Greifarnir [2] (1986-)

Greifarnir

Hljómsveitin Greifarnir frá Húsavík er eitt af stærstu nöfnunum í íslenskri poppsögu en líklega hafa fáar sveitir skotist jafn skyndilega upp á stjörnuhimininn og hún gerði sumarið 1986 eftir sigur í Músíktilraunum Tónabæjar. Hljómsveitin, sem varð eins konar samnefnari fyrir svokallað gleðipopp, sendi á skömmum tíma frá sér fjölda stórsmella og troðfyllti félagsheimili landsins á næstu árum, hætti störfum eftir fimm ára keyrslu en birtist aftur fáeinum árum síðan með kombakk svo eftir var tekið en hefur verið rólegri síðustu áratugina án þess að hætta störfum, sveitin starfar í dag sem eins konar æskuvinaklúbbur miðaldra karlmanna og birtist reglulega á dansleikjum til að minna á sig.

Greifarnir eiga sér í raun mun lengri sögu en frá árinu 1986 þegar hún kom fram á sjónarsviðið undir því nafni, þeir Kristján Viðar Haraldsson (Viddi) hljómborðsleikari, Sveinbjörn Grétarsson (Bjössi) gítarleikari og Jón Ingi Valdimarsson bassaleikari höfðu spilað saman frá því þeir voru smápollar á Húsavík en það var svo árið 1983 sem Gunnar Hrafn Gunnarsson trymbill gekk til liðs við þá félaga og þeir tóku upp nafnið Special treatment. Þannig skipuð lenti sveitin í öðru sæti Músíktilrauna 1985 og í þriðja sæti hljómsveitakeppni sem haldin var í Atlavík um verslunarmannahelgina sama ár. Fram að því hafði sveitin eingöngu samið og flutt efni á ensku en fljótlega á árinu 1986 tóku þeir þá stefnubreytingu að gera aðra atlögu að Músíktilraunum og hafa lögin sín að þessu sinni á íslensku. Sum laga sveitarinnar sem síðar urðu vinsæl voru þá þegar til í fórum þeirra en önnur urðu til um þetta leyti, eins og lagið Útihátíð sem varð þeirra þekktasti slagari. Við þau umskipti að flytja efni sitt á íslensku tóku þeir í leiðinni upp íslenskt nafn, Greifarnir.

Fjórmenningarnir frá Húsavík sem þarna um vorið 1986 höfðu flust til Reykjavíkur höfðu hug á að næla sér í söngvara fyrir keppnina og þegar þeim var bent á efnilegan söngvara og leikara, Felix Bergsson sem tekið hafði þátt í uppfærslu Verzlunarskóla Íslands á söngleiknum Rocky horror picture show höfðu þeir samband við hann og fengu hann í söngprufu, Felix féll eins og flís við rass við sveitina og var hann orðinn einn af Greifunum í mars, fáeinum vikum fyrir Músíktilraunir Tónabæjar.

Greifarnir á úrslitakvöldi Músíktilrauna

Í raun var allt farið að ganga sveitinni í hag áður en Músíktilraunirnar fóru fram í apríl, þeir Greifar gerðu t.a.m. einhverjar upptökur sem Steinari Berg hljómplötuútgefanda leist vel á og sama dag og sveitin tók þátt í undankeppni tilraunanna fóru þeir í upptöku fyrir sjónvarpsþáttinn Rokkarnir geta ekki þagnað svo þeir voru þannig séð á góðri leið með að verða þekktir, reyndar urðu þeir félagar nánast of seinir á svið í undankeppninni þar sem þeir voru á síðustu stundu og náðu ekki einu sinni að skipta um föt en þeir höfðu orðið sér úti um smókinga til að klæðast í keppninni. Tónlist sveitarinnar þótti vera nokkuð á skjön við aðra keppendur því ennþá eimdi af nýbylgju- og pönkáhrifum hjá mörgum af keppinautum þeirra á meðan Greifarnir fluttu einfalt og létt popp sem þótti hvorki merkilegt né framsækið en var á hinn bóginn fullt af gleði, með grípandi melódíur og auðlærða texta, ekki skemmdi heldur að þeir félagar voru líflegir á sviði og hressir og því þarf ekki að koma á óvart að tónlistin varð síðan nefnd gleðipopp.

