
Stella í Knarrarnesi
Saga Stellu í Knarrarnesi er dapurleg frásögn um hæfileikaríka söngkonu sem fórnaði draumum sínum fyrir draum foreldra sinna – draumi sem varð ekki ætlað að rætast. Þessi umfjöllun er frábrugðin öðrum á Glatkistunni að því leyti að hér er fjallað um söngkonu sem söng líkast til aldrei opinberlega.
Stella í Knarrarnesi hét Guðríður Jóna Árnadóttir og var fædd haustið 1923 á Akranesi. Fjögurra ára gömul fluttist hún ásamt foreldrum sínum og þremur eldri bræðrum út í eyjuna Knarrarnes út af Mýrum sem er örskot frá landi en um leið einangruð. Þar bjó fjölskyldan og kynntist Stella tónlist í gegnum Útvarpið sem tók til starfa þegar hún var enn á barnsaldri og þar lærði hún að meta óperusöng sem hún fljótlega hóf að syngja með fullum hálsi. Hún hefur verið komin á unglingsaldur þegar hún uppgötvaði að hún náði öllu tónsviði óperusöngkvennanna og áttaði sig á að hún hefði mikla hæfileika á því sviði, á þessum árum var eyjan í hálfgerðri almannaleið enda voru samgöngur lengi vel jafnvel betri á sjó en landi og gestkomandi fólk var á einu máli um að stúlkan hefði náttúrulega hæfileika í söng enda var hún frænka Guðrúnar Á. Símonar og átti því ekki langt að sækja sönghæfileikana.
Það varð úr að einn frændi hennar sem hafði sambönd kom því til leiðar á styrjaldarárunum að Stella kæmist til Þýskalands í söngnám að stríði loknu og var nánast allt frágengið hvað það varðaði. Svo virðist sem Stella hafi á þeim tíma verið komin til vinnu í landi því um mánuði áður en förinni yrði heitið utan fór hún heim í Knarrarnes að kveðja foreldra sína og bræður. Þungt var yfir foreldrum hennar yfir málinu enda var þeim ljóst að ef hún færi utan myndi enginn taka við búinu í Knarrarnesi eftir þeirra dag en þar höfðu þau byggt upp gott bú, bræður hennar færu þaðan ef engin kona væri til að sjá um heimilið því þeir höfðu ekki von um að geta náð sér í eiginkonur sem hefðu hug á að búa í eynni. Við svo búið hætti Stella við að fara utan og mennta sig í sönglistinni til að uppfylla draum foreldra sinna um áframhaldandi búsetu í eynni, hún gat ekki hugsað sér að eyðileggja ævistarf þeirra með þeim hætti.
Þar með gaf Stella drauminn um söngframa úti í heimi upp á bátinn og helgaði sig búinu í Knarrarnesi ásamt bræðrum sínum þremur. Eftir að samgöngur á landi urðu smám saman betri einangraðist Knarrarnes og svo fór að þau systkinin fóru aðeins stöku sinnum í land einu sinni til tvisvar á ári, Stella fór þó til Reykjavíkur árlega þar sem hún dvaldi nokkra daga í senn og fór þá á alla þá tónlistarviðburði sem í boði voru.
Draumur foreldra Stellu um búsetu í Knarrarnesi var aðeins frestur um eina kynslóð því ekkert systkinanna giftist eða eignaðist börn og byggð lagðist af í eynni eftir þeirra dag. Stella lést sumarið 2009 en síðustu sumrin dvaldist hún aðeins á sumrin í Knarrarnesi.
Ómar Ragnarsson á sinn þátt í að halda minningu Stellu á lofti en hann hitti hana í nokkur skipti á ferðum sínum um landið, og var hún t.d. viðmælandi hans í viðtalsbókinni Fólk og firnindi sem kom út 1994, þar segir hann frá því þegar hann heyrði hana syngja og sagði hún honum sögu sína í kjölfarið.