Þrek (1983-85)

Þrek

Hljómsveitin Þrek var starfandi í Reykjavík um miðjan níunda áratug síðustu aldar, sveitin var ekki áberandi í skemmtanalífinu en mun hafa notið nokkurra vinsælda á Vesturlandi þaðan sem tveir meðlimir hennar voru ættaðir.

Þrek var stofnuð í upphafi ársins 1983 og voru meðlimir hennar þá Halldór Erlendsson gítarleikari, Kristján Óskarsson hljómborðsleikari (Upplyfting o.fl.), Gústaf Guðmundsson trommuleikari (Start o.fl.), Þórður Guðmundsson bassaleikari (Lexía o.fl.) og forsprakki sveitarinnar Þórður Bogason söngvari sem þá hafði verið þekktur rótari í bransanum um tíma. Hugsanlega var annar bassaleikari í sveitinni í upphafi.

Sveitin starfaði þannig mönnuð fram á mitt sumar þegar Kristján hljómborðsleikari og Gústaf trommuleikari hættu í henni og var sveitin óstarfhæf um nokkurra vikna skeið, Kjartan Valdemarsson og Pétur Einarsson komu í þeirra stað.

Um sama leyti voru þeir félagar allir í hljómsveitinni Þrymi sem gaf út lag á safnplötunni SATT 1, og raunverulega var um sömu sveit að ræða.

Þrek vann að plötu haustið 1985 en skömmu síðar virðist sveitin vera hætt, heimild hermir að Hafþór [?] hafi komið við sögu hennar undir lokin en nánari upplýsingar um það er ekki að finna.

Nokkru síðar átti Þórður Bogason eftir að reka hljóðfæraverslun undir nafninu Þrek og síðan gaf hljómsveitin Foringjarnir út tveggja laga smáskífu undir útgáfumerkinu Þrek en Þórður var einmitt söngvari þeirrar sveitar.