Friðrik Friðriksson [2] (1949-)

Friðrik Friðriksson

Friðrik Friðriksson fyrrum sparisjóðsstjóri á Dalvík getur vart annað en talist menningarfrömuður í bænum en hann kom mikið að því að efla hvers kyns menningarstarf þar auk þess að gefa út plötur með fólki úr héraðinu.

Friðrik Reynir Friðriksson er fædddur á Dalvík 1949 og lék hann á trommur með nokkrum hljómsveitum á sínum yngri árum, hljómsveitunum Foxes í Héraðsskólanum á Laugum í Reykjadal, Safír í Mývatnssveit og Hugsjón á Dalvík (sem síðar bar nafnið Safír).

Hljómsveitaferill Friðriks varð ekki mjög langur því hans beið starf við Sparisjóð Svarfdæla sem hann hóf störf hjá 1970, frá árinu 1985 gegndi hann svo stöðu sparisjóðsstjóra til ársins 2008 og í því starfi studdi hann vel við menningarstarf Dalvíkinga og Svarfdælinga s.s. með því að stofna menningarsjóð sem kom að ýmsum verkefnum, hið stærsta er án nokkurs vafa bygging menningarhússins Bergs á Dalvík.

Sparisjóður Svarfæla kom jafnframt að útgáfu nokkurra platna með listafólki úr héraðinu, sem ýmist voru styrktar og gefnar út af sparisjóðnum eða Friðriki sjálfum, alls voru þetta sjö titlar með flytjendum eins og Karlakór Dalvíkur, Tjarnarkvartettnum, Jóhanni Má Jóhannssyni, Barnakór Húsabakkaskóla og Gesti Guðmundssyni.