Sverrir Sigurðsson (1906-59)

Sverrir Sigurðsson

Sverrir Sigurðsson var einn þeirra söngvara sem nam söng á fyrri hluta síðustu aldar, kom fram sem einsöngvari á tónleikum en steig þó aldrei skrefið til fullnustu enda var það ekki nema á fárra færi að helga sig söngnum á þeim tíma.

Sverrir fæddist sumarið 1906 á Seyðisfirði, fór til náms við Menntaskólann á Akureyri, þaðan í Samvinnuskólann og svo um tveggja ára skeið í verslunarnám í Þýskalandi. Hann nam söng hjá Sigurði Birkis á námsárum sínum og söng þá m.a. á tónleikum í Gamla bíói og jafnvel víðar á höfuðborgarsvæðinu.

Sverrir fluttist aftur austur á Seyðisfjörð þar sem hann bjó síðan til æviloka, hann starfaði við verslun og sjómennsku áður en hann gerðist gjaldkeri við útibú Útvegsbankans í bænum. Hann söng með samkórnum Bjarma á Seyðisfirði og kom stundum fram sem einsöngvari á skemmtunum eystra af og til en hann var tenór. Sverrir var all þekktur sem söngvari á sínu heimasvæði en lítt þekktur utan þess.

Hann lést sumarið 1959 rétt tæpra fimmtíu og þriggja ára gamall.