En Greifarnir komust í úrslit Músíktilraunanna þetta undankvöld og reyndar gott betur því þeir urðu sigurvegarar úrslitakeppninnar viku síðar þar sem þeir fluttu lög eins og Útihátíð, Ég vil fá hana strax (korter í þrjú) og Nótt, sem öll urðu síðar stórsmellir með sveitinni. Hafi þeim þótt hlutirnir ganga hratt fyrir sig síðustu vikurnar fyrir keppnina þá áttu þeir eftir að kynnast enn meiri hraða næstu mánuðina á eftir. Margt kom þar til, Músíktilraunir voru á þeim tíma til þess að gera nýkomnar til sögunnar og þarna um vorið 1986 voru þær í fyrsta sinn sendar út í beinni útsendingu Rásar 2 en útvarpsstöðin hafði þá einungis verið starfandi í rúmlega tvö ár, nýjabrumið var ekki farið af henni og viðburður sem þessi fékk þ.a.l. mikla hlustun og athygli. Fleira kom til, Reykjavíkur-borg sem var meðal þeirra sem kom að Músíktilraunum, hélt þetta sumar upp á 200 ára kaupstaðarafmæli sitt og blés til mikillar afmælisveislu, af því tilefni yrðu haldnir stórtónleikar í Laugardalshöll (Listapopp) 16. og 17. júní sem voru hluti af Listahátíð í Reykjavík, og miklir tónleikar voru einnig fyrirhugaðir á Arnarhóli í ágústmánuði – þátttaka í þessum tveimur stórviðburðum var hluti af verðlaunum Músíktilrauna þetta árið. Það má því segja að allt hafi gengið upp frá því kvöldi sem Greifarnir unnu Músíktilraunir.

Greifarnir frá Húsavík

Nokkrum dögur eftir sigurinn í Músíktilraunum lék sveitin á tónleikum á vegum Lions-hreyfingarinnar og fljótlega eftir það á unglingaballi í Hollywood og svo birtist sjóvarpsþátturinn Rokkarnir geta ekki þagnað þannig að Greifarnir urðu strax vel kynntir. Það var svo um miðjan júní sem hinir svonefndu Listapopp-tónleikar fóru fram en þeir voru sem fyrr segir liður í Listahátíð í Reykjavík, þar komu fram nokkur þekkt erlend nöfn auk íslenskra sveita á tveimur kvöldum og með Greifunum voru það bresku sveitirnar Madness og Fine young cannibals. Sveitin þótti standa sig prýðilega og náði upp góðri stemmingu á tónleikunum.

Mál málanna var hins vegar plötuútgáfan og sveitin vann hratt þessar vikurnar að því að koma út plötu í samstarfi við  hljómplötuútgáfuna Steina. Fjögur lög voru tekin upp í Hljóðrita í Hafnarfirði undir stjórn Tryggva Herbertssonar og kom platan síðan út á tólf tommu formi um miðjan júlí eða rétt mátulega fyrir verslunarmannahelgina og sveitaballatörnina sem framundan var. Lögin komu einnig út á kassettuformi ásamt fjögurra laga plötu Bjartmars Guðlaugssonar og Péturs Kristjánssonar sem þarna voru í samstarfi. Öll fjögur lög Greifanna, Útihátíð, Ég vil fá hana strax (korter í þrjú), Er þér sama? og Sólskinssöngurinn náðu feikimiklum vinsældum og voru t.a.m. öll á sama tíma inni á topp tuttugu vinsældarlista Rásar 2 í september en lögin skoruðu einnig hátt á Bylgjulistanum, Kristján Viðar og Sveinbjörn voru alltaf aðallagahöfundar sveitarinnar. Platan sem hafði hlotið titilinn Blátt blóð hlaut fremur slaka dóma í DV en þokkalega í Morgunblaðinu og ágæta í Helgarpóstinum, sveitin fékk reyndar alltaf fremur misjafna dóma poppskríbenta á dagblöðunum sem var mjög á skjön við vinsældir sveitarinnar en segja má að Blátt blóð sé tímamótaplata í íslenskri tónlistarsögu þar eð hún er sú fyrsta sem kennd var við svonefnt og áðurnefnt gleðipopp, nýyrði sem varð til um þetta leyti.

