Carl Möller (1942-2017)

Carl Möller

Píanóleikarinn Carl Möller lék með mörgum þekktum danshljómsveitum á sínum tíma og er einnig meðal þekktustu djasspíanistum hér á landi, hann lék inn á fjölda platna, kenndi, útsetti, samdi og kom að flestum þáttum tónlistarinnar um ævina.

Carl fæddist 1942 í Reykjavík en hann bjó og starfaði á höfuðborgarsvæðinu alla tíð. Það má segja að hann hafi verið af tónlistarættum því faðir hans Tage Möller píanóleikari hafði t.d. leikið með Hljómsveit Guðjóns Matthíassonar og starfrækti einnig sveitir í eigin nafni, þá var eldri bróðir Carls, Jón einnig liðtækur píanóleikari og lék með fjölda sveita. Carl nam píanóleik sem krakki, fyrst hjá Sigursveini D. Kristinssyni en síðan hjá Annie Leifs, Ásgeiri Beinteinssyni og Carli Billich. Hann hóf að starfa með hljómsveitum sextán ára gamall og fyrst sveita hans var Fimm í fullu fjöri, sem hann stofnaði ásamt fleirum 1958 en sú sveit starfaði fram á vor 1959. Þá tóku við Diskó sextettinn, Neó og Hljómsveit Finns Eydal sem hann gekk í vorið 1961. Með þeirri sveit lék hann í um þrjú ár og á þeim tíma kom hann fyrst fram og lék djass á djasskvöldi (1962), það átti síðan eftir að vera stór partur af tónlistinni hjá honum.

Carl gekk til liðs við Hljómsveit Hauks Morthens árið 1964 en Haukur var þá auðvitað orðinn einn þekktasti dægurlagasöngvari landsins og því heilmikil upphefð fyrir Carl að vera kominn þangað en hann var þá aðeins 22 ára gamall. Með Hauki fór hann m.a. erlendis, lék t.d. í Færeyjum og síðan í Kaupmannahöfn sumarið 1964 þar sem sveitin dvaldist í tvo mánuði. Carl átti eftir að spila meira með Hauki síðar en árið 1965 gekk hann í Lúdó sextettinn og lék með þeirri sveit um tveggja ára skeið, m.a. lék hann þá í fyrsta sinn inn á hljómplötu en sveitin lék þá undir söng Þuríðar Sigurðardóttur.

Árið 1967 var síðan komið að Sextett Ólafs Gauks sem þá naut mikilla vinsælda, sú sveit gaf út fjölmargar smáskífur með Carl sem orgelleikara á þessum árum, með söng Svanhildar Jakobsdóttur og Rúnars Gunnarssonar og mörg þeirra laga hafa orðið að sígildum stórsmellum s.s. Undarlegt með unga menn, Segðu ekki nei, Því ertu svona uppstökk? og Út við himinbláu sundin. Sú sveit var líklega á toppnum árið 1968 þegar hún sendi frá sér breiðskífuna Fjórtán lög frá Þjóðhátíð Vestmannaeyja eftir Oddgeir Kristjánsson, með sígildum Eyjalögum á borð við Blítt og létt, Ágústnótt, Ég veit þú kemur, Ship-o-hoj og fleiri slögurum sem allir þekkja. Sextettinn var þá ennfremur með þætti í Ríkissjónvarpinu, sem þá var tiltölulega nýlega tekið til starfa þar sem meðlimir sveitarinnar fluttu tónlist í eins konar leikþáttaformi undir yfirskriftinni Hér gala gaukar. Carl lék með sextettnum til 1970 en starfaði svo aftur með Ólafi Gauki frá 1972 til 75 í gjörbreyttri sveit en sú sveit lék mikið á héraðsmótum á sumrin en á Hótel Borg yfir vetrartímann, einnig lék sveit Ólafs stundum erlendis.

Svanhildur Jakobsdóttir og Carl Möller í Hér gala gaukar

Um þetta leyti var Carl byrjaður að semja tónlist sjálfur, bæði sönglög en einnig eins konar ljóðadjass þar sem hann samdi djassstef ofan á ljóðalestur ýmissa ljóðskálda, m.a. Jóhanns Hjálmarssonar og árið 1974 flutti Carl ásamt fleirum frumsaminn ljóðadjass og það átti hann eftir að gera mjög reglulega síðan. Carl lék jafnframt reglulega á djasskvöldum, ýmist með öðrum eða með eigin sveitir og var orðinn nokkuð þekktur djasspíanisti þegar nýtt blómaskeið djasssins á Íslandi hófst með stofnun Jazzvakningar haustið 1975. Á síðari hluta níunda áratugarins varð djassinn mun meira áberandi og í þeirri vakningu lék Carl með djasssveitum eins og 5 jazzmönnum, Bláa bandinu og Jazzmönnum.

