
Svensen og Hallfunkel
Pöbbadúóið Svensen og Hallfunkel skemmti Grafarvogsbúum og nærsveitungum um margra ára skeið í kringum aldamótin en sveitin var þá húshljómsveit á Gullöldinni við miklar vinsældir.
Svensen og Hallfunkel (stundum ritað Svenson og Hallfunkel) voru þeir Sveinn Guðjónsson og Halldór Olgeirsson en þeir höfðu starfað saman áður í nokkrum ballhljómsveitum, fyrst með Dansbandinu, síðan Santos, Grand, Völuspá og að lokum Gömlu brýnunum sem varð að Svensen og Hallfunkel þegar ekki var lengur grundvöllur fyrir að starfrækja heila hljómsveit. Þeir félagar byrjuðu að leika á Gullöldinni haustið 1997 undir nafninu Svenni og Halli með hljómborðsskemmtara og raddirnar einar að vopni en vorið 1998 hafði nafnið Svensen og Hallfunkel orðið ofan á og mun vera vísun í Sven Ingvars og Simon & Garfunkel, enda var tónlistin sótt í ýmsar áttir og frá ýmsum tímum.
Svensen og Hallfunkel nutu mikilla vinsælda á Gullöldinni og störfuðu þar allt fram til 2004 og með litlum hléum enda þóttu þeir vera sem hluti af innréttingunni á staðnum, stöku sinnum léku þeir á öðrum stöðum en giggin á Gullöldinni skiptu hundruðum.
Samstarf þeirra Sveins og Halldórs varði því um sjö ár en var í raun mun lengra því þeir höfðu starfað saman í fyrri hljómsveitum síðan 1985. Þeir félagar mættu svo og léku eina helgi á Gullöldinni sumarið 2005 þegar ár var liðið frá því að þeir hættu en síðan hafa Svensen og Hallfunkel ekki komið fram svo vitað sé.