Greifarnir á 200 ára afmæli Reykjavíkur ásamt Jens Hanssyni saxófónleikara

Útihátíð var á toppi vinsældarlista Rásar 2 um verslunarmannahelgina 1986 en þá lék sveitin á bindindismótinu í Galtalæk (þar sem sumum þótti textinn vart við hæfi) og á Laugum í Aðaldal en hápunkti sínum þetta sumar náði sveitin þegar hún lék á afmælistónleikum Reykjavíkur-borgar í ágúst í tilefni af 200 ára afmæli borgarinnar, þar mættu um tuttugu þúsund manns á Arnarhól og hlýddu á Greifana og aðrar vinsælustu tónlistarmenn landsins en herlegheitunum var jafnframt sjónvarpað og útvarpað í beinni útsendingu.

Þetta sumar varð því sannkallað Greifasumar og í raun gerðust hlutirnir alltof hratt, Felix hafði t.a.m. ekki þekkt félaga sína í sveitinni nema í fáeinar vikur þegar lætin byrjuðu og þeir voru alls óviðbúnir öllu því áreiti sem fylgdi þessari snöggfengnu frægð, þeir þurftu t.d. að skipta ótal sinnum um símanúmer vegna ónæðis og gátu sig hvergi hrært. Sjálfir töldu þeir mikilvægt að skapa sér jákvæða ímynd og tóku upp ákveðinn standard í klæðnaði, margir líktu fata- og hártísku þeirra við Duran Duran þar sem þeir spókuðu sig m.a. í hvítum frökkum með stórum og miklum axlapúðum, með blásið hár og með samning við Gerði í Flónni um lán á fatnaði, hárgreiðsludama fylgdi sveitinni jafnframt þegar mest gekk á.

Um haustið hægðist nokkuð á hjá Greifunum þótt þeir léku heilmikið á dansleikjum um veturinn, í uppgjöri barnablaðsins Æskunnar um áramótin 1986-87 var sveitin kjörin hljómsveit ársins af lesendum og Útihátíð varð í öðru sætinu yfir lag ársins. Þeir félagar tóku upp eitthvað af efni um veturinn, m.a. lagið Þyrnirós og í apríl-mánuði 1987 kom það lag út á safnplötunni Lífið er lag sem að nokkru leyti skartaði lögum úr undankeppni Eurovision keppninnar. Þyrnirós, sem margir aðdáendur sveitarinnar þekktu þá þegar frá dansleikjum sveitarinnar, sló í gegn eins og fyrri útgefin lög hennar og fór á toppinn á vinsældalista Rásar 2 og á Bylgjulistanum.

Greifarnir

Greifarnir fóru á fullt skrið á nýjan leik um vorið og líkt og sumarið á undan kom út fjögurra laga plata, Sviðsmynd sem skartaði fyrrnefndri Þyrnirós en einnig lögunum Ást, Framan við sviðið og Frystikistulaginu sem öll fengu heilmikla spilun í útvarpi og nutu vinsælda, sérstaklega vakti Frystikistulagið athygli en einnig hneykslan en það fjallar um heimaslátrun á kvenmanni og hvernig sögumaðurinn kemur líkinu fyrir í frystikistu. Ýmsum þótti textinn ósmekklegur en því verður ekki neitað að hann var ólíkur öðrum textum sveitarinnar, alveg laus við holdlegt og andlegt samneyti við hitt kynið sem flestir textar Greifanna höfðu að geyma en lagið hefur lifað prýðilegu lífi til dagsins í dag og flestir hafa löngu gleymt því að hafa einhverju sinni hneykslast á textanum. Sviðsmynd seldist prýðilega rétt eins og Blátt blóð árið á undan enda splæstu Steinar í heilsíðu auglýsingu í Morgunblaðinu, og platan fékk þokkalega dóma í Þjóðviljanum og DV, hún var einnig gefin út á kassettuformi ásamt Skýjum ofar með akureysku hljómsveitinni Stuðkompaníinu en sú sveit hafði borið sigur úr býtum um vorið 1987 og varð einnig angi af gleðipoppinu svokallaða, kassettan seldist gríðarlega vel fyrir verslunarmannahelgina. Greifarnir fóru hringferð um landið í júní við góða aðsókn og um verslunarmannahelgina tróð sveitin upp á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum.

