stuðmenn en einnig hafa þau komið sem gestir að sólóplötum hverra annarra.

Spilverkið kom saman sumarið 1995 en ekki var um frekara samstarfs að ræða í það skiptið. Lög sveitarinnar hafa komið út á fjölmörgum safnplötum í gegnum tíðina (Aftur til fortíðar 70-80, Gullmolar (1997), Hornsteinar í íslenskri tónlist (1992), Með lögum skal land byggja (1985), Ó, borg mín borg (1998), Óskalögin 4, 5, og 6 (2000 – 2002) og Skonrokk (2003) en einnig hafa komið út nokkrar Spilverkssafnplötur, Sturla & Ísland (tvær plötur saman á snældu), Nokkur lykilatriði (1984), Sagan (1997) og Spilverk þjóðanna: Brot af því besta (2005).

2010 kom út safnkassi sem hafði að geyma allar útgáfur Spilverksins auk aukaplötunnar Pobeda sem hefur að geyma gamlar upptökur live o.fl. 100 síðna bæklingur fylgdi með.

Sveitin vann að nýju efni líklega um 2015 en hættu í miðjum klíðum í einhvers konar ósætti, menn gengu ekki í takt og því hættu þau. Ólíklegt er að það efni og ný plata eigi eftir að líta dagsins ljós.

Efni á plötum