Fjörunginn [tónlistarviðburður] (1996-97)

Frá Fjörunganum ’96

Hljómsveitakeppnin Fjörunginn var haldin tvívegis af Félagi íslenskra hljómlistarmanna (FÍH), árin 1996 og 97, keppnin átti að vera sambærileg Músíktilraunum en með eldri þátttakendum. Hljómsveitirnar áttu að flytja þrjú frumsamin lög og að auki sína útgáfu af laginu Lóa litla á Brú (flutt af Hauki Morthens 1958).

Í fyrra skiptið var Fjörunginn haldinn á skemmtistaðnum 1929 á Akureyri í samstarfi við menningardagskrána Fjöregg sem haldin var í bænum um páskana 1996. Tíu sveitir voru skráðar til leiks, þar af helmingur af höfuðborgarsvæðinu og sigurvegarar urðu hljómsveitin Soma sem hlaut í verðlaun 60 tíma í hljóðveri en sveitin sendi síðar sama ár frá sér plötu.

Síðara skiptið var Fjörunginn haldinn í Bæjarbíói í Hafnarfirði ári síðar (1997) og þá sigraði heimasveitin Bara burt Reynir, litlar upplýsingar er hins vegar að finna frá þeirri keppni t.d. hvað fjölda þátttökusveita varðar en aukalagið sem sveitirnar áttu þá að flytja var lagið Magga – sem Óðinn Valdimarsson hafði gert vinsælt 1959. Bara burt Reynir varð síðar að Úlpu.

Fjörunginn var ekki haldinn í þriðja sinn.