Planið hafði verið að gefa út breiðskífu um sumarið en þegar þeir féllu á tíma með það hafði verið ákveðið að senda frá sér fjögurra laga plötuna en geyma stóru plötuna til haustsins. Hljómsveitin vann að henni samhliða spilamennsku um sumarið og haustið með Tómasi Tómassyni, og í nóvember leit hún dagsins ljós undir nafninu Dúbl í horn. Um var að ræða tíu laga plötu og kvað við nokkuð nýjan og þróaðri tón á henni, gagnrýnendum þótt sem byrjendabragurinn hefði nokkuð slípast af tónlistinni og fékk platan nokkuð misjafna dóma sem fyrr, ágæta í DV, þokkalega í Helgarpóstinum en slaka í Þjóðviljanum. Nokkur laganna urðu vinsæl, Viskubrunnur, Púla, Draumadrottningin og Nótt en einnig heyrðu lög eins og Jósteinn skósmiður og Dóninn spiluð í útvarpi. Sveitin fylgdi útgáfu breiðskífunnar eftir með mikilli spilamennsku og spiluðu þeir félagar t.d. tuttugu og tvisvar sinnum  yfir tuttugu daga tímabil í desember.

Greifarnir máttu vel við una í lok árs, sveitin var aftur kjörin vinsælasta hljómsveit ársins 1987 af lesendum Æskunnar og Þyrnirós og Frystikistulagið urðu í áttunda og tólfta sæti yfir vinsælustu lög ársins. Plöturnar tvær, Sviðsmynd og Dúbl í horn seldust ennfremur ágætlega. Frá því um mitt ár 1986 hafði sveitin því sent frá sér átján lög á þremur plötum en tólf til þrettán þeirra höfðu notið vinsælda og hefðu fimmmenningarnir sjálfsagt eftir á viljað að hlutirnir hefðu gengið aðeins hægar fyrir sig.

Greifarnir án Felix

Fljótlega á nýju ári (1988) spurðist út að Felix Bergsson væri að hætta í Greifunum, sögusagnir sögðu ósætti hafa komið upp innan sveitarinnar en sannleikurinn var sá að hann var þá á leið í nám í leiklist í Edinborg í Skotlandi. Hinir Greifarnir fóru nú af stað að leita að nýjum söngvara og var auglýst eftir slíkum, þrátt fyrir að nokkrir aðilar spreyttu sig fannst enginn sem þeir sættu sig við og það endaði með að Kristján Viðar tók sönghlutverkið að sér en hann hafði áður en Felix kom til sögunnar séð að mestu um sönginn, reyndar sungu þeir allir meira og minna. Sveitin var í fríi um nokkurt skeið eftir að Felix hætti, til að ná áttum og andanum, lögin á Dúblinu voru mjólkuð fram eftir nýju ári og kom t.d. lagið um Jóstein skósmið út á safnplötu um vorið og náði þá nokkrum vinsældum. Menn sinntu öðrum verkefnum á meðan og fór Kristján Viðar t.d. með Eurovision-liði Sverris Stormskers til Dublin sem hljómborðsleikari.

Þegar nær dró sumri mættu Greifarnir hins vegar tvíefldir til leiks staðráðnir í að sanna sig án Felix, sveitin gerði kostunarsamning við Vífilfell sem sá um að auglýsa dansleiki hennar um sumarið og merkja hljómsveitarrútuna, smáskífa kom út með sveitinni í byrjun júlí en hún hét einfaldlega 12 tomma og hafði að geyma lögin Hraðlestin og Kvöldsaga auk endurhljóðblandanna af báðum lögunum, lögin komu einnig út á safnplötunni Bongó blíða um svipað leyti. Hraðlestin sló rækilega í gegn og Kvöldsagan stóð henni ekki langt að baki í vinsældum en sveitin spilaði víðs vegar um landsbyggðina þetta sumar sem fyrr, m.a. í Eyjum um verslunarmannahelgina þar sem þeir fluttu þjóðhátíðarlagið Ég meyjar á kvöldin kyssi eftir Óskar M. Aðalsteinsson og Guðjón Weihe sem var fyrsta lagið sem sveitin sendi frá sér eftir aðra en sjálfa sig, einhverjir Vestmannaeyingar höfðu fyrirfram efast um framlag Greifanna á þjóðhátíðinni þar sem þeir voru án Felix en sveitin vann hug og hjörtu Eyjamanna þegar spiluðu langt fram úr áætlunum spilatíma.

