Foringjarnir (1986-91 / 2014-)

Foringjarnir

Hljómsveitin Foringjarnir birtist óvænt með einn af stórsmellum sumarsins 1987, þeir náðu hins vegar ekki að fylgja því eftir og sveitin hvarf jafnskjótt og hún hafði birst.

Foringjarnir voru stofnaðir síðsumars 1986 en sveitin innihélt blöndu reynslubolta og nýliða úr ýmsum ólíkum áttum, þetta voru þeir Þórður Bogason söngvari, Einar Jónsson gítarleikari (Drýsill o.fl.), Oddur F. Sigurbjörnsson trommuleikari (Tappi tíkarrass o.fl.), Jósep Sigurðsson hljómborðsleikari og Steingrímur Erlingsson bassaleikari en tveir þeir fyrst nefndu stofnuðu bandið.

Sveitin fór strax á fullt skrið í spilamennskunni, einsetti sér að því að leika frumsamið efni en hafa cover efni á kantinum og leika helst meira á tónleikum en dansleikjum, málin þróuðust þó á þann veg að böllin urðu ofan á og þar var uppistaðan efni eftir aðra tónlistarmenn. Frumsamda efnið varð því nokkuð útundan hjá sveitinni en nokkur slík lög fengu þó að fylgja með, tónlist sveitararinnar var rokk í anda sveita eins og Bon Jovi.

Foringjarnir fengu yfirleitt ágæta dóma fyrir framlag sitt, t.d. var sveitin meðal nokkurra sem hituðu upp fyrir Bonnie Tyler þegar hún hélt tónleika í Laugardalshöllinni í byrjun desember 1986, þar tók Eiríkur Hauksson lagið með sveitinni.

Frameftir ári 1987 léku Foringjarnir á nokkrum tónleikum, m.a. tónleikum til styrktar Amnesty International og öðrum til að vekja athygli á kröfunni um kjarnorkuvopnalaus Norðurlönd en skóladansleikir og annars konar böll urðu smám saman ofan á og þegar voraði gerðu þeir félagar plön um sumartúr um landið og fóru í því skyni í hljóðver til að taka upp stuttskífu. Um það leyti komu þeir fram í sjónvarpsþætti þar sem þeir fluttu frumsamið efni, á þessum tíma hafði lag með sveitinni, Get ekki vakað lengur, komið út á safnsnældunni Vímulaus æska – engar upplýsingar er hins vegar að finna um þá safnsnældu.

Foringjarnir á tónleikum ásam Eiríki Haukssyni

Um sumarið kom svo út fjögurra laga tólf tommu plata undir yfirskriftinni Komdu í partý, þar var að finna tvær útgáfur af gamla Mannakorns-smellinum Komdu í partí (hefðbundin og partý-útgáfa) auk tveggja frumsaminna laga, áðurnefnds Get ekki vakað lengur og Don‘t tell me.

Komdu í partý, sem þarna hafði fengið heilmikla yfirhalningu sló í gegn og keyrði á þær vinsældir á dansleikjum sumarsins og um verslunarmannahelgina á útihátíðinni Gauki á Stöng í Þjórsárdal – ekki aðeins hafði lagið tekið breytingum frá upprunalegu útgáfunni heldur einnig textinn því í stað línunnar þar sem upphaflega segir „þær komu svo með brennivín og Kóka kóla í dós“ var nú komið „Pepsi Cola“ enda var útgáfan styrkt af Pepsi og dömurnar á fram- og bakhlið plötuumslagsins með Pepsi-dósir í hönd. Jafnframt hélt sveitin útitónleika á Lækjartorgi til að kynna útgáfuna, vel studd af styrktaraðilum.

Gunnar Jónsson hafði leyst Jósep hljómborðsleikara af í hljóðverinu þar sem Jósep var á sjó þegar upptökur fóru fram. Fleiri slíkar afleysingar einkenndu sögu sveitarinnar, stundum þurfti að leysa Einar gítarleikara af og þá komu t.d. Þorgils Björgvinsson og Sigurður Kristinsson til sögunnar. Þegar Steingrímur bassaleikari hætti svo í sveitinni um haustið komu ýmsir bassleikarar til og leystu hlutverkið um lengri eða skemmri tíma, þetta voru Jakob Smári Magnússon, Birgir Bragason, Þórður Guðmundsson og Baldvin H. Sigurðsson. Einnig gæti gítarleikarinn Magni Friðrik Gunnarsson hafa komið við sögu Foringjanna einnig.

Foringjarnir í myndatöku fyrir plötuumslag

Minna fór fyrir Foringjunum eftir þessa sumarvertíð og reyndar er margt óljóst um sögu sveitarinnar eftir að Steingrímur yfirgaf hana. Þeir félagar voru alltént ekki áberandi í almennri ballspilamennsku árið 1988 en voru þó meðal sveita sem hituðu upp fyrir Kiss í Reiðhöllinni um haustið. Svo virðist sem ný sveit, Hitt liðið, hafi síðan verið stofnuð upp úr Foringjunum snemma árs 1989 en samt sem áður er eins og Foringjarnir hafi jafnframt eitthvað starfað áfram undir því nafni næstu tvö árin eða svo, m.a. á Keflavíkurflugvelli hjá bandaríska hernum veturinn 1990-91.

Foringjarnir höfðu verið svo gott sem gleymd og grafin hljómsveit í aldarfjórðung þegar jólalag kom frá henni haustið 2014, Biðin eftir aðfangadegi. Lagið vakti ekki neina sérstaka athygli og svo virðist sem lítið hafi verið gert til þess sérstaklega að auglýsa það. Þremur árum síðar (2017) kom svo út þriggja laga smáskífa sem bar heitið Nótt, hér voru á ferð þeir Þórður söngvari, Oddur trommuleikari og Jósep hljómborðsleikari úr upprunalegu sveitinni en þeir höfðu sér til fulltingis nokkra aðstoðarmenn, þeir þrír höfðu einnig komið að jólalaginu.

Það virðist því fullsnemmt að ætla að Foringjarnir séu hættir störfum, þótt sveitin leiki ekki opinberlega hafa þeir þremenningar hist með reglulegum hætti til að búa til tónlist og útlit er fyrir að það verði eitthvað áfram þannig.

Efni á plötum