Sverrir Garðarsson [1] (1935-2021)

Sverrir Garðarsson

Sverrir Garðarsson var um langt árabil virkur í baráttu- og félagsmálum tónlistarmanna hér á landi og barðist fyrir réttindum þeirra sem liðsmaður FÍH, þar af í tæpa tvo áratugi sem formaður félagsins.

Sverrir Garðarsson var fæddur 1935 og starfaði sem tónlistarmaður lengi vel, en hann var trommu- og slagverksleikari. Elstu heimildir um spilamennsku hans er að finna frá árinu 1953 þegar hann lék með djasskvartett Gagnfræðaskóla Austurbæjar en síðan tóku við hinar ýmsu hljómsveitir, hann starfaði til að mynda með hljómsveitum Gunnars Ormslev og Jose Riba um 1960 áður en hann var með eigin sveit í Sjálfstæðishúsinu við Austurvöll, þá lék hann með Krummakvartettnum svokallaða og Combói Eyþórs Þorlákssonar en var svo með tríó í eigin nafni á Hótel Loftleiðum á árunum 1968-73, þá var spilamennskan farin að víkja fyrir félagsmálunum. Þó er ógetið að hann lék lausráðinn með Sinfóníuhljómsveit Íslands í um 30 ár.

Afskipti Sverris af félagsmálum tónlistarmanna má líklega rekja allt aftur til 1956 en þá var hann farinn að láta til sín taka innan FÍH (Félags íslenskra hljómlistarmanna). Það var þó ekki fyrr en á sjötta áratugnum sem hann var kominn í stjórnunarstörf innan félagsins, fyrst í varastjórn 1961-63 og sem endurskoðandi 1962-64, ritari 1964-66 og meðstjórnandi 1966-68, það var svo árið 1968 sem hann varð formaður FÍH og gegndi því embætti allt til ársins 1987, lengst allra sem gegnt hafa því. Sverrir fékk miklu áorkað í stjórnartíð sinni, hann var t.d. helsti hvatamaður að stofnun Tónlistarskóla FÍH og kom ýmsu öðru til leiðar, setti á laggirnar lífeyrissjóð, sjúkrasjóð og orlofsheimilasjóð fyrir félagsmenn auk annarra verka. Þá var hann einnig viðloðandi ýmsar nefndir innan FÍH meðan hans naut þar. Sem fulltrúi FÍH var Sverrir einnig varamaður í bankaráði Alþýðubankans, í stjórn Nordisk Musikerunion og fulltrúi FÍH á þingum FIM (alþjóðasambands hljómlistarmanna). Hann var aukinheldur um tíma formaður Sambands listflytjenda og hljómplötuframleiðenda hér heima og var má segja allt í öllu í félagsmálum tónlistarmanna eins og sjá má af þessari upptalningu.

Árið 1987 hætti Sverrir formennsku í FÍH og hætti um leið afskiptum af félagsmálum tónlistarmanna, hann var heldur ekki viðloðandi tónlistarlífið að öðru leyti svo vitað sé eftir það. Hann lést haustið 2021, áttatíu og sex ára gamall.