Ekkert varð úr þeim áætlunum Greifanna að gefa út tólf laga breiðskífu um haustið 1988 en þess í stað sendu þeir frá sér tvö lög, Frostrós og Sjónvarpsstjarnan á safnplötunni Frostlög, lögin náðu ekki jafn miklum vinsældum og fyrri lög sveitarinnar og í uppgjöri Æskunnar varð sveitin í öðru sæti bæði sem hljómsveit ársins og með lag ársins á eftir Sálinni hans Jóns míns sem þarna hafði nýverið sent frá sér plötuna Syngjandi sveittir.

Greifarnir 1989

Svo virðist sem vinsældir Greifanna hafi örlítið verið farnar að dala um þetta leyti, sveitin spilaði áfram eftir áramótin 1988-89 og kynnti m.a. nýtt lag til sögunnar í Vestmannaeyjum snemma vors, sem þeir kölluðu Loðnurokk. Lagið kom síðan út á safnplötunni Bandalög um sumarið undir titlinum Dag eftir dag, ásamt öðru lagi, Strákarnir í götunnu en bæði lögin voru nokkuð frábrugðin því gleðipoppi sem sveitin var þekktust fyrir, 12 tomman sem hafði komið út sumarið 1988 bar gleðipoppinu hins vegar meiri merki en breiðskífan Dúbl í horn haustið 1987. Kristján Viðar fór aftur um vorið með Eurovision hóp Íslands, að þessu sinni til Sviss sem bakraddasöngvari og hljómborðsleikari Daníels Ágústs Haraldssonar sem söng lagið Það sem enginn sér. Enn var keyrt á ballmarkaðinn um sumarið og lék sveitin í Logalandi í Borgarfirðinum um verslunarmannahelgina, annars spiluðu Greifarnir allar helgar þetta sumar og slógu reyndar eigið met þegar sveitin ók 1750 kílómetra á einni helgi. Í Viku-viðtali um haustið var Kristján Viðar spurður að því hvort sveitin yrði enn starfandi eftir þrjátíu ár – „nei varla!“ var svarið.

Eftir þessa miklu spilatörn um sumarið fór sveitin í pásu og lék reyndar afar lítið veturinn 1989-90. Fjórmenningarnir frá Húsavík birtust hins vegar á nýjan leik í júní 1990 með sína árlegu sumarhringferð um landið og í leiðinni sendu þeir frá sér eins konar safnplötu, tólf laga plötuna Blautir draumar (cd-útgáfan hafði að geyma tvö aukalög), þrjú laganna (Strákarnir í götunni, Dag eftir dag og Frostrós) höfðu einvörðungu komið út áður á safnplötum en platan hafði einnig að geyma fjögur ný lög, Súsí, Rútan, Hún er svo sæt og Taxi. Nýju lögin féllu í ágætan jarðveg en urðu þó ekki eins vinsæl og mörg eldri laganna höfðu orðið. Platan fékk ágæta dóma í DV. Um haustið 1990 gáfu þeir félagar út að þeir hygðust hætta störfum á næstunni en sveitin hafði þá starfað nokkuð samfleytt í fjögur og hálft ár, og þarf engan að undra þótt Greifarnir væru orðnir útkeyrðir eftir alla þá keyrslu. Sveitin spilaði þó eitthvað áfram þótt í minna mæli væri en áður og um mitt ár 1991 léku þeir á sínum síðasta dansleik – í bili.

