Afmælisbörn 19. september 2017

Þórunn Franz

Afmælisbörn Glatkistunnar eru fjögur að þessu sinni:

Finnbogi G. Kjartansson bassaleikari frá Keflavík er sextíu og fimm ára gamall en hann lék með ýmsum Suðurnesjasveitum á sínum yngri árum, oft með bróður sínum Magnúsi. Meðal sveita sem Finnbogi lék með voru Júdas, Júbó, Echo, Steinblóm, Ábót, Fresh, Geimsteinn og Hrókar en sú síðast talda var líkast til fyrsta sveitin sem hann lék með.

Jóhann (Gunnar) Jóhannsson tónskáld er fjörutíu og átta ára gamall í dag en flestir þekkja hann fyrir framlag hans til kvikmyndatónlistar í Bandaríkjunum þar sem hann hefur starfað undanfarið ár og hlotið margs kyns viðurkenningar. Jóhann var hins vegar öflugur á jaðarsenunni hér heim áður fyrr og lék þá með sveitum eins og Unun, Ham, Apparat organ quartet, Big band brutal, DIP, Lhooq, Daisy hill puppy farm, Autobahn og Funkstrasse, svo aðeins fáein nöfn séu nefnd.

Þá á Þórunn Franz (Sigríður Þórunn Franzdóttir) áttatíu og sex ára afmæli en hún vakti athygli fyrir lagasmíðar á sjötta og sjöunda áratug liðinnar aldar, einhverjar þeirra unnu til viðurkenninga í sönglagakeppnum SKT. Ragnar Bjarnason gaf m.a. út fjögurra laga plötu með lögum eftir Þórunni  og voru lögin Farmaður hugsar heim og Föðurbæn sjómannsins meðal þeirra.

Carl Möller píanó- og hljómborðsleikari hefði orðið sjötíu og fimm ára gamall í dag en hann lést fyrr á þessu ári. Hann starfaði í gegnum tíðina með fjöldanum öllum af danshljómsveitum og meðal þeirra má nefna Neo tríóið, Sextett Ólafs Gauks, Fimm í fullu fjöri, Hljómsveit Hauks Morthens, Diskó sextett og Sumargleðinni. Carl samdi einnig  tónlist og platan Októberlauf hefur einmitt að geyma lög hans, aukinheldur lék hann inn á fjölda platna og fékk við að kenna tónlist.