Carl lék líka á nokkrum plötum á áttunda og níunda áratugnum, t.d. á tveggja laga plötu með söngvaranum Rúnari Gunnarssyni sem hafði starfað með honum í Sextett Ólafs Gauks en Rúnar var þá orðinn mjög andlega veikur og lést skömmu síðar, þá lék Carl á smáskífu með Alla Rúts og á plötu með tónlistinni úr leikritinu Gegnum holt og hæðir en hann var einnig undirleikari í leiksýningunum (hjá Leikfélagi Kópavogs). Þá má geta þess að á plötu (1983) sem gefin var út að Gunnari Ormslev trompetleikara látnum er að finna upptökur þar sem Carl lék með honum ásamt fleirum á djasstónleikum.

Árið 1976 lék Carl um tíma með hljómsveit Hauks Morthens, sem m.a. lék á þorrablóti í New York en sú sveit starfaði mestmegnis á Hótel Borg. Síðan tók Hljómsveit Ragnars Bjarnasonar á Hótel Sögu við og í framhaldi af því gekk hann til liðs við Sumargleðina sem Ragnar Bjarnason stjórnaði, og fór með þeirri sveit víða um land yfir sumartímann við miklar vinsældir, þær samkomur voru í anda héraðsmótanna sem Carl hafði áður spilað mikið á en voru reyndar mun hressilegri samkomur. Skemmtanir Sumargleðinnar voru byggðar upp þannig að fyrst var haldin skemmtidagskrá þar sem þeir félagar komu fram í alls kyns gervum með stutta leikþætti en svo var dansleikur á eftir. Fræg er sagan af því á slíkri skemmtun í félagsheimili á Suðurlandi þegar Carl í gervi óperusöngkonu sem kom heim til Íslands í stutt frí sagði eitthvað á þá leið að þar í sveitinni hefði enginn kunnað að kyssa almennilega nema [og svo nefndi hann eitthvert nafn sem þeir félagar höfðu pikkað upp fyrir skemmtunina] en þá stóð kona upp fyrir fullum salnum og gekk hágrátandi út, þá var hún nýskilinn við þennan tiltekna mann eftir framhjáhald hans.

Carl Möller 1974

1979 hóf Carl nám í tónlistarfræðum eftir að hafa starfað við fagið í tvo áratugi, og útskrifast síðan sem tónmenntakennari árið 1983. Í kjölfarið hóf hann tónlistarkennslu og starfaði við hana samhliða öðrum störfum síðan, m.a. við Fellaskóla um tíma, djassdeild Tónlistarskóla FÍH og Tónlistarskóla Hafnarfjarðar þar sem hann starfaði lengst, hann fékkst einnig eitthvað við einkakennslu. Mynstrið breyttist nokkuð hjá Carli við að hefja kennslu og spilamennska með hljómsveitum varð meiri yfir sumartímann á meðan hann sinnti kennslunni meira um vetrartímann. Hann starfaði með Sumargleðinni þar til hún hætti 1986 en var eftir það nokkuð að skemmta með Magnúsi Ólafssyni félaga sínum úr hópnum næstu árin, hann var þá undirleikari Magnúsar sem píanó- og harmonikkuleikari. Hann hafði einnig nokkuð verið að leika dinnertónlist á veitingastöðum og hélt því áfram.

Carl lék eitthvað með Hauki Morthens og hljómsveit hans árið 1987 (og áfram) en einnig með Borgarbandinu sem starfaði á Hótel Borg og í tengslum við útvarpsstöðina Stjörnuna á árinum 1987-92, hann lék um tíma með Danshljómsveitinni Okkar og hljómsveitinni Smellum og um þetta leyti hófst einnig samstarf hans við André Bachmann en Carl gekk í hljómsveit hans (sem síðar hlaut nafnið Gleðigjafar) og lék síðar einnig á sólóplötu André, samdi einhver lög á henni og útsetti. Hann kom við sögu á fleiri plötum á þessum árum og til aldamóta, lék (og samdi jafnvel eitthvað) á plötum Lýðs Ægissonar, Kórs Menntaskólans á Laugarvatni, Árna Gunnlaugssonar, Magnúsar Ólafsson og Lögreglukórs Reykjavíkur, þá var hann meðal flytjenda á kassettunni Barnaleikir 4.