Greifarnir 1995

Þótt Greifarnir væru hættir störfum komu þeir þó stöku sinnum fram, m.a. á tíu ára afmæli Gauks á Stöng árið 1993 en að öðru leyti höfðu þeir sig lítið frammi næstu misserin. Neisti kviknaði þó fyrir frekara samstarfi þegar Radíus bræður fengu Greifana til að spila á lokaskemmtun þeirra sem haldin var á Hótel Íslandi í júní 1995 en þemað þar var níundi áratugurinn. Hljómsveitin var til í tuskið og Felix Bergsson kom fram með þeim þar sem þeir léku gamla efnið sitt við mikil fagnaðarlæti en þá voru fast að því áratugur síðan sveitin sigraði Músíktilraunir. Upphaflega var áætlað að spila í fjögur skipti en þar sem viðtökurnar voru svo góðar spiluðu þeir félagar meira og minna allt sumarið, m.a. í Vestmannaeyjum um verslunarmannahelgina. Þar urðu reyndar nokkur leiðindi gagnvart þjóðhátíðarnefndinni þar sem sveitin lék á veitingastað inni í bænum að degi til og á meðan hálftæmdist Herjólfsdalurinn, þess vegna meinaði nefndin sveitinni um að spila á stóra sviðinu í Dalnum á sunnudagskvöldinu eins og um hafði verið samið. Sættir tókust þó í málinu. Gunnar trommuleikari átti ekki heimangengt þetta sumar og tók Rafn Marteinsson (Cigarette, Óðfluga o.fl.) sæti hans, Felix söng sem fyrr segir með sveitinni um sumarið einnig en hætti svo um haustið. Greifarnir voru hins vegar komnir á bragðið og héldu samstarfinu áfram enda engin ástæða til annars þar sem kombakkið hafði heppnast svo vel, þar með má segja að síðara blómaskeið Greifanna hafi hafist.

Vorið 1996 fór sveitin á fullt með dansleikjahaldi um land allt og héldu í leiðinni upp á tíu ára starfsafmæli sitt, í tilefni af því sendi sveitin frá sér nýja plötu áþekka Blautum draumum frá 1990, það var tuttugu laga safnplata og þar af voru fjögur ný lög, Óhemja, Ég er svo glaður, Ég veit og Stundaræði. Fyrst talda lagið varð nokkuð vinsælt en fyrst og fremst keyrðu Greifarnir á gamla efninu um sumarið enda var ný kynslóð ballgesta komin á markaðinn sem kunni að meta gamla slagara eins og Hraðlestina, Draumadrottninguna, Frystikistulagið, Þyrnirós og síðast en ekki síst Útihátíð. Sveitin naut fádæma vinsælda á ballamarkaðnum þetta sumar og lék á Þjóðhátíð í Eyjum þrátt fyrir skærur við þjóðhátíðarnefndina árið áður og sömdu reyndar og fluttu þjóðhátíðarlagið það sumarið, Sumarnótt en það hefur með tímanum orðið eitt af þeim sígildu. Platan, sem bar titilinn Greifarnir dúkka upp, seldist í yfir fimm þúsund eintökum. Þetta sumar söng Felix með sveitinni, Gunnar trymbill var kominn aftur á sinn stað en auk þess hafði sveitinni borist liðsstyrkur, það var Ingólfur Sigurðsson sem í grunninn er trommuleikari en kom inn í Greifana sem ásláttar- og hljómborðsleikari til að létta álaginu á Kristjáni Viðari en hann hefur jafnframt stundum einnig leikið á trommur með sveitinni. Sveitin hélt lokadansleik á Hótel Íslandi um miðjan nóvember 1996 enda hafði þá ekki staðið til að starfa lengur en það, þó liðu ekki nema sex vikur uns sveitin birtist aftur á áramótadansleik á sama stað og þar með var ljóst að Greifarnir væru hvergi nærri hættir.

Greifarnir 1997

Vorið 1997 sendi hljómsveitin frá sér tvö lög á safnplötunni Bandalög 7, lögin Senjóríta sem þeir félagar unnu með Þórhalli Sigurðssyni (Ladda) og Skiptir engu máli sem varð einn af stórsmellum sumarsins. Greifarnir spiluðu mikið þetta sumar, um verslunarmannahelgina var sveitin á Halló Akureyri og fyrir jólin sendi sveitin frá sér breiðskífu með nýju efni en það var þá í raun aðeins önnur breiðskífa sveitarinnar þar sem plötur sveitarinnar höfðu ýmist verið fjögurra laga tólf tommur og safnplötur. Nýja platan bar titilinn Í ljósaskiptunum og hafði að geyma ellefu lög, nokkur þeirra fengu töluverða spilun og nutu vinsælda, auk sumarsmellsins Skiptir engu máli má nefna lög eins og Í engum kjól, Sé þig aldrei meir og Grannar en síðast talda lagið var eftir Ingólf. Þjóðhátíðarlagið Sumarnótt var einnig að finna á þessari plötu en það kom þarna fyrst út. Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson vann þessa plötu með þeim félögum en hún fékk ágæta dóma í Morgunblaðinu og þokkalega í Degi og DV. Platan var einnig margmiðlunardiskur og hafði að geyma myndband við eitt laganna. Fyrir jólin 1997 sendu Greifarnir frá sér jólaútgáfu af Draumadrottningunni en sú útgáfa hlaut nafnið Draumajól og var með breyttum jólatexta en sveitin lauk árinu með áramótadansleik á Hótel Íslandi.

