Afmælisbörn 27. nóvember 2017

Friðrik Bjarnason

Afmælisbörn dagsins í Glatkistunni eru fimm talsins í dag, flest þeirra eru söngkonur:

Björg Þórhallsdóttir sópran söngkona frá Akureyri er fimmtíu og þriggja ára gömul í dag. Hún hefur sent frá sér þrjár plötur, þar af eina jólaplötu. Björg var bæjarlistamaður Akureyrar árið 2007.

Klara Ósk Elíasdóttir, Klara í Nylon, er þrjátíu og tveggja ára gömul á þessum degi, þessi söngkona hefur gert garðinn frægan í stúlknasveitinni Nylon (síðar The Charlies). Hún hafði áður sungið á plötu Heimis Sindrasonar, sungið á plötu gegn reykingum, tekið þátt í uppfærslum söngleikja í Verzlunarskóla Íslands og sungið í Samfés.

Edda Heiðrún Backman söng- og leikkona hefði átt stór afmæli í dag en hún hefði orðið sextug. Tónlistarferill Eddu snerist einkum um leikhúsið og kvikmyndir en hún sendi einnig frá sér plötur með söng sínum, sem oftar en ekki var fyrir börn, þar á meðal er platan Fagur fiskur í sjó, sem hún vann ásamt tónskáldinu Atla Heimi Sveinssyni.

Hafnfirðingurinn Friðrik Bjarnason organisti og tónskáld (1880-1962) hefði einnig átt afmæli, hann stofnaði fyrsta kvennakór landsins, stofnaði einnig karlakórinn Þresti og stjórnaði honum lengi. Friðrik var frumkvöðull á ýmsum sviðum tónlistar hér á landi og er talinn hafa komið með do-re-mi kerfið til Íslands.

Erla Traustadóttir söngkona (f. 1942) átti þennan afmælisdag einnig, hún söng með hljómsveitum á dansstöðum borgarinnar á sjöunda áratugnum, s.s. Hljómsveit Karls Lilliendahl, Sextett Ólafs Gauks og Hljómsveit Ragnars Bjarnasonar. Erla lést 2001.