Friðrik Bjarnason (1880-1962)

Friðrik Bjarnason við harmoníum orgel sitt

Friðrik Bjarnason mætti með réttu kalla föður hafnfirsks tónlistarlífs en hann kom að stofnun og stjórnun fjölmargra kóra í bænum, gegndi organistastörfum og söngkennslu auk þess að semja fjöldann allan af sönglögum sem margir þekkja.

Friðrik fæddist á Stokkseyri haustið 1880 og bjó þar fyrstu tuttugu ár ævi sinnar. Hann hafði snemma áhuga á tónlist og átti reyndar ekki langt að sækja tónlistarhæfileika sína því Páll Ísólfsson, Sigfús Einarsson og fleiri nafnkunnir stokkseyskir tónlistarmenn voru náskyldir honum, faðir hans var jafnframt fyrsti organisti þorpsins, stjórnaði sönghópi þar og samdi einnig tónlist og komst Friðrik þannig snemma í tæri við tónlistargyðjuna.

Friðrik var aðeins sjö ára gamall þegar faðir hans drukknaði þannig að hann bjó við sára fátækt mest alla barnæskuna en barðist til menntunar, hann lauk kennaranámi og starfaði við farkennslu fyrst í heimabyggð sinni á Stokkseyri og í nágrannahreppunum áður en hann fluttist til Hafnarfjarðar árið 1908. Á þeim árum kom hann einnig eitthvað að tónlistarlífinu fyrir austan fjall, stofnaði einhverja skammlífa sönghópa og stjórnaði þeim auk þess sem hann annaðist organistastörf (í Gaulverjabæjarkirkju) en hann hafði byrjað að læra á orgel um tvítugt hjá Sigfúsi frænda sínum, sem barn hafði hann reyndar leikið á orgel eftir eyranu.

Þegar Friðrik flutti til Hafnarfjarðar hóf hann að kenna við barnaskólann í bænum, m.a. söng en hann annaðist einnig söngkennslu í Flensborgarskóla og við Iðnskólann í Hafnarfirði auk þess að kenna eitthvað á hljóðfæri í einkakennslu, hann stofnaði þá og stjórnaði kórum samhliða þeirri kennslu. En hann stjórnaði fleiri kórum í bænum, m.a. við Fríkirkjuna, Bessastaðakirkju og síðan Garðakirkju þar til sú sókn var lögð niður en hann var jafnframt organisti þeirra kirkna auk síðan einnig Þjóðkirkjunnar í Hafnarfirði. Friðrik stofnaði og stjórnaði kvennakór í Hafnarfirði sem hlaut nafnið Erlurnar en sá kór starfaði í nokkur ár sem og karlakór sem kallaður var Friðrikskórinn, og síðast en ekki síst þá stofnaði hann karlakórinn Þresti í Hafnarfirði árið 1912 og stjórnaði honum fyrstu fjórtán árin – sá kór er auðvitað ennþá í fullu fjöri og er elsti starfandi karlakór landsins, Friðrik var gerður að heiðursfélaga í Þröstum á sínum tíma.

Friðrik á sínum yngri árum

Friðrik fór í nokkur skipti utan til að mennta sig frekar í tónlistarfræðum, hann nam m.a. í Kaupmannahöfn orgelleik, söng, hljómfræði og kórstjórnun, en einnig nam hann í Svíþjóð og Þýskalandi. Hann hlaut aldrei fjárstyrki hér heima til að mennta sig en svo var eftir honum tekið í Danmörku að þar fékk hann slíkan námsstyrk. Sagan segir að hann hafi komið með ýmsar tónlistartengdar nýjungar heim til Íslands úr námi sínu, s.s. do-re-mi kerfið.

