Diskó sextett (1960-61)

Diskó sextett

Diskó sextettinn

Diskó sextett var ein þeirra hljómsveita sem töldust til unglingarokksveita þess tíma er hún starfaði um eins og hálfs árs skeið um 1960.

Meðlimir sveitarinnar voru Guðjón Margeirsson bassaleikari, Björn G. Björnsson trommuleikari, Carl Möller píanóleikari (hugsanlega lék hann á gítar í þessari sveit) og Kjartan Norðfjörð víbrafónleikari sem allir höfðu verið í hljómsveitinni Fimm í fullu fjöri, en auk þess var Berti Möller söngvari sveitarinnar í upphafi þar til Harald G. Haralds tók við því hlutverki um vorið 1960 en sveitin hafði þá verið starfandi í nokkrar vikur. Um svipað leyti gekk Rúnar Georgsson saxófónleikari í sveitina. Garðar Karlsson gítarleikari gæti hafa verið gítarleikari sveitarinnar um tíma í lokin og einnig er mögulegt að Díana Magnúsdóttir hafi sungið með sveitinni í einhver skipti. Þórir Baldursson er einnig sagður viðloðandi sextettinn, sem gítarleikari.

Athygli vakti sumarið 1960 þegar Diskó sextettinn hélt til Vestfjarða til að leika þar en það var þá í fyrsta sinn sem sveit af Reykjavíkursvæðinu spilaði á Vestfjörðum, af því er blöð þess tíma greina frá.

Sem fyrr segir starfaði Diskó sextett í um eitt og hálft ár og hætti því störfum um haustið 1961.