Friðrik Friðriksson [1] (1868-1961)

Sr. Friðrik Friðriksson

Sr. Friðrik Friðriksson er þekktastur fyrir að stofna annars vegar knattspyrnufélagið Val og KFUM og K, þar sem honum er eðlilega gert hátt undir höfði en hann hefur einnig tengingu við íslenska tónlistarsögu, annars vegar með stofnun lúðrasveitar og karlakórs og hins vegar með ljóðum sem hann samdi á sínum tíma en hafa nú verið gefin út.

Sögu Friðriks þekkja margir en hann fæddist vorið 1868 í Svarfaðardalnum fyrir norðan, hann missti föður sinn ungur og lifði í fátækt framan af en náði að brjótast til mennta og gekk í Latínuskólann í Reykjavík. Eftir nám fór hann til Danmerkur þar sem hann kynntist starfi KFUM (Kristilegu félagi ungra manna) og í ársbyrjun 1899 stofnaði hann svo KFUM deild heima á Íslandi, fáeinum mánuðum síðar stofnaði hann einnig kvennadeild – KFUK, og gegndi forstöðu félagsins. Innan starfsins stofnaði hann svo knattspyrnufélögin Val í Reykjavík og Hauka í Hafnarfirði auk þess að koma á fót bókasafni, kvöldskóla, bindindisfélagi, skátafélagi, sumarbúðum í Vatnaskógi og fleira. Einnig hafði hann frumkvæði að því að stofna karlakór sem hlaut nafnið Karlakór KFUM og starfaði hann í aldarfjórðung áður en nafni kórsins var breytt í Fóstbræður, en hann starfar enn í dag. Fleiri kórar og sönghópar voru stofnaðir innan félagsins fyrir tilstilli sr. Friðriks, s.s. Kór K.F.U.M. og K., Kvennakór K.F.U.K. og K.F.U.M. kvartettinn. Þá var einnig stofnuð lúðrasveit innan félagsins, Lúðrasveitin Sumargjöf.

Sr. Friðrik helgaði sig starfi KFUM og K alla tíð og var hann heiðraður með ýmsum hætti fyrir starf sitt meðan hann lifði og minningu hans og starfi hefur einnig verið haldið á lofti eftir að hann lést vorið 1961 rétta tæplega níutíu og þriggja ára gamall.

Sr. Friðrik hafði samið og þýtt fjölda ljóða og sálma og árið 1992 kom út geislaplata (og kassetta) undir merkjum KFUM með bassasöngvaranum Magnúsi Baldvinssyni undir titlinum Nú tindra stjörnur: úr söngbók séra Friðriks, og árið 2014 kom svo út plata á vegum Hugverkaútgáfunnar með ýmsum þekktum söngvurum þar sem þeir sungu lög Jóhanns Helgasonar við ljóð hans, sú plata bar titilinn Eftirfylgd, eftir einu lagi plötunnar.

Efni á plötum