Framan af árinu 1998 fór fremur lítið fyrir Greifunum en um sumarið fór sveitin í enn eina reisuna umhverfis landið, nú með Bylgjulestinni og lék m.a. á Akureyri um verslunarmannahelgina. Sveitin sendi þetta sumar frá sér smellina Haltu mér og Elskan þú ert namm, sem komu út á safnplötunni Bandalög 8 en á þeirri plötu var einnig að finna þjóðhátíðarlagið frá árinu 1996. Sveitin braut blað þegar hún lék órafmagnað á skemmtistaðnum Astro en þeir tónleikar voru sendir út beint á útvarpsstöðinni FM 957 og um leið á Internetinu sem þá var nýlunda, sveitin hélt síðan lokaball í nóvember og fór þar með aftur í pásu.

Greifarnir

Greifarnir komu ekkert fram árið 1999 en birtust á áramótaballi eða öllu heldu aldamótaballi á Hótel Íslandi þar sem þeir fluttu m.a. lagið Viltu hitta mig í kvöld? sem þeir höfðu sent frá sér nokkru fyrr ásamt Einari Ágústi Víðissyni söngvara Skítamórals. Lagið varð töluvert vinsælt fram eftir nýrri öld og sveitin starfaði áfram endurnærð eftir góða pásu árið á undan. Það ár (2000) sendu Greifarnir frá sér lagið Eina nótt hjá þér sem er fyrsta og eina tökulagið sem sveitin hefur gefið út en það var flutt upphaflega af áströlsku sveitinni Cheetah undir titlinum Spend the night (1980), Greifarnir gerðu lagið algjörlega að sínu og fæstir nema þeir sem til þekkja gera sér grein fyrir að um sé að ræða erlent lag. Lagið kom út á safnplötunni Svona er sumarið 2000 ásamt Viltu hitta mig í kvöld? (ásamt Einari Ágústi) og Eins og þú ert, sem þeir unnu með sönghópnum Brooklyn fæv.

Framan af ári 2001 spiluðu Greifarnir heilmikið og um sumarið komu enn og aftur út lög á safnplötu (Svona er sumarið 2001), þetta voru lögin Kominn heim og Nú finn ég það aftur og fékk síðarnefnda lagið töluverða útvarpsspilun og vinsældir. Sveitin ráðgerði að spila fram á haustið og hætta svo með órafmögnuðum tónleikum í Íslensku óperunni, þeir tónleikar voru svo hljóðritaðir með það fyrir augum að gefa þá út en á þeim tónleikum nutu þeir aðstoðar fjölmargra aukahljóðfæraleikara.

Sveitin hafði hægt um sig í kjölfarið, sumarið 2002 komu út á safnplötunni Eldhúspartý FM 957 tvö órafmögnuð lög (Frystikistulagið og Reyndu aftur) frá tónleikunum í Íslensku óperunni en að öðru leyti heyrðist ekkert frá sveitinni fyrr en vorið 2003 þegar safnplatan Upp‘ á palli leit dagsins ljós. Um var að ræða tvöfalda plötu, annars vegar eiginlega safnplötu með vinsælustu lögum sveitarinnar frá 1986 til 2003 en hins vegar upptökur frá tónleikunum í Íslensku óperunni haustið 2001, platan hlaut ágæta dóma í Morgunblaðinu. Greifarnir spiluðu ekkert meira í kjölfar útgáfutónleikanna en hafa síðan þá birst reglulega með dansleikjahaldi án þess þó að fara eiginlegan ballrúnt enda voru meðlimir sveitarinnar um þetta leyti komnir fast að fertugu.