Friðrik Bjarnason var auk þess sem fyrr er upptalið, tónskáld og mörg sönglaga hans urðu vinsæl og sum þeirra þekkir hvert mannsbarn jafnvel enn í dag. Lög eins og Hafið bláa hafið (Sigling – upphaflega Létt er skrið á skeiðum), Jólasveinar ganga um gólf, Abba-labba-lá og Fyrr var oft í koti kátt (Í Hlíðarendakoti) eru t.a.m. eftir hann en einnig má nefna lög eins og Það kvöldar, Hóladans, Sumarkyrrð, Klukkurnar kalla, Næðingur og Nú er Gyða á gulum kjól, síðast talda lagið söng Haukur Morthens á plötu.

Karlakórinn Þrestir hefur flutt mörg laga Friðriks og sum þeirra voru beinlínis samin sérstaklega fyrir kórinn, fleiri kórar hafa auðvitað einnig sungið lög Friðriks. Annars samdi hann einsöngs- og kóralög auk æskulýðs- og barnalaga en honum fannst nauðsynlega vanta fleiri lög sem hentuðu börnum – þannig kom til dæmis Fyrr var oft í koti hátt til sögunnar. Þess má geta að Friðrik samdi héraðssöng Hafnfirðinga, Þú hýri Hafnarfjörður en eiginkona hans samdi textann. Hann samdi einnig nokkur orgellög og sálma.

Mörg laga hans birtust í nótnaheftum sem Friðrik gaf sjálfur út, nokkur slík hefti komu út á sínum tíma með á sjötta tug laga eftir hann en heildarútgáfa laga hans kom út 1990 og hefur að geyma um tvö hundruð lög. Hann kom einnig ásamt fleirum að útgáfu á bók sem bar heitið Skólasöngbókin, 1. hefti kom út 1918 og 2. hefti tveimur árum síðar, nefna mætti fleiri slíkar bækur sem Friðrik kom að en þessar bækur urður síðar fyrirmynd þess sem Ríkisútgáfa námsbóka gaf síðar út undir nafninu Skólaljóð. Hann kom einnig að gerð annars konar kennsluefnis í tónlist fyrir börn.

Friðrik Bjarnason

Friðrik kom að ýmsum tónlistartengdum félagsmálum, hann var einn af aðalhvatamönnum þess að Tónlistarfélag Hafnarfjarðar var stofnað á sínum tíma og það félag stóð m.a. fyrir stofnun Tónlistarskóla Hafnarfjarðar um miðja öldina. Hann gegndi einnig um tíma stöðu formanns Félags íslenskra söngkennara og kom einnig að útgáfu Heimis: söngmálablaðs, sem kom út um nokkurra ára skeið á fyrri hluta síðustu aldar.

Friðrik lést árið 1962 á áttugasta og öðru aldursári en hann hafði þá átt við vanheilsu að stríða um nokkurra ára skeið, þegar hann fagnaði áttræðis afmæli sínu árið 1960 var stofnaður barnakór í Hafnarfirði sem hlaut nafnið Barnakór Barnaskóla Hafnarfjarðar en var iðulega kallaður Friðrikskórinn honum til heiðurs, sá kór starfaði í tvö ár og gaf út tveggja laga plötu. Friðriki hefur hlotnast ýmis annars konar heiður eftir andlátið, þau hjónin eignuðust aldrei börn og arfleiddu Hafnarfjarðarbæ að öllum eigum sínum, þar á meðal var stórt tónlistartengt bókasafn, hljóðfæri, nótnasafn og fleira sem nú er hýst í Bókasafni Hafnarfjarðar en tónlistardeildin þar hefur hlotið nafnið Friðriksdeild og er stærsta deild sinnar tegundar í almenningsbókasafni hérlendis. Almennt er nafni Friðriks Bjarnasonar gert hátt undir höfði í Hafnarfirði.

Fjöldi laga Friðriks hafa auðvitað komið út á plötum með ýmsum flytjendum enda mörg þeirra þekkt sem fyrr segir, ekki hefur þó verið ráðist í heildarútgáfu á lögum hans þrátt fyrir að það sé auðvitað löngu tímabært.