Afmælisbörn 19. september 2015

RJF2009

Carl Möller

Afmælisbörn Glatkistunnar eru þrjú í dag:

Carl Möller píanó- og hljómborðsleikari er sjötíu og þriggja ára gamall í dag. Hann hefur í gegnum tíðina starfað með fjöldanum öllum af danshljómsveitum, meðal þeirra má nefna Neo tríóið, Sextett Ólafs Gauks, Fimm í fullu fjöri, Hljómsveit Hauks Morthens, Diskó sextett og Sumargleðinni. Carl hefur einnig samið tónlist og platan Októberlauf hefur einmitt að geyma lög hans, aukinheldur hefur hann sjálfur leikið inn á fjölda platna. Hann hefur einnig fengist við að kenna tónlist.

Finnbogi G. Kjartansson bassaleikari frá Keflavík er sextíu og þriggja ára gamall en hann lék með ýmsum Suðurnesjasveitum á sínum yngri árum, oft með bróður sínum Magnúsi. Meðal sveita sem Finnbogi lék með voru Júdas, Júbó, Echo, Steinblóm, Ábót, Fresh, Geimsteinn og Hrókar en sú síðast talda var líkast til fyrsta sveitin sem hann lék með.

Annar Keflvíkingur, Rebekka Bryndís Björnsdóttir fagott- og slagverksleikari hljómsveitarinnar Hjaltalín er þrítug á þessum degi. Hennar fyrstu afrek í tónlistinni voru þó á söngsviðinu því átta ára gömul söng hún á plötunni Hemmi Gunn og Rúnni Júll syngja fyrir börnin, tveimur árum síðar mátti einnig heyra í henni á plötunni Jólaball með Giljagaur. Rebekka er nú við nám í Bandaríkjunum.