Greifarnir hafa þrátt fyrir fremur stopula en þó reglulega spilamennsku sent frá sér ný lög með reglubundnu millibili, fyrir jólin 2005 sendu þeir frá sér lagið Fyrstu jólin sem var eins og titillinn gefur til kynna jólalag. Þá sendu þeir frá sér lagið Betra en gott sem kom út á safnplötunni Svona er sumarið 2006, og fylgdu því eftir með fáeinum dansleikjum. Síðar sama sumar kom út lag (Halelúja) með þeim á annarri safnplötu, 100% sumar og um svipað leyti sendu þeir frá sér í útvarpsspilun nýja útgáfu af Útihátíð sem kom hvergi út á efnislegu formi. Árið 2009 annaðist Kristján Viðar tónlistina í kvikmyndinni Jóhannes (í leikstjórn Þorsteins Gunnars Bjarnasonar) en titillag myndarinnar, Jóhannes, flutt af Greifunum naut nokkurra vinsæld, í því nutu þeir aðstoðar Þórhalls Sigurðssonar (Ladda), Stefáns Karls Stefánssonar og fleiri, um svipað leyti sendu þeir einnig frá sér lagið Sannleikur.

Greifarnir 2011

Árið 2011 var blásið til veislu í tilefni af 25 ára afmæli Greifanna, sveitin hélt þá afmælistónleika (ásamt Felix) m.a. á Mærudögum á átthagaslóðum sínum á Húsavík en einnig á höfuðborgarsvæðinu. Á aldarfjórðungs afmælinu sendi sveitin jafnframt frá sér þrefalda safnplötu sem ber hið sérstaka nafn Fyrstu 25 árin, um var að ræða afar veglega útgáfu sem mikið var lagt í. Ágrip af sögu Greifanna var þar að finna í bæklingi, safnplöturnar voru tvær með fjörtíu vinsælum lögum sveitarinnar en þriðja platan var dvd-diskur sem hafði að geyma nítján myndbönd sveitarinnar frá ýmsum tímum, upptökur frá Músíktilraunum Tónabæjar 1986 og afmælistónleikunum frá Arnarhóli sumarið 1986 og sjónvarpsþættinum Rokkarnir geta ekki þagnað frá vorinu 1986. Mikil vinna var lögð í að endurheimta og -vinna efnið til að gera það útgáfuhæft. Þetta sama ár komust Greifarnir í fréttirnar þegar risastórum kvenmannsnærbuxum í eigu sveitarinnar var stolið fyrir utan skemmtistaðinn Spot í Kópavogi, þessar nærbuxur höfðu verið notaðar í auglýsingaskyni en sveitin hafði notað slíkar auglýsingar allt frá því sveitin gekk undir nafninu Special treatment á Húsavík. Árið 2013 sendu þeir félagar frá sér enn eitt nýtt lag, Ég gleymdi að spyrja en það vakti ekki mikla athygli.

Sem fyrr segir hafa Greifarnir spilað reglulega á dansleikjum í fáein skipti á ári en það hefur oftar en ekki verið á Spot í Kópavogi, þar hefur sveitin reyndar einnig skapað sér þá hefð um verslunarmannahelgina að halda utan um brekkusöng fyrir utan skemmtistaðinn við miklar vinsældir, og leikið síðan í kjölfarið á dansleik innan dyra. Greifarnir eru því hvergi nærri hættir þótt spilamennskan og útgáfa sé ekki með eins þéttum hætti og áður fyrr.

Eins og gefur að skilja hafa vinsælustu lög Greifanna komið út á tugum eða jafnvel hundruðum safnplatna, þar er bæði um að ræða safnplötuseríur eins og Pottþétt-, Óskalögin- og Svona er sumarið- seríurnar og einnig stakar safnplötur en þess má geta að lög sveitarinnar þykja ómissandi á svokölluðum sumarsafnplötum enda var tónlist hennar iðulega hér áður tengd gleði- og sumarpoppi. Þá má einnig nefna að hljómsveitin Mosi frændi gerði lagi Greifanna, Útihátíð, skil á kassettu (og síðar plötu) á sínum tíma en sagan segir líka að hljómsveitin T-world hafi gert eigin útgáfu af laginu Nótt en sú útgáfa hefur ekki komið út af því er best er vitað.

Efni á plötum