Carl spilaði heilmikið djass á tíunda áratugnum og fram á nýja öld víða um land t.d. á djasshátíð á Egilsstöðum, djasshátíð Ríkisútvarpsins RÚREK og samkomum Jazzvakningar. Hann var þá stundum með eigin sveitir s.s. ÓJ & Möller (ásamt Ólafi Jónssyni o.fl.), lék stundum jafnvel með Jóni bróður sínum en lék einnig með djasssveitum eins og Kvintett Árna Scheving og hljómsveit Guðmundar Steingrímssonar og var þá að flytja jafnvel frumsamið efni eins og djasssvítuna The Fourth dimension (Fjórðu víddina). Hann hélt áfram að vinna með hinn svokallaða frumsamda ljóðadjass og í samstarfi við fjölmörg ljóðskáld voru slíkir tónleikar haldnir undir yfirskriftinni Ljóð & djass m.a. í Háskólabíói, Jóhann Hjálmarsson, Matthías Johannessen og Nína Björk Árnadóttir voru meðal ljóðskálda sem komu fram á slíkum uppákomum og eitthvað hafði verið hljóðritað (árið 1977) með útgáfu í huga.

Carl lék lengi með Gleðigjöfum André Bachmann og undir lok aldarinnar hóf hann einnig að starfa með Geir Ólafssyni og Furstunum og lék með þeirri sveit lengi vel meðan heilsa leyfði. Hann var kominn fast að sextugu um aldamótin og því hafði nokkuð róast í dansleikjarútínunni en þess í stað komu annars konar verkefni, hann stjórnaði t.d. Valskórnum um tíma, stjórnaði hljómsveit í leiksýningu í Borgarleikhúsinu (og í Kaffileikhúsinu) og kom að smærri verkum eins og dinnertónlist og plötuupptökum, m.a. við gerð afmælisplötu á vegum Tónlistarskólans í Hafnarfirði sem gefin var út í tilefni af 50 ára afmæli skólan, hann hafði þá lengi starfað við skólann, stjórnað þar skólahljómsveit o.fl.

Carl Möller

Árið 2000 hófst vinna við að koma út plötu með ljóðatónlistinni, þ.e. djasstónlist Carls við upplestur ljóðskáldanna sem hljóðritaður hafði verið nokkrum árum fyrr. Til stóð að plata kæmi út aldamótaárið en þegar ljóst var að upptökurnar voru gallaðar – og týndust svo tímabundið í ofanálag, frestaðist útgáfan en platan kom loks út árið 2001 undir titlinum Októberlauf. Þetta ljóða- og djasstónlistarsamstarf hafði þá staðið síðan 1974 en varð þarna að varanlegu efni með útgáfu plötunnar, sem Smekkleysa gaf út. Hún hlaut ágæta dóma í Morgunblaðinu.

Carl hélt áfram að semja djass við ljóð Jóhanns Hjálmarssonar og var á þessum tíma einnig að vinna að útsetningum á íslenskum þjóðlögum sem til stóð að gefa út síðar en af einhverjum ástæðum komst það efni aldrei á það stig að verða gefið út. Kannski gafst aldrei tími til þess því árið 2001 var hann ráðinn sem annar af tónlistarstjórum við Fríkirkjuna ásamt Önnu Sigríði Helgadóttur, þau störfuðu saman við það allt til ársins 2011 og var það ærið fjölbreytt starf. Sjálf komu þau heilmikið fram í kirkjulegum athöfnum með söng og píanóleik en einnig sungu þau saman á tónleikum í Fríkirkjunni. Þar fyrir utan héldu þau utan um allt annað tónlistarstarf þar, Carl varð organisti þar í leiðinni, þau stofnuðu og stjórnuðu kór við kirkjuna sem og bjöllukór. Hann var síðar heiðraður fyrir starf sitt við Fríkirkjuna.

Eftir að Carl hóf störf í Fríkirkjunni varð hann minna áberandi á öðrum sviðum tónlistarinnar, hann lék sem fyrr segir eitthvað áfram með Furstunum og á stöku tónleikum eins og t.d. með Ólafi Gauki, Svanhildi og fleirum (reyndar í Fríkirkjunni) og á tónleikum með Mjöll Hólm, sem síðan voru gefnir út á plötu 2007, píanóleik hans er einnig að finna á plötum Geirs Ólafssonar og Bjarna Sigurðssonar frá Geysi. Þá lék hann á minningartónleikum, í stöku brúðkaupum og þess konar samkomum. Árið 2009 hélt Carl djasstónleika í Fríkirkjunni en tilefnið var þá að fimmtíu ár voru liðin síðan hann kom fyrst fram.

Síðustu árin fékkst Carl eitthvað við kennslu, hann kenndi t.d. um tíma við Gítarskóla Ólafs Gauks en síðustu afskipti hans af tónlist var leika á píanó fyrir eldri borgara en einnig stjórnaði hann kór eldri borgara í Grafarvogi um tíma, Korpusystkina. Hann var þá orðinn veikur af krabbameini sem hann lést síðan úr sumarið 2017, tæplega sjötíu og fimm ára gamall.

Efni á plötum