GG blús í lifandi streymi frá Cadillac klúbbnum

Fimmtudagskvöldið 27. ágúst verður GG blús dúettinn með tónleika á Cadillac klúbbnum og verður þeim streymt lifandi í gegnum Facebook-síðu klúbbsins. Tónleikarnir hefjast klukkan 20:30.

GG blús er blúsaður rokkdúett af Álftanesi, skipaður reynsluboltum úr bransanum – Guðmundi Jónssyni sem leikur á gítar og Guðmundi Gunnlaugssyni trommuleikara, báðir syngja þer með svo með sínu nefi. Tvímenningarnir hafa undanfarin ár spilað sambland af sígrænum ábreiðum og frumsömdu efni hér og þar um borg og bý. Þeirra fyrsta plata, Punch kom út í fyrra og fékk prýðilegar viðtökur en gripinn má m.a. heyra á Bandcamp, Spotify og víðar.

Þeir nafnar lofa heilmiklu fjöri í streyminu þar sem frasaskotin gítarvinna tekst á við óhaminn trommuslátt og grípandi sönglínur fljóta yfir, innblásnar af tregafullum textum og litaðir með hljóðbrotum og þankagangi úr ýmsum áttum – trúir blúshefðinni en samt móttækilegir nútímanum.